10.5.01

Fyrsta endurokeppni sumarsins í Þorlákshöfn





Einar sigrar eftir erfiða keppni 

Fyrsta maraþonakstur sumarsins á torfærumótorhjólum, eða enduro eins og það kallast i daglegu tali,
var haldinn á söndunum við Þorlákshöfn síðastliðinn laugardag. Þetta er í þriðja sinn sem keppnin
er haldin þarna og stækkar hún með hverju árinu. Að þessu sinni voru 98 keppendur skráðir til leiks í
báðum styrkleikaflokkum sem er nýtt met í þátttöku í akstursíþróttakeppni á íslandi. Rigning og suddi
voru alla keppnina sem gerði sandinn þyngri og brautina erfiðari en oft áður.

Fór þrjár veltur

í A-flokki voru það 63 keppendur sem hófu keppni og er óhætt að segja að sandurinn við höfn Þorláks hafi nötrað og skolfið þegar þeir fóru af stað. í þessari keppni er ræst þannig að keppendur taka sér stöðu 10 metra frá hjóli sínu og þegar flaggað er hlaupa þeir allir til, stökkva á hjólið, setja í gang og þeysa af stað. Það má segja að keppni í þessum flokki hafi verið spennandi allan tímann og réðust úrslit ekki síst af fyrirhyggju og góðum undirbúningi auk snilldaraksturs efstu manna. Einar Sigurðsson og Ragnar Ingi Stefánsson skiptust á að hafa forystu mestalla keppnina eftir að Viggó Örn Viggósson hafði dottið. Byltan hans Viggós  var allsvakaleg, að sögn sjónarvotta. Hann datt á um 80 km hraða og fór hjólið þrjár veltur en hann sjálfur endaði hátt í 30 metra frá hjólinu. Sem betur fer fyrir hann og hjólið var þetta í mjúkum sandi og gat hann því haldið áfram keppni.

Skiptust á forystu

Einar og Ragnar keyra mjög mismunandi hjól, Einar notar stórt og óflugt KTM-fjórgengishjól sem  hann gat keyrt mjög hratt á köflum. Ragnar er á helmingi minna Kawasaki tvígengishjóli sem er viðráðanlegra í torfærum sandinum en ekki eins hraðskreitt. Þannig skiptust þeir á forystunni mestalla keppnina, Einar þurfti bara að stoppa einu sinni í pyttinum til að taka bensín og réð það miklu um úrslitin.
Undir lokin missti Ragnar svo Viggó fram úr sér þegar hann hafði þurft að taka niður gleraugun og keyra með augun full af sandi. Þegar upp var staðið munaði ekki nema 50 sekúndum á
þessum þremur efstu sem voru í algjörum sérflokki, sex mínútum á undan næsta manni. Alls kláruðu 56 keppendur í A-flokki þessa erfiðu keppni og töluðu menn um að brautin hefði verið erfið en jafnframt mjög skemmtileg. Efstu menn kláruðu alls ellefu hringi sem er mikil keyrsla, brautin var rúmir átta kílómetrar svo að þeir hafa þurft að keyra tæpa hundrað kílómetra í mjög erfiðu og þungu færi. Einar, sem er íslandsmeistari frá því í fyrra, er því efstur til Íslandsmeistara eftir keppnina, Viggó annar og Ragnar þriðji.

 Tilþrifaverðlaun DV Sport fékk Viggó Örn svo fyrir stóru veltuna.
Næsta keppni fer fram í nágrenni Reykjavíkur 16. júní næstkomandi, nánar tiltekið á Hengilssvæðinu.
-NG 

DV
10.5.2001