29.8.15

Ríkasti leikari Indlands fékk lánað mótorhjól Kópavogsbúa

 
Krystian á hjólinu sem um ræðir. Til hægri má sjá Shakrukh Khan.VÍSIR/KRYSTIAN/GETTY

Kópavogsbúinn Krystian Sikora lánaði indverskri stórstjörnu Kawasaki mótorhjólið sitt fyrir tökur á Bollywood myndinni Dilwale sem fram fara hér á landi um þessar mundir. Stjarnan er Shahrukh Khan en samkvæmt The Richest er hann næstríkasti leikari heims. Hann er því ríkasti leikari Indlands.


„Þau vildu hjól í þessum lit,“ útskýrir Krystian en hjólið er eins og sjá má af meðfylgjandi myndum appelsínugult. „Þetta er eina ganghæfa Kawasaki hjólið í þessum lit á landinu. Það voru tvö en ég held að hitt sé ekki lengur í lagi. Þau vildu fá þennan lit og mig grunar að það sé vegna þess að kjóllinn á stelpunni sem var í myndinni var í þessum lit. Auk þess sem þetta er frábær litur sem kontrast við svarta sandinn.“


Krystian ók á hjólinu til Víkur síðasta fimmtudag og hitti þar Khan og aðra í upptökuteyminu. Hringt hafði verið í hann snemma um morguninn og hann kominn á staðinn eftir hádegi. Hlutirnir gerast því greinilega hratt á Bollywood-öld. Krystian var á tökustað í um fjóra tíma á meðan stórleikarinn prófaði hjólið og tók upp senurnar. „Hann var bara rosa kúl,“ segir Krystian spurður um hvernig það hafi verið að hitta leikarann. „Ég vissi reyndar ekkert hver þetta var, ef ég hefði séð hann úti á götu hefði ég haldið að þetta væri bara venjulegur náungi. Hann og leikstjórinn voru svölustu gæjarnir þarna, ekki með neina stjörnustæla eða neitt.“
Hér má sjá leikarann og hjólið í miðjum tökum.



Hjólið vakti lukku Rukh Khan en hann fylgdist með Krystian keyra það áður en hann settist sjálfur á bak. „Svo var hann að keyra hjólið þó að það væru ekkert tökur. Æfði sig smá en það er greinilegt að hann kann að keyra mótorhjól. Enda á hann ábyggilega nokkur sjálfur miðað við hversu ríkur hann er,“ segir Krystian.

Það var áhugavert að fylgjast með tökum á þessari Bollywood mynd en Krystian segir þetta hafa verið öðruvísi en nokkuð sem maður átti að venjast. „Það má kannski segja að sé öðruvísi kúl þarna úti heldur en hér á landi. Það var verið að taka upp tónlistaratriði og lagið er ekki eins og maður er vanur að heyra, stórskrýtnir tónar fyrir okkur. En þetta var bara gaman, gaman að fylgjast með þessari framleiðslu og sjá allar þessar stjörnur.“
Hjólið tók sig vel út á Sólheimasandi.


29. ágúst 2015

20.8.15

Óður til mótorhjólamenningar


Rokk af gamla skólanum mun dynja í miðbænum og mótorhjólakempur þenja vélarnar.

Mótorhjólamenn hafa lengi verið áberandi á Menningarnótt. Þar sýna þeir sig og sjá aðra og bregða oft á leik með skemmtilegum uppátækjum.
Þeir sem hafa gaman af huggulegum mótorhjólum og þykir fátt fallegra en þegar rymurinn í ótal púströrum blandast saman við hljóminn af rafmagnsgítar ættu að leggja leið sína í Naustin, milli Tryggvagötu og Hafnarstrætis. Þar hefur skapast hefð fyrir því að efna til Reykjavik Custom Bike Show þar sem blandast saman sýning á sérdeilis fögrum breyttum mótorhjólum og vænn skammtur af hörðu rokki sem fær hárin til að rísa.

Sigurþór Hallbjörnsson, eða Spessi eins og hann er oftast kallaður, og Halldór „Dóri“ Grétar Gunnarsson standa fyrir þessum viðburði.

Afrakstur vetrarins

„Segja má að þessi uppákoma sé tækifæri til að sýna afrakstur allrar þeirrar vinnu sem átti sér stað í bílskúrum mótorhjólaeigenda veturinn áður. Langt er liðið á mótorhjólasumarið og ekki seinna vænna að sýna hvernig menn hafa breytt og fegrað hjá sér mótorhjólin, og hvaða fáka þeim tókst að smíða frá grunni,“ segir Spessi.
Saga Reykjavik Custom Bike Show nær allt aftur til ársins 2009. Spessi segir að hátíðinni hafi verið valinn þessi staður því að Naustin megi kalla aðalrokkgötu landsins, með landsins fremstu rokkbari og -klúbba allt um kring. Stóru sviði er stillt upp þvert yfir götuna og úrvali fallegra mótorhjóla raðað upp svo að gestir og gangandi geta virt þau vandlega fyrir sér.

„Þriggja manna dómnefnd velur annars vegar flottasta sérsmíðaða hjólið og hins vegar flottasta mikið breytta hjólið,“ segir Spessi og bætir við að á meðan dómnefndin beri saman bækur sínar stígi einvalalið tónlistarmanna á svið. „Við eigum von á hljómsveitinni Erik, með Danna Pollock í forystuhlutverki. Síðan mætir hljómsveitin 3B; Bitter Blues Band, og Kontinuum sem lýsa má sem draumkenndu þungarokksbandi. Verður þarna spilað alvöru rokk af gamla skólanum.“

Raunar dreifir atburðurinn úr sér langt út fyrir Naustin. Segir Spessi að mótorhjól hafi aðgang að Tryggvagötunni ef ekið sé eftir ákveðinni leið. Þar geti mótorhjólamenn lagt fákum sínum og oft hafi 100-150 hjól hafa verið á staðnum. „Klukkan 14 stundvíslega biðjum við alla þá sem eru á mótorhjólum að setja hjólin sín í gang og þenja vélarnar vel, til minningar um það mótorhjólafólk sem fallið hefur frá. Þegar drunurnar fylla Tryggvagötuna byrjar hljómsveitin Erik tónleikana með gítarsurgi og látum, rokki og róli, og keppast mótorhjólakapparnir og rokkhetjurnar við að yfirgnæfa hver aðra með hávaða,“ lýsir Spessi og bætir við að um mergjað augnablik sé að ræða sem enginn vilji missa af.

Heillandi fagurfræði

Að sögn Spessa er Reykjavík Custom Bike Show viðburður þar sem allir eru velkomnir. Þar heldur mótorhjólafólk eins konar ættarmót og þeir sem áhugasamir eru um mótorhjólalífsstílinn geta fengið að skoða og spyrja spurninga. Greinilegt er að í mörgum blundar mótorhjólakarl eða -kona, og jafnvel ef fólk kærir sig ekki um að þeysa eftir þjóðveginum með vindinn í andlitið kunna margir að meta fagurfræðina sem einkennir fallegt mótorhjól. Segir Spessi að þessi áhugi sjáist meðal annars á vinsældum bandarískra sjónvarpsþátta þar sem sagt er frá alls kyns uppátækjum á mótorhjólaverkstæðum.
Sjálfur kveðst Spessi hafa fallið kylliflatur árið 1980 þegar hann í bríaríi skellti sér í bíó í London og horfði á mótorhjólamyndina Easy Rider. „Þessi draumkennda þjóðvegamynd var ólík öllu sem ég hafði áður séð, og sex árum síðar tókst mér að kaupa mitt fyrsta mótorhjól, sem var Kawasaki 650. Auðvitað langaði mig í Harley en það var ekki komið að því. Nokkrum árum seinna keypti ég mér minn fyrsta Harley og fór að fikra mig nær draumnum sem ég sá í Easy Rider-myndinni forðum,“ segir Spessi söguna. „Lét ég á endanum smíða fyrir mig hjól hérna á Íslandi og tveimur árum seinna, árið 2008, lét ég smíða fyrir mig mótorhjól í Las Vegas og hjólaði á því frá Vegas og til Sturgis, þar sem haldið er stærsta mótorhjólamót í heimi. Síðan þá hef ég hjólað mikið í Ameríku og bjó ég ásamt fjölskyldunni í Kansas árin 2011-12 til að upplifa og rannsaka mótorhjólakúlturinn.“

Um þessar mundir vinnur Spessi að heimildarmynd um amerísku mótorhjólamenninguna í félagi við Bergstein Björgúlfsson og segir hann að útkoman eigi að verða eins konar vegamynd.

ai@mbl.is
20. ágúst 2015