4.11.10

Ferðahjól og tryllitæki á mótorhjólasýningunni í Köln í Þýskalandi

 Margar nýjungar en ævintýrahjólið er enn í felum

Það var margt á sýningunni sem var mjög
áhugavert,“ segir Njáll Gunnlaugsson
ökukennari sem er nýkominn af Intermotmótorhjólasýningunni í Þýskalandi. Eins
og alltaf var margt áhugavert sem fyrir augu bar. 

Honda heldur aftur af sér

Undantekningin á því var reyndar Hondaframleiðandinn sem sýndi engin ný hjól en ætlar þess í stað að frumsýna á annan tug hjóla á sýningunni í Mílanó á Ítalíu síðar í þessum mánuði.
„Honda hefur haldið aftur af sér með að kynna allar nýjungar nú í talsverðan tíma. Þeir ætla hins vegar að koma með nýtt 250 kb. hjól á sýningunni í Mílaníó og menn eru mjög spenntir fyrir þeirri nýjung. Þá munu þeir verða með nýtt ævintýraferðahjól sem enginn veit enn hvernig er og þess vegna er talsverður spenningur meðal bifhjólaáhugamanna. Venjan er sú að framboð af mótorhjólum og áhugi fyrir þeim er minni á krepputímum en þegar betur árar. Því er mikilvægt að framleiðendur komi í árferði eins og nú með hjól sem eru í senn ódýr, sparneytin og nett. Því hef ég allan vara á mér þegar BMW er nú að setja á markað 1600 cb. ferðahjól sem kosta mun ríflega fimm milljónir króna,“ segir Njáll. 
  BMW hjólið nýja er af gerðinni K1600GT og er með sex strokka vél. Hjólið mun keppa við Goldwingferðahjólið og verður fullt af nýmóðins búnaði eins og Xenon-beygjuljósum, díóðustefnu- og stöðuljósum auk spól- og skrikvarnar. Þetta er grennsta sex strokka línuvél sem sést hefur í mótorhjóli og er aðeins sjónarmun breiðari en fjögurra strokka BMW 1300-hjólið. Það verður rúm 160 hestöfl og mun skila álíka togi og góður fjölskyldubíll eða 175 Nm á fimm þúsund snúningum. Það sem er athyglisvert við togkúrfuna er líka sú staðreynd að við 1.500 snúninga skilar vélin 122 Nm, sem hvaða ferðahjól væri fullsæmt af á hámarkssnúningsvægi. Kawasaki frumsýndi í Köln nýtt ZX-10 hjól sem er ætlað að keppa við nýja BMW ofurhjólið. Kawasakihjólið er 185 hestöfl og 198 kíló. 

Endurvakið merki

Yamaha frumsýndi einnig í Köln nýju Ténere 650 og 1200-línuna sem á líka að keppa við BMW-hjólin. Frá Ítalíu komu nokkur ný hjól eins og Ducati 1198SP og Aprilia RSV4 með spólvörn.
Triumph var með nýtt SpeedTriple-hjól og loks sýndi Horex, sem er endurvakið þýskt merki frá 
miðri síðustu öld. Nýja Horex-hjólið er með sex strokka V-mótor sem er með 15° á milli strokkanna og nota báðar raðirnar sama hedd. Vélin verður 160 hestöfl og með keflablásara mun hún skila 230 hestöflum.
 finnur@reykjavikbags.is

18.10.10

FME krefst skýringa á okri í tryggingum


Nýr viðskiptavinur Varðar fékk rúmlega 725 þúsund króna reikning fyrir tryggingu á bifhjóli. Gjaldið var lækkað um rúma hálfa milljón eftir umkvörtun.
Fjármálaeftirlitið segir tilefni til að rannsaka starfsemi tryggingafélagsins. 

TRYGGINGAMÁL
Tryggingafélagið Vörður rukkaði viðskiptavin í síðustu viku um 725.396 krónur fyrir tryggingu á bifhjóli. Gjöldin voru endurskoðuð þegar eigandi hjólsins setti sig í samband við félagið sem lækkaði þá iðgjaldið um rúma hálfa milljón króna.
„Þegar ég fékk reikninginn í hendurnar stóð ég bara og gapti,“ segir Sigurgrímur Ingi Árnason, eigandi Yamaha-hjólsins sem átti upphaflega að tryggja fyrir 725 þúsund krónur. Sigurgrímur fékk upphæðina lækkaða niður í 197 þúsund krónur eftir að hafa sýnt fram á flekklausan tuttugu ára ökuferil.
Steinunn Sigurðardóttir, forstöðu - maður vátryggingasviðs Varðar, segir að upphæðir sem þessar komi fram þegar tryggingafélagið hafi engar upplýsingar um viðskiptavini. Vörður hvetji fólk þá
hins vegar til þess að koma og gera grein fyrir sínum málum til þess að kanna möguleika á endurskoðun á iðgjöldum.
„Með mótorhjól er það þannig að þegar engin saga er fyrir hendi sendum við út greiðsluseðil með kröfu um staðgreiðslu þar sem iðgjaldið getur verið á þessu bili,“ segir Steinunn. „En við hvetjum þá viðskiptavini til þess að koma og gera grein fyrir sínum málum með
gögnum sem sýna fram á sögu og tjónareynslu. Þá er hægt að endurskoða stöðuna.
“ Rúnar Guðmundsson, sviðsstjóri hjá vátryggingasviði Fjármálaeftirlitsins (FME), telur ástæðu til að skoða málið. „Eins og þessu er lýst þá kemur þetta spánskt fyrir sjónir. Það er tilefni fyrir okkur til þess að leita skýringa hjá viðkomandi félagi og það munum við gera,“ segir hann.
Rúnar segir að í lögum um vátryggingar séu ákvæði um að  FME hafi eftirlit með iðgjöldum á grundvelli vátrygginga með það fyrir augum að þau séu í samræmi við þá áhættu sem í vátryggingu felst og eðlilegan rekstrarkostnað. „Við hyggjumst afla okkur frekari upplýsinga,“ segir Rúnar.
 Inda Björk Alexandersdóttir, formaður umferðarnefndar Snigla og umferðarráðsfulltrúi Umferðarstofu, segir að miðað við upplýsingar  bifhjólasamtakanna væri eðlilegt fyrir Sigurgrím að borga á bilinu 80 til 120 þúsund krónur í iðgjöld á ári og að öllu jöfnu ættu þau að lækka eftir fyrsta árið. Tæp 10.000 bifhjól voru skráð á landinu í lok ársins 2009.
sunna@frettabladid.is
Fréttablaðið 18.10.2010