2.7.91

Mótorhjólamenn slá fram rakalausum fullyrðingum


Guðbrandur Bogason, formaöur Ökukennarafélagsins: Mjög sérstök tilfelli ef fólk tekur próf á einni klukkustund:

„Sniglarnir einfalda mjög mikið þegar þeir segja að mótorhjólapróf
taki aðeins eina klukkustund," segir Guðbrandur Bogason, formaður Ökukennarafélags Íslands. Á laugardaginn fyrir viku héldu Sniglarnir sérstakan hjóladag og á útifundi á Austurvelli í tilefni dagsins kom það fram að mótorhjólakennsla hér á landi væri í molum og að hver sem er gæti fengið próf á mótorhjól eftir klukkustundar kennslu.
Einnig var rætt um það að Sniglarnir tækju að sér 
alla mótorhjólakennslu.

Í samtali við Tímann sagði Guðbrandur að kennsla, sem tæki eina klukkustund, fyrirfyndist varla og
það væri þá ekki nema í mjög sérstökum tilfellum. Það færi eftir bakgrunni hvers og eins, hvemig hann væri undirbúinn fyrir prófið og hvað hann þyrfti langan tíma til að undirbúa sig fyrir það. Hann tók sem dæmi ungling, sem byriar á því að taka próf á léttbifhjól 15 ára gamall. Hann þyrfti að meðaltali að fara í 12 tíma í fræðilegu námi og í fjóra verklega tíma. Unglingurinn æki á hjólinu í tvö ár og tæki þá 10 til 15 ökutíma til þess að fá bílpróf. Hann ætlaði síðan að bæta við sig og taka próf
á stórt bifhjól. Þá gæti verið að hann kæmist af með tvo verklega kennslutíma, en hver kennslutími er 45 mínútur. Þessir tímar gætu verið teknir í eitt og sama skiptið. í prófinu sjálfu þarf hann svo að gangast undir íræðilegt og verklegt próf, sem standa samtals yfir í um 90 mínútur. „Því er þessi fullyrðing Sniglanna, um að hver sem er geti tekið mótorhjólapróf á einni klukkustund, út í hött. Ef að menn eru með þennan góða bakgrunn þegar prófið er tekið, komast þeir hreinlega af með færri
verklega tíma en aðrir." Guðbrandur sagði að það væri mjög sjaldgæft að fólk, sem ekki hefði bflpróf, kæmi til ökukennara og ætlaði að taka mótorhjólapróf. Meirihluti þeirra, sem kæmu til þess að taka prófið, væru búnir að keyra um á bifhjólum réttindalausir og einnig hefðu margir tekið þátt í svokölluðum mótokrosskeppnum, þar sem keppt er á bifhjólum en ekki þykir nauðsynlegt að hafa
bifhjólapróf.
Guðbrandur sagði að það væri þó engin spurning um það að kennsluna þyrfti að bæta verulega, bæði bifhjólakennsluna svo og kennslu á önnur ökutæki. Honum finnst að helst þurfi að bæta fræðilegan þátt kennslunnar, en segir það vera undir löggjafarvaldinu komið hvemig eigi að breyta og bæta þann þátt. Þótt að Sniglarnir myndu taka að sér kennsluna, þá segist hann ekkert vera viss um að hún myndi batna, því það vanti allar kröfur frá löggjafanum. Hann segir að löggjafinn liafi algjörlega brugðist í því að setja lágmarkskröfur og styðja þannig við bakið á starfseminni. Allar reglugerðir hangi í lausu lofti og Ökukennarafélagið sé orðið langþreytt á stöðugu stríði við löggjafann um að fara að taka á þessum málum. Til dæmis séu kennsluhjól ekki merkt sem sérstök kennsluhjól úti í umferðinni og reglur um það, hvaða skilyrði þau eigi að uppfylla, séu mjög óljósar.
Guðbrandur sagðist þó ekki alveg skilja hvað Sniglarnir væru að fara fram á með málflutningi sínum, í sambandi við slæma kennslu, því í málflutningi þeirra væri ákveðin þversögn. „Þeir segja að kennslan sé í molum og það sýni bifhjólaslysin. Á sama tíma segja þeir að þegar árekstur verði milli bifreiðar og bifhjóls, þá séu ökumenn bifhjólanna oftast í rétti. Þá vaknar sú spurning: Hvað er
í rauninni að kennslunni ef réttarstaðan er alltaf bifhjólamannsmegin? Þeir hafa heldur aldrei gefið á því skýringu hvað þeim finnst athugavert við kennsluna. Þama er slegið fram órökstuddum fullyrðingum og ekki tekið fram hvað þeim finnist vanta," sagði Guðbrandur. Auk þess sagði hann að ökukennarar miðuðu sína kennslu við að ekið væri á lögIegan hátt og langflest slysin yrðu þegar ökuhraði væri kominn langt yfir leyfilegan hraða. -UYJ
Tíminn 2.7.1991