12.8.70

Japanir fara fram úr! (1961)

Sigurvegarinn í mótorhjólakeppninni
Mike Hailwood á Honda

Bretar ekki lengur samkeppnisfærir.

Japanir voru alræmdir fyrir það fyrr á árum, að þeir stældu ýmiskonar iðnaðarframleiðslu annarra landa og seldu hana síðan á undirverði á heimsmarkaðnum. Fyrir slíka hugmyndaþjófnaði urðu þeir óvinsælir á Vesturlöndum og eimir enn eftir af því að japanskar vörur eru taldar slæm eftirlíking á framleiðslu annarra þjóða. Á síðustu árum hefur þó orðið veruleg breyting á þessu. Samtök hins japanska iðnaðar beittu sér fyrir því að mannorð iðnaðarins yrði hreinsað. Síðan hafa Japanir varið meiru fé en flestar aðrar þjóðir til inðaðarrannsókna. Afleiðingin hefur orðið sú, að þeir þurfa nú ekki lengur að stæla framleiðslu annarra, eru sjálfir komnir fram úr vestrænum þjóðum á ýmsum sviðum.

Þessi staðreynd kom m. a. í ljós nýlega í hinni alþjóðlegu mótorhjólakeppni sem fram fer árlega á eynni Mön í írlandshafi. Í þessari keppni urðu japönsk mótorhjól af svonefndri Honda gerð í fyrstu fimm sætunum,  bæði 125 og 250 cc flokkunum. Þetta er í þriðja skiptið sem Japanir taka þátt í
mótorhjólakeppninni á Mön og vakti þessi fimmfaldi sigur þeirra því hina mestu furðu.
    Brezku mótorhjólaframleiðendurnir urðu sem þrumu lostnir yfir þessu. Fram til þessa höfðu þeir
ímyndað sér, að japönsk mótorhjól væru lítið annað en léleg eftirlíking á Harley Davidson og öðrum  brezkum mótorhjólum. En nú keyptu brezku fyrirtækin nokkur japönsk mótorhjól, fóru með þau í verksmiðjur sínar, og skrúfuðu þau sundur til að athuga byggingu þeirra.
Þeir urðu enn meira undrandi er þeir sáu byggingu mótorhjólsins. Hún var ekki eftirlíking af neinu vestrænu, heldur. byggð á algerlega nýjum hugmyndum og það mjög góðum hugmyndum. Og nú eru menn farnir að velta því fyrir sér, hvort brezku mótorhjóla-framleiðendurnir neyðist ekki til að fara að stæla hina japönsku framleiðslu.
     En þá kemur upp annað vandamál.
— Hvers vegna eru Japanir farnir að taka þátt í keppnismóti í Bretlandi? — Skýringin er augljós, það er vegna þess, að þeir hugsa sér að komast inn á brezka markaðinn og Evrópu-markaðinn með mótorhjól sín.
   Bretum mun koma það spænskt fyrir sjónir, ef Japanir ætla að fara að keppa á markaðnum heima í Englandi, því að þeir hafa jafnan litið svo á, að þeir sjálfir stæðu allra þjóða fremst í framleiðslu mótorhjóla.
   En tölurnar tala öðru máli. Japanir hafa farið langt fram úr Bretum í framleiðslu mótorhjóla. Árið 1960 framleiddu Bretar 160 þúsund mótorhjól. En á þessu sama ári framleiddu Japanir 1,3 milljónir mótorhjóla.
Eitt einasta fyrirtæki í Japan, Honda, sem smíðaði mótorhjólin er urðu svo sigursæl á Mön, framleiðir fjórum sinnum fleiri mótorhjól en öll framleiðsla Breta er.
   Og nú er svo komið, að mótorhjólamarkaðurinn í Japan er að fyllast, enda þótt íbúatalan sé 96 milljónir. En verksmiðjurnar vilja halda áfram að auka framleiðsluna og bezta leiðin til þess er að flytja út. Árið 1959 fluttu þeir út 25 þúsund mótorhjól og á s.l. ári 75 þúsund. Nú leitast þeir við að margfalda útflutninginn. Þeir eru sem óðast að þrýsta sérinn á markaðina í öllum Asíulöndum, í Afríku og Evrópu. Og nú stefnir óðum að því að brezka mótorhjólaframleiðslan er algerlega ósamkeppnishæf. Japanir eru að taka allan markað frá henni með fullkomnari og ódýrari mótorhjólum.

Vísir
12.08.1961