29.6.00

Á vespu í vinnuna

Vespumar þeirra Helgu og Gunnars eru með gamla laginu en
 margar af nýjustu módelunum, og sérstaklegaþær japönsku,
 eru mjög nýstárlegar í útliti.

Langar til að stofna vespuklúbb á íslandi

Nokkuð hefur borið á því að undanförnu að vespur séu farnar að sjást á götunum í auknum mæli. Eflaust hefur góð tíð haft eitthvað með það að gera en mörg þessara farartækja eru gömul hjól sem dregin hafa verið út úr skúrum og gerð ökufær á ný. Helga Ólafsdóttir er stoltur eigandi Piaggio 125 vespu sem er ítölsk vesputegund með gamla laginu. Hjólið hennar er reyndar svo að segja nýtt, kom á götuna 1998. Helga átti sjálf vespu fyrir tíu árum og þegar nauðsynlegt var að bæta við öðru farartæki á heimilinu var ákveðið að láta gamlan draum rætast aftur og varð því vespa fyrir valinu. „Ég átti gamla Piaggio vespu fyrir einum 12 árum og það var aldrei spurning um að fá sér slíkt tæki aftur," segir Helga. Kunningi hennar, Gunnar Þór Arnarson, á líka eina nýja Piaggio 50 sem hann keypti í Danmörku í sumar. „Ég var á hjólinu nokkrar vikur úti í Kaupmannahöfn," segir hann. „Þar er miklu betur búið að slíkum tækjum og maður er eldfljótur á milli staða." Helga segir reyndar að hún finni mun á því að aka vespunni sinni núna og fyrir tólf árum, það sé miklu meira tillit tekið til mótorhjóla í dag. „Margir hafa líka komið að máli við mig þegar ég hef þurft að stoppa á hjólinu einhvers staðar og viljað segja mér frá gömlu vespunni sinni sem þeir áttu fyrir mörgum árum." Á sjötta og sjöunda áratugnum var mikið af slíkum farartækjum í umferð á íslandi og voru þau meðal annars notuð til sendiferða hjá ríkisstofnunum og í eina tíð var hægt að fá Victoria vespur leigðar í Reykjavík, upp úr 1950.

Ætla að stofna vespu vinafélag

„Okkur fannst að þetta gæti verið sniðug hugmynd þar sem þessum tækjum virðist vera að fjölga mikið. Þetta eru sniðug tæki í umferð og komast hvert sem er, eyða nánast engu og aldrei vandamál með bílastæði. Tryggingarnar eru náttúrlega í hærri kantinum en samt ekki eins og á mótorhjólunum sem eru bókstaflega fáránlegar. Einnig vantar allar reglugerðir fyrir hjól af þessari stærð. Þegar nýja ökuréttindalöggjöfin kom til afgreiðslu var til dæmis ökuréttindaflokki Al, sem er alls staðar í Evrópu utan íslands, sleppt úr en hann er einmitt ætlaður fyrir tæki eins og þessi. Svona klúbbur gæti meðal annars haft það á stefnuskrá sinni að ýta á eftir hagsmunamálum vespueigenda," sögðu þau að lokum. Þau Helga og Gunnar Þór hvetja alla vespueigendur til að hafa samband við sig á netfanginu
vespur@visir.is og ef viðbrögðin verða góð verður haldinn stofnfundur Vespuvinafélagsins fljótlega. -NG
DV 29.7.2000