25.5.05

Íslandsmet í hópakstri á mótorhjólum verður sett í júní

Allt að 700 mótorhjól keyra saman 

MILLI 500 og 700 mótorhjól hvaðanæva af landinu munu aka saman síðasta spölinn frá Varmahlíð til Sauðárkróks 16. júní en þá helgi verður þess minnst að 100 ár eru frá því að fyrsta mótorhjólið var flutt til landsins. Ökumennirnir munu leggja af stað frá sinni heimabyggð um morguninn og mætast klukkan 22 um kvöldið í Varmahlíð. Ekið verður í hóp frá Suðurnesjum, í gegnum  höfuðborgarsvæðið og norður í land annars vegar og hins vegar munu ökumenn af Austurlandi og Akureyri hafa samflot til Varmahlíðar.
Hjörtur L. Jónsson, skipuleggjandi hátíðarinnar, býst við því að um 2.000 gestir komi á hátíðina. Hann segist hafa fengið þessa geðveikislegu hugmynd í kollinn og ákveðið að framkvæma hana. Hann setti sig í samband við mótorhjólaklúbba um land allt og hafa viðtökurnar verið góðar. 
„Ég var að vonast eftir því að um 500 hjól kæmu en er hræddur um að þau verði nær 700,“ segir hann. Ljóst er þó að Íslandmet mun falla þegar hjólin koma saman og keyra síðasta spölinn og skiptir þá litlu máli hvort þau verða fimm eða sjö hundruð, þar sem gamla metið er 234 hjól, en það settu Sniglarnir á 1. maí hópkeyrslu sinni hér innanbæjar.“ Hjörtur segir mikla áherslu lagða á að hafa stjórn á umferðarálaginu sem muni myndast vegna þessa, sérstaklega í ljósi þess að Bíladagar eru haldnir á Akureyri þessa sömu helgi. Þannig verður mikið samstarf við lögregluyfirvöld á svæðinu auk þess sem Esso hefur samþykkt að gefa hjólamönnum frímiða í Hvalfjarðargöngin 16. júní.

Minnisvarði um látna bifhjólamenn afhjúpaður

Ýmsilegt er í boði á dagskrá hátíðarinnar og má meðal annars nefna að á sunnudeginum verður afhjúpaður í Varmahlíð  minnisvarði um alla þá sem hafa látist í mótorhjólaslysum hér á landi en minnisvarðinn er gefinn af Sniglunum.
Að öðru leyti segir Hjörtur áherslu lagða á að hátíðin verði fjölskylduvæn. „Hugmyndin  var að sameina alla mótorhjólamenn, torfæru- og götuhjólamenn í eina fjölskylduhátíð. Mótorhjólasport hefur alltaf áhrif á fjölskylduna, hvernig sem á það er litið og hugsunin var sú að fjölskyldan gæti öll skemmt sér með mótorhjólamönnunum og heimamenn líka.“
Eftir Árna Helgason
arnihelgason@mbl.is
25.05.2005