20.3.99

Mótorhjólin númer eitt, tvö og þrjú

Hilde B. Hunstuen er eigandi verslunarinnar Gullsport
og haldin ólæknandi Mótorhjóladellu
 

Í versluninni Gullsporti í Brautarholtinu tekur á móti mér ljóshærð stúlka, Hilde B. Hundstuen að nafni. Hún segist eiga þrjú mótorhjól, tvær kisur, páfagauk og kærasta. Hún er eigandi verslunarinnar og haldin ólæknandi mótorhjóladellu.  

Hilde kom til íslands frá Noregi árið 1992, þá tvítug að aldri. Hún hefur alla tíð haft áhuga á  mótorhjólum, en í Noregi varð hún að láta sér lynda að vera aftan á fákum bróður síns og frænda. Hilde þekkti engan á Íslandi þegar hún ákvað að koma hingað en segir að það hafi verið vinsælt í hennar vinahópi heima í Noregi að gera eitthvað öðruvísi en allir aðrir. Sumir fóru til Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Þýskalands en hún sá auglýsingu um að það vantaði au-pair til íslands og ákvað að slá til.
„Ég var hér í nokkra mánuði við að passa börn en fór svo heim til Noregs. Ég hafði þó eignast marga góða vini sem vildu endilega fá mig aftur til íslands og létu sig ekki muna um að útvega mér vinnu og húsnæði. Þegar ég hafði svo verið hér nokkurn tíma byrjaði ég með strák," segir  Hilde. Þar með voru örlög hennar ráðin

Enginn vildi stelpu í viðgerðarstarf 

„Ég vann á ýmsum stöðum, svo sem í Kjötmarki, í matvöruverslun í Hafnarfirði og í fiskvinnslu
úti á Granda. í tómstundum var ég alltaf að dunda mér í Hjólheimum við þetta helsta áhugamál mitt og fór síðan að vinna hér í Gullsporti. Ég eignaðist þó ekki verslunina fyrr en nú í janúar."
Það er nóg að gera en Hilde er ein í versluninni. Hún segist þó fá mikla aðstoð frá öllum sinum vinum, þeir skiptist á að koma og vera henni innan handar við afgreiðslustörf. Í sumar verður hún þó að ráða starfsmann því salan nær hámarki á sumrin.
 Fólk kemur með hjólin sín og Hilde gerir sitt besta til þess að selja þau. Einnig verslar hún með leðurgalla og ýmsa fylgihluti sportsins. Á verkstæðinu er hún síðan að undirbúa hjólin fyrir sumarið en getur þó bara verið þar eftir klukkan sjö á kvöldin þegar hún hefur lokað versluninni. Hilde segir að hún hafi lært með tímanum að gera við. Auk þess stundaði hún nám í hjólaviðgerðum í heilt ár í Noregi.
„Ég sótti um á átján stöðum úti en þar voru fordómarnir gríðarlegir," segir Hilde. „Mér var sagt að þeir vildu gjarnan ráða mig en ekki væri hægt að bjóða kúnnunum upp á að stelpa væri að gera við hjólin þeirra."

Á dagatal með berum strákum 

Hún gafst að lokum upp á þvi að sækja um störf í Noregi og kom til Íslands þar sem engum þykir undarlegt að hún sé að selja og gera við mótorhjól. Hilde fer líka allra sinna ferða á hjóli en hefur aldrei átt bíl. Hún viðurkennir að það sé stórhættulegt að vera á mótorhjóli í glæpsamlegri umferð höfuðborgarsvæðisins en segist klæða sig og aka samkvæmt þeim hættum.
Mótorhjólablöð liggja frammi í versluninni. Framan á þeim öllum eru fáklæddar eða óklæddar, íturvaxnar stúlkur sem halla sér nautnalega fram á vélfáka. Fer þetta ekkert í taugarnar á Hilde?
„Jú, þess vegna fékk ég mér svona," segir hún hlæjandi og dregur fram dagatal með fallegum hjólum og stæltum, olíubornum strákum. Líka fáklæddum.
En eru margar stelpur sem hafa áhuga á mótorhjólum? „Það er harður kjarni, segir Hilde. „Margar koma og fara en við erum fimm sem höfum verið í þessu í mörg ár. Hjá mér eru mótorhjólin áhugamál númer eitt, tvö og þrjú."

-þhs 
DV 20.3.1999

4.3.99

Vélsleðamót og ískross á hjólum við Mývatn

Ásmundur með öflugasta sleðann en Karl vann krossið 



Helginna 26.-28. febrúar fór fram vélsleðamót við Mývatn. Þar var einnig keppt í ískrossi á mótorhjólum sem nokkurs konar sýningargrein. Keppnin var haldin af Vélsleðaklúbbi Mývatnssveitar með fulltingi hjálparsveitarinnar á staðnum og eiga þeir sem að þessari keppni stóðu þakkir skildar fyrir vel undirbúna og skemmtilega keppni.

   Dagskráin var fjölbreytt, á föstudeginum var keppt í GPS fjallaralli og ísspyrnu og laugardeginum í samhliða brautakeppni, snjókrossi og ískrossi á mótorhjólum.

   Keppnin í fjallarallinu fór þannig fram að fjórir voru saman í liði þar sem a.m.k. þrír þurftu að skila sér í mark og töldu timar þeirra samanlagt til vinnings. Ekið var eftir 7 GPS punktum, um 70 km leið.

Úrslit i fjallaralli voru sem hér segir:

  1. Sveit G. Hjálmarssonar hf... .3:20:33 Guðmundur Hjálmarsson Steindór Hlöðversson Ingimundur Benharðsson Björn Stefánsson.
  2. Sveit sportferða hf. 3:45:43 Gunnar Þór Garðarsson Jóhann Gunnar Jóhannsson Elías Þór Höskuldsson Jón Ingi Sveinsson 

Ísspyrnan var haldin til að skera úr um hver ætti öflugustu vélsleðagræjuna. Keppt var á frosinni tjörn sem hafði verið rudd og var þetta útsláttarkeppni. Öflugustu sleðana áttu:

  1.  Ásmundur Stefánsson Arctic cat 1000 7,912.
  2.  Jón Hermann Óskarsson Arctic cat ZRT800 8,69.
  3. Axel Stefánsson Arctic cat 900 8,70.

Daginn eftir var byrjað á samhliða brautarkeppni. Keppa þá tveir á móti klukkunni og síðan útsláttarkeppni milli þeirra átta efstu. Keppt var í tveimur flokkum, undir og yfir 500 rúmsentímetrum.

Úrslit -500 cc: 

  1.  Jóhann Eysteinsson 
  2.  Árni Grant 
  3.  Haukur Sveinsson 
  4. Vilborg Daníelsdóttir 
Úrslit +500 cc :
  1.  Guðlaugur Halldórsson 
  2.  Ægir Jóhannsson 
  3.  Helgi Heiðar Árnason 
  4.  Sindri Hreiðarsson
Keppnin i snjókrossi á vélsleðum var næst og var hún æsispennandi. Keppt var í tveimuíflokkum,vanra og óvanra í skemmtilegri braut sem bauð upp á stökk af palli.
Flokkur óvanra 0-800 cc rúmsentímetra: 
  1.  Árni Þór Bjarnason.
  2.  Kristján Magnússon 
  3.  Markús 
  4.  Gunnþór Ingimar Svavarsson 
Flokkur vanra 0-1200 cc rúmsentímetra: 
  1. Magnús Þorgeirsson 
  2. Alexander Kárason 
  3. Helgi Hreiðar Árnason 
  4. Helgi Ólafsson 
Mótið endaði svo á Ískrossi á mótorhjólum sem var sýningargrein. 
Margir bestu mótorhjólaökumenn landsins sýndu þar listir sínar á braut sem mörkuð hafði verið á tjörninni og var keppnin mjög spennandi og skemmtileg á að horfa. 
Hjólin voru búin skrúfum eða Trelleborg nöglum og fannst mörgum áhorfandanum með ólikindum hvernig hægt var að keyra þau á glerhálum isnum.

Úrslit voru þannig:  
  1. Karl Gunnlaugsson 
  2. 2-4 Einar Bjarnason 
  3. 2-4 Heimir Barðason 
  4. 2-4 Torfi Hjálmarsson 
Þrisvar er eftir að keppa í keppni vélsleða sem klúbburinn Pólaris stendur fyrir og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu. 
Næsta keppni er landsrall 26.-28. mars en 10.-11. apríl verður keppt hér fyrir sunnan.
DV 4.3.1999
-NG/GH