6.8.20

Mótorhjól í bílaflutninga


Fyrirtæki í Svíþjóð sem heitir Coming Through, hefur  byggt talsvert undarlegt farartæki til að flytja bilaða bíla á viðgerðarstað. Farartækið er  í grunninn Honda Goldwing mótorhjól. Aftan á hjólið hefur verið smíðað samanfellanlegt mannvirki úr áli sem, þegar greitt er úr því, myndar þriggja hjóla „búkka“ sem rennt er undir framhjól bílsins sem á að draga. Þetta skýrist ágætlega á meðfylgjandi myndum.


Hveru mikil alvara mönnum er með þessari smíð er okkur ekki kunnugt um en á heimasíðu fyrirtækisins má ráða að allmörg svona Retriever-hjól, eins og tækið kallast, hafa verið byggð og virðast vera í notkun. Meginhugsunin með þessu er sjálfsagt sú að oft er hægt að skjótast á mótorhjóli þar sem bílar eiga erfiðara með að komast, ekki síst stórir dráttarbílar.
Norska bílablaðið BilNorge greinir frá þessu og getur þess í leiðinni að ekki sé vitað hvort bílabjörgunarfyrirtæki í Noregi, eins og t.d. Falck eða Viking, hafi sýnt farartækinu áhuga. 

Nafnið Retriever á þessu farartæki hefur greinilega tilvísun til þekktrar hundategundar; Golden retriever sem þykja afar tryggir eigendum sínum og hjálpsamir. Þeir er talsvert notaðir sem hjálparhundar við t.d. fuglaveiðar og eru duglegir við að sækja bráðina þegar veiðimaðurinn er búinn að skjóta hana niður.
24.9.2010

Átak í gangi til að endurheimta stolið mótorhjól þýsks ferðamanns


Mótorhjóli af gerðinni KTM 620 LC4 var stolið úr bílakjallara Hótels Kletts. Er gripurinn í eigu þýsks ferðamanns. Átak er í gangi til að endurheimta hjólið á vegum meðlima Facebook-hópsins „Hjóladót, tapað, fundið eða stolið“ þar sem fremstur í flokki fer Bjartmar Leósson, en hann hefur fengið viðurnefnið hjólahvíslarinn vegna ötuls sjálfboðaliðastarfs við að endurheimta stolin hjól og önnur verðmæti.

Eftir eina klukkustund hafði tilkynningu um þjófnaðinn verið deilt tæplega 400 sinnum.

„Þessu var stolið af þýskum túrista. Drullusúrt. Getum við sett DEILINGARMET ?? Stolið í gær úr bílakjallara hótel Kletts. Ef einhver sá sendibíl í grenndinni eða eitthvað grunsamlegt látið lögreglu vita,“ segir í tilkynningunni.

Skáningarnúmer hjólsins er VER MI 51

ÁBS  DV 6.8.2020