28.5.92

Lífstíll og draumur um frelsi

„Nei, ekki sem ég veit um," svaraði Þorsteinn Marel, betur þekktur sem Steini Tótu, er PRESSAN spurði hann hvort það mótorhjólasport væri til sem hann hefði ekki prufað. 

Steini lifir og hrærist í mótorhjólum. Lifibrauð sitt hefur hann af rekstri Kawasaki-umboðsins og mótorhjólaverkstæðis og frístundirnar fara í hjólin líka. Sem engan skyldi undra, því Steini á átta mótorhjól. Af þeim eru fímm gangfær og hann þeysir á þeim til skiptis, eftir því sem ástæða þykir til. 

Að sjálfsögðu er Steini í Sniglunum og situr þar reyndar í stjórn. „Annars erum við grasrót, — það er enginn formaður og ekki neitt," segir hann. En hvers konar ástríða er þetta eiginlega? „Ástríða já ...þetta er eiginlega lífsstíll og draumur um frelsi. Þetta er einstaklingshópíþrótt..." Bíddu við, einstaklingshópfþrótt? „Jú, þú ert aleinn og tekur þínar eigin ákvarðanir og svífur um heiminn á þínu mótorhjóli í takt við púls vélarinnar og sumarið í kring. En síðan verðurðu að hafa hópinn í kringum þig til að það sé hægt að bera saman og segja frá." Steini segir að það sé gífurleg nautn að þeysa um á vélfákunum frjáls og engum háður og það er svo sem auðvelt að gera sér í hugarlund að það sé rétt.

 Slæm ímynd hefur fylgt mótorhjólamönnum í gegnum tíðina erlendis, hefur hún verið vandamál hér? „Þetta hefur verið áberandi erlendis en lítið hérna á íslandi miðað við þar. Hér eru ekki þessi gengi sem eru annars staðar. En ég held að Sniglamir hafi breytt ímyndinni í jákvæða átt. 
Bifhjólasamtökin eru landssamtök og við viljum líka kalla okkur íþróttasamtök,   við stundum íþróttir af miklum móð. En jú jú, við höfum gert margt til að breyta þessari ímynd, enda er þetta bara venjulegt fólk og í samtökunum eru ruslakallar og þingmenn og allt þar á milli." Þingmenn? Já, Árni Johnsen er Snigill númer 500." Mótorhjól eru kraftmikil tæki sem ná gríðarmiklum hraða og hluti af sportinu hlýtur jú að vera að aka hratt. En það er bannað að aka eins og tækið þolir hér. Að sögn Steina bregða menn sér því í eins konar pílagrímsferðir út fyrir landsteinana til að geta ekið eins og þá lystir. Sumir fara á hraðbrautirnar í Þýskalandi, þar sem hámarkshraði er enginn, aðrir fara á sérhannaðar kappakstursbrautir og svo framvegis. En það geta ekki allir farið utan og Steini segir nauðsynlegt að bifhjólamönnum verði gert kleift að reyna með sér á lokuðum svæðum hér á landi. 
I hitteðfyrra reyndu samtökin að fá leyfi til að loka iðnaðarsvæði uppi á Höfða einn sunnudagseftirmiðdag og reyna með sér. Allir hlutaðeigendur, þar á meðal borgarráð og umferðarráð, tóku vel í erindið og lögðust ekki gegn því. Það er að segja allir nema einn; lögreglustjórinn í Reykjavík gaf ekki leyfi. En ekki dugir að gefast upp. „Nú stefnum við að því að fá að keppa í Fífuhvamminum í Kópavogi sem er óbyggður, en þar eru komnar götur," segir Steini. Hann segir sárlega vanta aðstöðu fyrir bifhjólafólk þannig að það geti reynt með sér. Hraðakstur í venjulegri umferð skapar mikla hættu og alltaf er einn og einn sem ekki getur hamið sig. Draumurinn er náttúrulega kappakstursbraut, en það er dýrt fyrirtæki. — En nú á Landssamband íslenskra akstursíþróttamanna fulltrúa í Umferðarráði svo og Sniglarnir. 
Heimur batnandi fer fyrir mótorhjólaidjót.
PRESSAN 28.05.1992