Guðni Guðmundsson, organisti í Bústaðakirkju:
Ég þarf ekki annað en að sjá mótorhjól á götu til þess að verða spenntur eins og lítið barn. Ætli ég teljist ekki forfallinn mótorhjólamaður," segir organistinn Guðni Guðmundsson, sem hefur síðstliðin átta ár ekið um borgina á forláta afmælisútgáfu af Hondu Shadow. Vetrartímann segist Guðni nota til að dytta að hjólinu og láta betrumbæta það. Hann hefur meðal annars látið brenna myndir af músíkhörpu og friðardúfum á frambrettið. „Það er gríðarlega skemmtilegt að ferðast um á fallegu hjóli og núorðið nota ég hjólið meira og minna allt árið. Maður er stundum andlega lúinn eftir langan vinnudag og þá er fátt meira hressandi en fá sér góðan hjólatúr. Ég er lítið gefmn fyrir göngutúra og nota hjólið í staðinn," segir Guðni.
Frestaði hjólakaupum í mörg ár
Áhugi Guðna á mótorhjólum er ekki nýr af nálinni og nær allt aftur til námsáranna í Kaupmannahöfn fyrir aldarfjórðungi. „Þá vorum við hjónin bæði á hjóli en hún hefur lagt þetta sport á hilluna. Þegar ég kom heim úr námi sögðu menn hér að það væri svo hættulegt að vera á mótorhjóli að ég frestaði því í mörg ár að fá mér hjól. Það var svo fyrir átta árum að ég ákvað að láta slag standa og festi kaup á Hondunni."Guðni segist ekki kunna margar vélhjólasögur en eitt atvik standi þó upp úr í þeim efnum. „Það var einhverju sinni þegar ég var ungur námsmaður i Kaupmannahöm, að ég hitti Rögnvald Sigurjónsson píanókennara á járnbrautarstöðinni. Hann var á leið út á flugvöll en hafði misst af rútunni. Það var auðvitað ekkert annað að gera en að bjóða manninum far og hann settist aftan á hjólið með heljarstóra ferðatösku fyrir framan sig. Mér er enn fyrirmunað að skilja hvernig við komumst klakklaust út á völl, því Rögnvaldur hafði aldrei áður setið á mótorhjóli. Ég hugsaði bara um hversu dýrar hendurnar væru á Rögnvaldi og sennilega á ég aldrei fyrr eða síðar eftir að ferðast með jafn dýran farm og í þetta skipti," segir Guðni Guðmundsson organisti.
-aþ
DV
13.04.1999