26.5.99

Tekið í nokkur torfæruhjól

KLX 300

Á dögunum bauðst DV að fara stutta ferð og prófa nokkur af þeim torfæruhjólum sem eru á markaðinum í dag. 

Tækin sem prófuð voru komu frá Vélhjólum og sleðum og KTM á íslandi og voru þetta Kawasaki KLX300 og KTM ECX 200 og 380. Eknir voru nokkrir slóðar í nágrenni Reykjavikur og komið við í gryfjunum fyrir ofan Mosfellsbæ. 

Nokkuð er um liðið síðan umsjónarmaður mótorhjólaprófanna hjá DV hefur komið nálægt þessu sporti af einhverju viti þannig að lita verður á þessa grein sem kynningu frekar en alvöruprófun.

Kawasaki KLX300

 Lagt var af stað um sjöleytið úr Grafarvoginum og byrjað á Kawasaki-hjólinu. Það hjól er með svokölluðu Stroker-kitti sem bætir nokkrum hestöflum við það en hestöfl eru ekki það sem þetta 300 rúmsentímetra hjól vantar. Hjólið var frekar lággírað, með 47 tanna afturtannhjóli, þannig að betra var að taka af stað í öðrum gir til að koma í veg fyrir Viagraáhrif. Maður er strax eins og heima hjá sér á þessu hjóli þar sem öll stjórntæki eru vel staðsett og kúplingin sérstaklega létt. Auðvelt er að ráða við það í venjulegum götuakstri, þökk sé fjórgengismótornum sem hefur mjög skemmtilegt snúningssvið sem kemur manni strax á óvart. Ekið var sem leið liggur um Grafarvoginn og yfir Vesturlandsveg, upp að rótum Úlfarsfells, þar sem við tókum slóða upp í fellið. Brekkurnar þar voru þessu hjóli ekkert vandamál og hægt var að láta það lulla þær í öðrum gír ef því var að skipta.
Uppi í miðju Úlfarsfellinu var stoppað til að taka nokkrar  myndir og á meðan dundaði umboðsmaður KTM sér við að reyna við langa brekku með barði efst.  Leiðin niður fellið var hjólinu
jafnauðveld og upp það þótt hjartað hefði einu sinni tekið kipp í brattri brekku þegar ég hélt að ég væri að missa það í stórgrýtisurðinni. Það hefði ekki verið beysið að koma með nýtt hjól úr prófun stórskemmt en þar sem hjólið er létt og meðfærilegt reddaðist það nú allt saman. í slóðunum á jafnsléttu komu siðan kostir hjólsins vel fram og eini galli þess líka: hart sæti sem rak mann til að vilja keyra það frekar standandi en sitjandi. Nokkuð hefur borið á því hjá framleiðendum undanfarin ár að hafa á boðstólum létt fjórgengishjól með litlum en öflugum mótorum eins og þetta. Óhætt er að segja að KLX-ið er þar ofarlega á vinsældalistanum og Stroker-búnaðurinn gefur því tilfinningu fyrir afli, svipuðu og í tvígengishjóli, en meö kostum fjórgengismótors, þ.e. togi og jafnara „powerbandi".

KTM ECX380 

Í gryfjunum í Mosfellsbæ var svo komið að því að setjast á KTM 380 með tvígengismótor. Það hjól er mjög öflugt, eða 61 hestafl, og eins og tvígengishjóla er siður skýst allur krafturinn fram á háum snúningi. Gæta þurfti sín á að missa hjólið ekki upp þegar aflið sagði til sín og betra var að reyna að ná því í spól til að hemja það. Það kom mér nokkuð á óvart hversu létt þetta hjól er og auðvelt að höndla það. Bensíngjöfin er einstaklega næm sem er mikill kostur í þessu umhverfi og gefur þá tilfinningu að maður hafi fullkomna stjórn á henni. Brekkur og hólar voru því eins og að drekka vatn þótt ég hefði látið þessar stóru vera og látið verkstæðisformann KTM um að leika sér í þeim. Setti hann á svið heilmikið sjónarspil þannig að ég hugsaði með mér að best væri að ég kæmi hingað aftur fljótlega með gamla XRið mitt og æfði mig aðeins meira áður en ég færi aftur út að hjóla með svona ökumönnum.  KTM er einn þekktasti framleiðandi torfæruhjóla í dag og er merkið austurrískt. Mótorinn í þessu hjóli er sjálfstætt framhald af 360-mótornum frá þeim framleiðanda og er kominn með góða reynslu. Kostir hjólsins eru samspil öflugs mótors og léttleika sem gefur fljótt þá tilfinningu að maður ráði vel við hjólið. Það eina sem maður óskaði sér eftir aksturinn var að hafa aðeins meiri reynslu því hjólið býður upp á miklu meira en ég réð við.

KTM ECX200

Á bakaleiðinni var svo komið að því að setjast upp á KTM 200. Þetta er minnsta og jafnframt léttasta hjólið af þeim sem prófuð voru, eða aðeins 96 kíló. Samt sem áður er það með öflugum 46 hestafla mótor en gefa þarf því meira inn en 380-hjólinu til að aflið komist til skila. Þetta hjól er alveg ótrúlega létt og þegar ég hélt að ég væri að missa það á hliðina í stórum forarpolli þurfti ekki nema smáhnykk á stýrið og fulla inngjöf til að skjóta því upp á barðið hinum megin. Hjólað var til baka gegnum Skammadalinn og með fram Úlfarsfellinu. Þrátt fyrir að hjólið vinni best á góðum snúningi er ekki hægt að segja að mikil hætta sé á að missa það út úr höndunum á sér því að léttleikinn er slíkur að það er eins og að vera með skellinöðru undir sér. Á malarvegunum með fram Hafravatninu var mjög gaman að aka á lausamölinni og auðvelt að ráða við hjólið, hvort sem var á bremsu eða inngjöf. Það var fyrst núna að mér fannst ég geta haldið aöeins í við  umboðsmanninn þótt ég æki ekki hálfa leiðina heim á afturhjólinu eins og hann. Það kom honum loks í koll þegar hann prjónaði yfir sig í fjórða gír og hjólið kollsteyptist tvær veltur. Miðað við hvernig þetta leit út skemmdist græjan alveg ótrúlega litið - skakkt stýri og ekki annað að sjá á því. Reyndar brettist upp á neðsta hlutann á innra brettinu enda búið að grafa með því 20 metra langan skurð áður en það fór endanlega yfir sig. Við prófun 200-hjólsins er annars fátt að bæta öðru en því  að þetta hjól hentar vel öllum, hvort sem þeir eru byrjendur eða vanir keyrarar. Auðvelt er að höndla  það í  hvaða akstri sem er.

KTM 200EXC  og KTM 380EXC


  Hvað um krakkana?

Í lokin fylgdumst við með 9 ára gömlum syni umboðsmannsins á nýja 65 rúmsentímetra krossaranum sínum í skellinöðrugryfjunum í Grafarvogi. Þrátt fyrir lítinn mótor er það ein 19 hestöfl og áður en við vissum af var guttinn farinn að taka fyrir okkur nokkur stökk.
Þessa braut lét Mótorsmiðjan gera á sínum tima en hún hefur aðeins látið á sjá og gaman væri ef borgin gæti séð af einni traktorsgröfu þarna í einn eða tvo daga til að ungu strákarnir geti haldið áfram að æfa sig þarna. Persónulega held ég að mörgum liði betur að vita af þeim þarna heldur en úti
í umferðinni, innan um stærri ökutæki sem fara helmingi hraðar yfir. Það er nú einu sinni svo hérna að í ökuréttindalöggjöfinni okkar er stórt gat sem er réttindi á 125 rúmsentímetra hjól, en þau fær maður Í flestum öðrum Evrópulöndum. Afleiðingin er sú að stökkið af skellinöðrunni upp á stóra torfærahjólin er nokkuð hátt. Við skulum vona að þeir sem bera ábyrgð á þessum málum beri gæfu til að gera þar bragarbót.
-NG
DV 26.5.1999