4.4.91

Snigill sem ræktar sköpunargleði Austfirðinga


Rætt við Skúla Gautason Sniglameistara um lífið og tilveruna, sambandið við Dóru Wonder og gildi þess að eiga mótorhjól .

Hann er jafnvel þekktur sem leikari og tónlistarmaður en hann er í síðara hlutverkinu þegar við hittum hann að máli á skemmtistaðnum Tveim vinum um páskana. Sniglabandið treður upp með sína skemmtilegu blöndu af lummó rokkslögurum og Halló Akureyri en gestir eru ansi mislitur hópur. Þarna má sjá sum af bestu leðursettum borgarinnar, glaseyga framhaldsskólanema, tvær gellur með hárið í heysátu, einhverja með heysátu í heila stað og númer þrettán.
En sá sem við viljum ræða við er Skúli Gautason gítarleikari og söngvari hljómsveitarinnar.  

Skúli hefur meir en nóg að gera í leiklistinni, var leikstjóri í uppsetningu Flensborgarskólans á leikritinu Keiluspili eftir Sjón, kom fram í páskaleikriti sjónvarpsins sem Palli á Bala og er á leið austur á firði á vegum menntamálaráðuneytisins til að efla sköpunargleði grunnskólanema þar. Sniglabandið er þó fastur liður í tilverunni en þar hefur hann verið með limur frá upphafi. Hljómsveitin er menningarapparat Sniglanna en Skúli er einn af upphafsmönnum þeirra samtaka og telst félagi númer sex.
„Upphaf Sniglanna má rekja til þess að árið 1983 báðu forsvarsmenn útihátíðarinnar Við krefjumst framtíðar mig og Þormar vin minn að safna saman hóp mótorhjólagaura til að taka þátt í hátíðinni. Við gerðum það og vakti sú uppákoma mikla athygli. í framhaldi af því var farið að huga að stofnun félagsskapar okkar og stofnfundur síðan haldinn 1. apríl 1984," segir Skúli. „Sjálft Sniglabandið var stofnað síðar en hljómsveitin á bráðum fimm ára starfsafmæli."

HREÐJAGLÍMA OG LÚDMILLA 

Sniglarnir hafa töluverð samskipti sín í millum og hittast reglulega einu sinni í viku. Þar að auki er árshátíð haldin og hið árlega landsmót, yfirleitt í Húnaveri á sumrin. Á landsmótinu er keppt í ýmsum íþróttagreinum sem þættu undarlegar í ungmennafélagageiranum. Sjálfur mun Skúli Sniglameistari í Zippomundun en auk þess má nefna keppnisgreinar á borð við hreðjaglímu og lúdmillu. Skúli útskýrir þetta.
„Hreðjaglíma fer þannig fram að keppendur eru í fullum leðurskrúða með hanska og lokaðan hjálm og er bannað að hjálmurinn sé með móðufríu gleri," segir Skúli. „Síðan er glímt innan ákveðins hrings og tapar sá sem stígur úr hringnum eða lætur andstæðinginn ná taki á ónefndum stað. Ef hvorugt gerist metur dómnefnd hvor glímir betur. Á síðasta landsmóti þótti ein athyglisverðasta glíman sú er Þormar glímdi við sjálfan sig og var einróma úrskurðaður sigurvegari þeirrar viðureignar.

Lúdmilla er hefðbundnari keppnisgrein og fer þannig fram að keppendur eiga að láta dekk af mótorhjóli rúlla ákeðna vegalengd án þess að nota til þess hendurnar."

NÚNA Á BMW-HJÓLI 

Í máli Skúla kemur fram að hann hefur átt mótorhjól allt frá því hann var pottormur. Í dag á hann BMW hjól. Er hann ræðir um ástæður þess að vera með þetta tómstundagaman kemur fram að hann telur ákveðið frelsi fólgið í því að þeysa um á öflugu hjóli.
„Það er erfitt að lýsa þessari tilfinningu en hugtakið frelsi kemst þar næst," segir Skúli. „Eini ókosturinn við þetta hobbý er að erfitt er að stunda það á vetrum hérlendis þó svo veturinn í ár hafi verið undantekning."
Er ekki skilyrði að eiga hjól til að geta verið í Sniglabandinu?
„Tja tveir okkar eiga ekki hjól núna en það stendur víst til bóta." 

Talandi um Sniglabandið, er ekki rétt að plata sé á leiðinni frá ykkur?

„Ja, geisladiskur. Þetta eru lög sem við tókum upp á tónleikum á Gauki á Stöng nýlega og verða gefin út á disk í sumar. Þarna eru gömul og ný lög frá okkur, íslenskir slagarar eins og Halló Akureyri í okkar útgáfu og nýstárleg útgáfa af laginu Wild Thing svo dæmi séu tekin. Annars er það helst að frétta af hljómsveitinni að hún fer líklega til Jamaíka i vor."
Jamaíka?
,,Já það er soldið skondið mál. Það munu víst hafa verið hérlendis í vetur einhverjir ferðamálafrömuðir frá eyjunni á vegum Flugleiða að kynna staðinn sem ferðamannastað. Þeir heyrðu okkur á tónleikum og urðu svo hrifnir að þeir buðu okkur út í vor. Ef af verður förum við væntanlega í maí."
En hvernig gengur að samræma tónlistina og leiklistina?  
„Bara furðanlega vel. Ég hef ekki efni á að stunda bara annað hvort en í báðum er um óreglulegan vinnutíma að ræða og bæði eru skapandi störf þannig að þau falla vel hvort að öðru í mínu tilfelli." 

ÓLÍKUR TÓNLISTARSMEKKUR

Skúli býr nú með Halldóru Geirharðsdóttur auknefnd Dóra Wonder í hljómsveitinni Risaeðlunni og eiga þau eina dóttur. Skúli segir að tónlistarsmekkur þeirra hjónaleysa sé afar ólíkur en hann hafi ekki undan neinu að kvarta í sambúðinni.
„Það er til mikilla bóta að við erum bæði í poppinu og skiljum þannig starf hvors annars," segir Skúli. „Það eru ekki allar konur sem hafa skilning á því að maður þurfi að vera í vinnunni fram til klukkan þrjú-fjögur á næturnar og öfugt. Við höfum hinsvegar ólíkan tónlistarsmekk og hlustum merkilega lítið á tónlist hvors annars. En ég hef mjög gaman af að fara á tónleika með Risaeðlunni."
Skúli ræðir einnig um að oft geti verið erfitt fyrir hann að losna úr þeim hlutverkum sem hann leikur utan sviðsins. „Ég held ég hafi eyðilagt tvær sambúðir á þennan hátt, það er að vera áfram í rullunni minni eftir að heim var komið, en þetta hefur batnað með árunum." 

Á LEIÐ AUSTUR Á FIRÐI

Aðspurður um hvað sé framundan hjá sér segir Skúli að hann sé nú á leið austur á firði og verður þar næstu tvær vikurnar. Hér sé um verkefni á vegum menntamálaráðuneytisins að ræða og ætlunin að auka sköpunargleði hjá grunnskólanemum þar í sveit. Með honum í þessa ferð fer Guðbergur Auðunsson.
„Hér er um tilraunaverkefni að ræða á vegum ráðuneytisins og förum við tveir í þrjá skóla fyrir austan," segir Skúli. „Markmið þessa verkefnis er að virkja sköpunargleði nemendanna á allan hugsanlegan máta í tónlist, leiklist, myndlist og svo framvegis. Mér skilst að undanfari þessa verkefnis sé umræða sem verið hefur í gangi um að börn eigi í erfiðleikum með að tjá sig og kunni ekki nægilega vel að nýta sér sköpunargáfu sína. Því fer þetta verkefni af stað sem tilraun en ef vel tekst til er ætlunin að framhald verði á þessu víðar um landið."

Hitinn og svitinn á Tveimur vinum er kominn vel yfir frostmarkið þegar Sniglabandið kemur aftur á sviðið að loknu síðara hléi sínu um kvöldið. Skúli fitlar við gítarstrengina er hljómsveitin rennir sér í útgáfu sína af laginu Wild Thing við ómælda ánægju leðursettanna sem fjölmennt hafa á staðinn. Heysáturnar eru enn á sveimi enda „fjörið rétt að byrja," eins og ein þeirra öskrar yfir næsta borð.    

     Pressan 

4. apríl 1991