16.6.00

Landsmót í Húnaveri

 Sniglar heimsækja átthagana aftur


Landsmót Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Snigla árið 2000, verður að þessu sinni haldið í Húnaveri en
þann stað má að vissu leyti kalla vöggu Snigla. Landsmót var haldið þar allt frá byrjun og til ársins 1990 en síðasta landsmót þarna var 1994 og aðsóknin sú mesta sem þar hefur nokkurn tímann sést eða um 500 manns. Landsmótið er alltaf haldið fyrstu helgina í júlí og er stærsti viðburðurinn í Sniglaárinu og þangað mætir áhugafólk um mótorhjól af öllum gerðum.
Í ár er búist við fjölda útlendinga á svæðið, en frægð landsmótsins hefur borist víða. Koma þeir helst frá Bretlandi, Þýskalandi, Noregi, Bandaríkjunum, Irlandi og Portúgal. Til gamans má geta gamans má geta að Leicester Motorcycle Act-ion Group í UK verða með hóp-ferð á landsmót Snigla.
Dagskráin er venjulega full af skemmtilegum viðburðum og mikið lagt upp úr því að þeir sem á það koma fái eitthvað fyrir peningana sína. Elduð er svokölluð landsmótssúpa á föstudagskvöldið og á eftir spilar hljómsveitin BP og Þegiðu Ingibjörg fyrir dansleik. Á laugardeginum er einna mest um að vera og fer mestallur dagurinn í skemmtilega leiki á mótorhjólum og án þeirra. Hápunkturinn er eflaust íslandsmótið í Snigli, en skapast hefur mikil hefð fyrir því á landsmóti. Þar keppa tveir og tveir í einu á brautum sem eru 16 metrar á lengd og einn á breidd um hver sé lengst að fara leiðina án þess að setja niður fætur. Íslandsmetið á Steini Tótu í Vélhjólum & Sleðum og er það 1,09 mín. og hefur það staðið síðan 1996. í mörg ár á undan átti Einar Hestur, hljómborðsleikari Sniglabandsins, þó metið. Fleiri skemmtilegir leikir eru, t.d. tunnuvelta þar sem menn keppast um að velta á undan sér tunnu með framdekkinu og einu sinni var keppt í Zippómundun.
Búist er við að fjöldi manns muni mæta í ár enda eru allir velkomnir, hvort sem þeir koma á tveimur hjólum eða fjórum.

-NG 
DV Bílar 16.6.2000