12.7.85

Undrasnáðinn Spencer


Hver er besti vélhjólaökumaður heims?
Þessi spurning mun kalla sama svar fram hjá flestum sem fylgjast með: 
Freddie Spencer.
   Þessi 24 ára gamli Ameríkani með barnsandlitið hefur síðan Kenny Roberts dró sig í hlé notið mestrar virðingar allra vélhjólaökumanna. Keppinautarnir gera sér sjaldnast vonir um að geta haldið í við hann heldur í mesta lagi að hann detti út úr keppni.
    „Fast Freddie" er hann kallaður meðal félaga og aðdáenda og mun fá engu minna pláss í vélhjólasögunni en stórnöfn gengin eins og Agostini eða Saarinen.
   
 Freddie Spencer hóf keppnisferil sinn á unga aldri, 5 ára gamall tók hann þátt í kappakstri á vélhjóli. Þótt Freddie sé ungur enn hefur hann því um tveggja áratuga reynslu!
   Í heimalandi sínu, Bandaríkjunum, vann hann götukappakstursmeistaratitil American Motorcycle Association árið 1978, aðeins 17 ára gamall. Fyrsta árið sem hann tók þátt í heimsmeistarakeppni, á 500 rúmsm hjóli 1982, gekk honum svo ótrúlega vel að vinna tvær keppnir og ná 3. sæti eftir tímabilið.
     Árið eftir, 1983, bætti Freddie um betur og náði heimsmeistaratign eftir fleiri sigra en nokkur annar á árinu.  Freddie Spencer varð að eins konar þjóðsagnapersónu, var af mörgum álitinn nær ósigranlegur.
   Síðasta ár varð Freddie þó erfitt. Hann vann enn fleiri keppnir en aðrir (5) en hinn háskalegi akstursmáti „yfirstýringarkóngsins" sagði loks til sín, Freddie datt nokkrum sinnum og meiddist aftur og aftur. Af þeim sökum varð hann að sleppa keppnum og öðrum tapaði hann vegna meiðsla sinna. Þó varð hann í 4. sæti eftir tímabilið.
Bæta við myndatexta
   
     Nú í ár hyggst Freddie kóróna keppnisferil sinn, þegar á fjórða keppnisári sínu í Grand Prix kappakstri. Hann keppir bæði í 500 rúmsentimetra flokki og 250 rúmsentimetra flokki. Til þess fær hann það allra nýjasta og allra besta sem Honda á í fórum sínum, enn betri hjól en hinir verksmiðjuökumennirnir. Það sem af er hefur gengið þokkalega, Freddie hefur sannað að hann er enn kóngur vélhjólakappakstursins með sigrum í báðum flokkum. 
    Freddie Spencer er ólíkur mörgum keppninauta sinna, hann er trúaður Mormóni og fylgir þeirri trú sinni fast. Hann er hlédrægur og lítið fyrir allt glysið og glamrið sem fylgir því að vera álitinn besti vélhjólaökumaður heims. Freddie er borinn og barnfæddur í Suðurríkjum Bandaríkjanna, nánar tiltekið Louisiana og býr þar enn. Kærasta hans er heimamær, fyrrum Miss Louisiana, og fylgir Freddie sínum í háttum.
    Freddie Spencer er einn af fáum mönnum sem uppi eru á hverri öld til að hafa allt að því snilligáfu. Hann getur haft vald á vélhjóli sínu, án þess að sleppa bensíngjöfinni, þótt það renni til og skriki svo keppinautunum ofbýður.  Keppinautar hans eru safn bestu vélhjólareiðmanna heims en enginn þeirra þorir að halda því fram að geta unnið Freddie Spencer í jafnri keppni. Að auki hefur Freddie milli fóta sér það besta sem geysisnjallir tæknimenn Honda Racing Company hugsa upp auk eins besta vélvirkjans í bransanum, Erv Kanemoto sem skrúfað hefur hjól Freddies í mörg ár. Milli þeirra er trúnaðarsamband sem gerir Erv fært að finna nákvæmlega hvað þurfi að stilla eða breyta samkvæmt prófunum Freddies.
    Það er von að Honda reyni að halda í strákinn mað barnsandlitið, auk þess að vinna keppnir fyrir Japanana er Freddie Spencer afar vinsæll persónuleiki og fyrirtæki sínu mjög til framdráttar hvar sem hann er í röðinni meðal keppenda.