18.6.01

Viggo Öruggur


Sigurvegari í 2. umferð í enduró

Fyrsta konan sem keppir í enduro á íslandi,
Anette Brindwell, en hún kom hingað frá Svíþjóð.
Keppnin í B-flokki var einnig spennandi
þótt þar væru helmingi færri keppendur

Önnur umferð íslandsmeistaramótsins í enduro, maraþonakstri á torfærumótorhjólum, fór fram við Kolviðarhól á laugardaginn. Alls var 81 keppandi skráður til leiks og hófu 80 keppni, 27 í B-flokki og 53 í A-flokki. Meðal keppenda í A-flokki var ein kona frá Svíþjóð, Anette Brindwell, sem keppir í sænska meistaramótinu. Þetta var í fyrsta sinn sem kona tekur þátt í þessari erfiðu keppnisgrein og gekk henni ágætlega, keyrði af öryggi og lenti í 36. sæti á KTM 200 lánshjóli. 

Einn 12 ára keppandi 


Byrjað var á keppni í B-flokki en hann er fyrir þá sem eru styttra komnir í sportinu og vilja vinna sig upp í A-flokk. Keyrt er i eina klukkustund sem er helmingi styttri tími en í A-flokki. Meðal keppenda þar var yngsti keppandinn, aðeins 12 ára gamall, Arnór Hauksson, á Yamaha 80, en hann varð í 17. sæti. Hann er sonur Hauks Þorsteinssonar sem keppti í A-flokki og varð þar í þriðja sæti. Greinilega upprennandi keppnismaður á ferð og á næstu tveimur árum munu fleiri strákar bætast í yngsta hópinn. Sá sem vann B-flokk nokkuð örugglega var Gunnlaugur R. Björnsson á Yamaha WR 426, með 4 ekna hringi á tímanum 46,49. Annar var Elmar Eggertsson á Kawasaki KX 250 og þriðji Björgvin Guðleifsson á KTM 200. Nítján fyrstu í B-flokki óku fjóra hringi í brautinni sem var um sex kílómetra löng.

Hringaði alla nema Einar

Það voru Einar Sigurðsson, Viggó Viggóson, Haukur Þorsteinsson og Ragnar Ingi Stefánsson sem voru fremstir í rásröð og var það Haukur sem tókst að verða fyrstur í gegnum fyrsta hlið. Fram undan var skurður sem lá í hlykkjum og var fullmikil þrenging fyrir keppendur og þurftu öftustu menn að bíða í allt að 3-4 mín eftir að komast í gegnum hann. Eftir fyrsta hring var Viggó Viggósson á KTM 380 kominn með forystuna og jók hana jafnt og þétt alla keppnina allt til loka og sigraði með 11 ekna hringi á tímanum 119, 54 mín., en fékk 5 mínútur í refsingu fyrir að sleppa hliði. Var Viggó þá búinn að hringa alla keppendur nema Einar Sigurðsson sem varð annar. Þriðji varð svo Haukur Þorsteinsson á Yamaha YZ 426 en hraðasta hring átti Viggó Viggóson sem var 10 min. og 21 sek., sett í fyrsta hring, og var meðalhraði Viggós því um 36 km í hraðasta hring. Sýndi Viggó jafna og hraða keyrslu allan tímann meðan talsvert var farið að draga af öðrum og sigraði því örugglega þrátt fyrir refsinguna. 


Bæði keppendur og áhorfendur voru mjög ánægðir með keppnina og brautina, sem bauð upp á breiðan akstur. Vélhjólaíþróttaklúbburinn sáði grasfræi og bar á brautina fyrir keppni þannig að það sem mótorhjólin plægðu upp grær fljótt á eftir. Næsta keppni í enduro fer svo fram á töðugjöldum á Hellu, um leið og hin landsfræga torfærukeppni þeirra. 
-NG 
Dv 18.6.2001