2.4.09

Að fíla titringinn alveg upp í stýriSpessi ljósmyndari er víðkunnur fyrir listgrein sína, ljósmyndunina, en áhugi hans beinist í fleiri áttir og þar ber mótorhjólin líklega hæst. Hann er félagsmaður í íslenska Harley-Davidson klúbbnum og jafnframt er hann ritstjóri (og ljósmyndari, að sjálfsögðu) tímaritsins sem klúbburinn heldur úti og ber heitið Harley – H-DClub Iceland.
Tímaritið er hið glæsilegasta og má alveg með réttu kallast glanstímarit.
„Ég tók við þessu blaði fyrir tveimur árum. Þetta var unnið af áhugamönnum og dálítið litlaust en þegar ég tók við kom ég því á hærra plan og setti það inn í alvöru prentsmiðju og reddaði í það auglýsingum. Núna stenst blaðið hundrað prósent hæstu gæðakröfur og stendur alveg jafnfætis erlendum mótorhjólatímaritum.“
Núna er Spessi nýkominn úr vikudvöl í bænum Daytona Beach á Flórída, þar sem hann var ekki einungis sér til skemmtunar heldur var hann þar einnig að afla efnis í grein fyrir sænskt  mótorhjólatímarit sem hefur hann á sínum snærum sem blaðamann og ljósmyndara.
„Ég hef verið að vinna fyrir blað í Stokkhólmi sem heitir MCM. Núna fór ég á
hátíðina í Daytona Beach til að vinna þriðju greinina mína fyrir það blað. Hátíðin
heitir Daytona Bike Week, þar sem saman koma allir helstu mótorhjólahönnuðirnir
og smiðirnir og sýna það sem þeir hafa verið að gera. Á þessari hátíð koma saman
um hálf milljón mótorhjól. Þetta er alls ekki bundið við Harley þó að flestir séu að
vísu á Harley-Davidson eða hjólum sem eru byggð á þeirri pælingu.“


Spessi heitir réttu nafni Sigurþór Hallbjörnsson, fæddur og uppalinn á Ísafirði þar sem hann átti heima fram undir tvítugt en núna er hann skriðinn nokkuð yfir fimmtugt. Á árunum fyrir og upp úr 1990 stundaði hann nám í ljósmyndun í Hollandi og hefur haldið fjölda sýninga víða um lönd og hlotið margvíslegar viðurkenningar og verðlaun. Ekki er hann síst þekktur fyrir þemaraðir sínar, þar á meðal bensínstöðvamyndir sínar og myndaseríuna Hetjur, sem hefur að geyma einstæðar myndir af fólki á Ísafirði.

10.10.08

Umhverfis jörðina á 95 dögum


 Einar Þorsteinsson, forstjóri Elkem Ísland (járnblendifélagsins), á Yamaha XT660R mótorhjól. Þegar hann er spurður hvað heilli hann við mótorfákinn segir hann: „Þessi tilfinning fyrir frelsi, einfaldleikinn, útiveran og maður er einn með sjálfum sér.“
 Einar hefur víða farið á hjólinu, hvort sem það er snjókoma, rigning, sandstormur eða 48 stiga hiti. Fyrir utan það að hjóla hér innanlands hefur hann farið hringinn í kringum hnöttinn á hjólinu sínu.
Ég hjólaði austur á land, sigldi með Norrænu til Noregs, fór um Eystrasaltslöndin, til Rússlands og Mongólíu, ég hjólaði um Góbíeyðimörkina, fór aftur til Rússlands, þaðan til Japan, Alaska, Kanada og síðan fór ég þvert yfir Bandaríkin og til New York en þaðan flaug ég heim.“
 Einar segir að þetta ferðalag hafi kennt sér hvað Íslendingar hafi það gott þrátt fyrir kreppuna. „Ég lærði líka hvað mannfólkið er yfirleitt gott og hvað lífsgleðin getur verið mikil þrátt fyrir erfiðleika.“

Einar segir að ferðalagið um Mongólíu sé eftirminnilegast. „Þar var víða ekki stingandi strá, hirðingjar búa þar í tjöldum og lifa af náttúrunni og þar lentum við bæði í 47 stiga hita og frosti.“ Draumur Einars er að ferðast um Afríku á mótorhjólinu.
Frjáls Verslun 1.10.2008