Myndir: Brynjar Gauti Textí: Borghildur Anna
Kristín K. Harðardóttir og Elí Pétursson:
„Rosalegir fordómar"
Þau eru í Sniglunum bæði - Elí Pétursson og Kristín K. Harðardóttir. Hann er tuttugu og tveggja ára gamall vélvirki, hún er tvítug og afgreiðir í tískuverslun. Þau eiga hjólið saman og hafa mikinn áhuga á íþróttinni. Elí setti reyndar íslandsmet í kvartmílu á síðasta sumri. Núna er Kristín hins vegar eingöngu á hjólinu því Elí er próflaus, missti réttindin fyrir að aka á tæplega hundrað og þrjátíu kílómetra hraða milli Þorlákshafnar og Reykjavíkur.
Reykjavíkur. „Ég var hirtur um verslunarmannahelgina," segir Elí. „Við vorum á leið til Vestmannaeyja en ég gleymdi drasli heima. Skaust í bæinn - en skaust of hratt."
Þetta er að hans mati einungis það sem alltaf getur gerst, í þriðja skiptið sem hann missir prófið og segir annan hvern mann lenda í því að missa prófið. Núna er ekki búið að dæma í málinu, hann er með bráðabirgðasviptingu síðan í ágústmánuði.
„Það er alltaf verið að spyrja mann hvort maður fari nú ekki að vaxa upp úr þessu. En þetta er einmitt öfugt - íþróttin er fyrir fullorðna en alls ekki krakka. Það er svo rosalegur hraðinn, segir Elí og Kristín bætir við:
„Mér finnst agalegt að sjá krakka sem eru nýkomin með bílpróf og hafa fengið sér hjól æða um niðri í bæ, bara í gallabuxum og léttum fatnaði með kannski annan eins klæddan aftan á hjólinu. Enginn hlífðarbúningur og ekki neitt en ekið á fullum hraða." Elí samsinnir.
„Það er líka rosalegur munur á mínu aksturslagi, hvernig ég keyri núna miðað við það sem ég gerði í upphafi. Lít þetta allt öðrum augum í dag.
Leiðindastælar og ruddaskapur
Talið berst að erfiðleikum í umferðinni og bæði senda ökumönnum bifreiða tóninn.
„Ofsalega algengt að menn séu með leiðindastæla ef þeir sjá fólk á hjóli í leðurfatnaði," segir Elí og Kristín reynist hafa lent í útistöðum næstum daglega eina vikuna.
„Þrisvar sem ég lenti í því að fólk réðst á mig með skömmum vegna þess að ég lagði hjólinu í stæði. Menn átta sig ekki á því að ökumenn mótorhjóla eru sektaðir fyrir sömu hluti og ef þeir væru á bifreið. Tvær konur á bíl öskruðu á mig og hótuðu að kæra þegar ég var að ganga frá hjólinu á stæði í eitt skiptið - sögðu þetta bara eiga að vera fyrir bíla." Vandamálið á vegunum eru bílstjórar sem aka alveg upp að hjólunum og þrengja þeim út i kanta og sérstaklega segja þau unga stráka leika sér að því að gera eitthvað í þá áttina og aka síðan hlæjandi í burtu. „Það er bara ein regla til með þessa ökumenn," segir Elí þungbúinn. „Bara að gefa þeim góða dæld í hliðina með löppinni - þeir svína þá ekki oftar."
Oj, örugglega Sniglar
Fordómarnir eru mismiklir og þeim finnst meiri skilningur hafa verið sýndur heima fyrir heldur en úti í þjóðfélaginu og þar eru jafnaldrarnir ekki barnanna bestir. Kristín prófaði fyrst að setjast á hjól hjá Elí og byrjaði að læra strax daginn eftir. En viðbrögð kunningjanna við því voru misjöfn. „Maður verður fyrir aðkasti á mörgum stöðum og sumir vinirnir hætta að tala við mann meira." Og Elí er á sama máli. „Ég fór í bæinn um daginn og þá löbbuðu tveir strákar framhjá og horfðu með viðbjóði á hlífðarfötin sem ég var í - þau eru úr leðri. Svipurinn leyndi ekki neinu og þeir sögðu svo hátt að ég heyrði: „Ojjjj... örugglega Sniglar," eins og þeir væru eitraðir." „En Sniglarnir eru bara félag," segir Kristín. „Eins og flugfélag, sportbátafélag og þess háttar." „Það var eitthvað annað með ömmu,"bætir svo Kristín við hlæjandi. „Hún fékk að prófa að setjast á hjólið hjá mér og finnst þetta alveg æðislegt. Sagðist hefði farið beint að læra núna ef hún væri ung ennþá. En afi fékk næstum slag þegar hann sá myndina af okkur saman á hjólinu!" -baj
DV
okt 1986