15.2.70

Megum ekki keyra í hóp á rúntinum(1961)

Það er Magnús Gíslason, sem er í öllum herklæðum á
skellinöðrunni.  Hann er einn af mörgum félögum í
Vélhjólaklúbbnum Elding

Sagt frá heimsókn í vélhjólaklubbinn ELDINGU sem heldur fundi vikulega
í Golfskálanum í Rvík

ÆSKUFÓLK! Tómstundaiðjan er hafin að nýju. Þannig var byrjun á auglýsingu, sem birtist fyrir skömmu í dagblöðunum.
Og við lásum áfram og rákumst á eftirfarandi:
Golfskálinn Vélhjólaklúbburinn Elding, miðvikudag.
Og næsta miðvikudag mætti fréttamaður Fálkans í Golfskálanum. Er komið var að húsinu gaf fyrst að líta rennilegan lögreglubíl og þegar komið var fyrir hornið sást hópur af skellinöðrum. Hér hlaut vélhjólaklúbburinn Elding að vera saman kominn.
Þrír félagar úr Vélhjólaklúbbnum
 Eldingu á fundi í Golfskálanum
Inni sátu 26 drengir á aldrinum 14—15 ára, flestir hverjir. Það var verið að ljúka við að sýna kvikmynd, er fréttamaðurinn knúði dyra og auðvitað varð svolítil truflun, er fréttamaðurinn bar upp erindi sitt. Þarna voru leiðbeinendur Jón Pálsson og Sigurður Ágústsson lögregluþjónn. Sigurður hefur kennt drengjunum umferðarreglurnar og farið með þeim í ferðir um bæinn og verið þeim innanhandar á ýmsan hátt. Þarna var einnig drengur að nafni Símon Kjærnested og er sá formaður klúbbsins.

Spilað BOB
Eftirfarandi samtal er við hann og aðra, sem lögðu orð í belg.
 — Hvað eruð þið margir í klúbbnum? — Um 40 strákar á aldrinum 13—17 ára.
— Hvað gerið þið? — Við komum hér saman á miðvikudagskvöldum. Hér eru kenndar umferðarreglurnar, svo kemur hingað maður, sem kennir okkur um vélarnar. í sumar ætlum við í ferðalög, aðallega upp í Rauðhóla, því þar erum vi ð búnir að fá land. Þar ætlum við að gera brautir og fara í kapp og einnig að leysa þrautir — setja upp kubba og svoleiðis.
— Hvað kostar ný skellinaðra? — Svona 16 þúsund. — Það er dýrt, maður. — Einum of mikið. Maður er allt sumarið að vinna fyrir þessu.
Jón Pálsson,Simon Kjærnsted formaður
klúbbsins og Sigurður Águstsson
 — Hvaða hjól eru bezt? — Viktoría.— Nei, blessaður vertu, það er NSU, sagði annar. Það var auðheyrt, að þetta var viðkvæmt mál.
— Eruð þið ekki óvinsælir? — Af hverju? — Nú, er ekki svo mikill hávaði í skellinöðrunum?
— Já, svoleiðis. Nei, nei, það er bara fyrst. Annars megum við ekki keyra í hóp — t. d. á rúntinum — þá verður allt vitlaust.
— Hvað komizt þið hraðast? — 70. — Nei, 80, sagði annar. Strákarnir fóru að hlæja. Og einn sagði: Þið komizt kannski á 70 niður brekku! Síðan sættumst við á að yfirleitt færu skellinöðrurnar ekki hraðar en 40—50 km á klst.
Klúbbmeðlimir Saman komnir
— Er nokkur kvenmaður á svona hjólum? — Nei, það held ég ekki. — Jú, ég þekki eina, sagði annar ákafur, hún er í Keflavík. — Já, sagði sá þriðji, það er hjúkrunarkona á Vífilsstöðum, sem er á svona hjóli. Sá fjórði sagði eitthvað, sem kom Jóni Pálssyni til að leggja við hlustirnar og hann sagði: Strákar, þið verðið að gæta heiðurs klúbbsins!
Og þá var hinu formlega samtali lokið og það sem á vantar skýrum við bezt með myndum.


Fálkinn 15.02.1961
https://timarit.is