11.10.05

Vélhjólasport vaxandi íþrótt

Fjölskyldufyrirtækið JHM sport hefur verið við Stórhöfða 35 í eitt ár. Áður var það í kjallara í heimahúsi en er nú stærra og fjölbreyttara. Jón Hafsteinn Magnússon, eigandi fyrirtækisins hefur verið viðriðinn vélhjólabransann frá því árið 1970 og nú hafa orðið kynslóðaskipti þar sem börnin hans eru komin á fullt í sportið. Dóttir hans, Klara Jónsdóttir, vinnur í JHM sport auk þess sem hún er sjálf á fullu í sportinu. „Ég var alltaf á litlu hjóli þegar ég var lítil og hætti svo í smá tíma. Núna er ég byrjuð á fullu. Þetta er ótrúlega gaman, það skemmtilegasta sem ég geri," segir Klara. Mikil aukning hefur orðið á vélhjólasporti undanfarin ár og eru fjölskyldur farnar að stunda þetta saman. Sportið hefur verið landlægt síðan fyrir 1970. Fyrst voru það aðallega karlar sem stunduðu vélhjólasport en konur hafa sótt í sig veðrið undanfarin ár og eru farnar að keppa í vélhjólasporti, þ.e. mótorkrossi og Enduro. I motorkrossi er keppt á tilbúnum brautum en í enduro á vegslóðum. Þá eru hjólin skráð,
með ljósi og annað slíkt. Á þeim hjólum má keyra innan bæjarmarka en á mótorkross hjólunum má einungis vera á lokuðum svæðum. Þess má geta að sonur Jóns Hafsteins er núverandi íslandsmeistari  í enduro. Búnaður skiptir öllu máli þegar byrja skal í þessu fjöruga sporti. Nauðsynlegt er að hafa hjálm, hanska og brynju sem fer annað hvort innan undir eða yfir utanyfirflíkina. í JHM sport er hægt að fá allt í tengslum við vélhjólasportið auk þess sem þar vinnur fagfólk sem veitir persónulega ráðgjöf.
Blaðið 11.10.2005
http://timarit.is/

23.8.05

Þingmaður í leðri Geysist um á mótorfák

Þingmaðurinn Magnús Þór Hafsteinsson hefur endurnýjað kynni sín við Kawasaki-mótorhjól sem hann fór á um stóran hluta Noregs um miðbik síðasta áratugar. Hann rann af stað á mótorhjólinu frá heimili sínu á Akranesi í gær og framundan voru einhverjir torförnustu þjóðvegir landsins á leiðinni til Ísafjarðar.
„Ég er búinn að eiga þetta hjól í tíu ár," sagði Magnús Þór, skömmu fyrir brottför í gær, og hugurinn hvarf aftur til Norður Noregs á 10. áratugnum. „Ég hef farið nokkrum sinnum um allan Noreg og allar Færeyjar. Ég hef nú lent í mörgum svaðilförum á þessu hjóli. Ég var á því í mörg ár, bjó í Noregi og ferðaðist á því með tjald og svefnpoka. Upp á síðkastið hef ég bara verið að eignast börn og svona og er fyrst núna að draga hjólið fram aftur," segir hann.
Erindi Magnúsar Þórs á Ísafirði var fundur Vestnorræna ráðsins sem hófst þar í gær. Er þar um að ræða vettvang þar sem ísland er stórveldi við hlið Færeyja og Grænlands. Íbúar Vestfjarða geta átt von á að fá að berja þingmanninn augum næstu daga, þar sem hann geysist um héraðið, leðurklæddur á mótorfák. „Ég ætla að fara um Vestfirðina næstu daga og hitta fólk. Og gera úttekt á vegakerfinu, þannig að maður viti hvað maður er að tala um á Alþingi. Ég fer um sunnanverða firðina, ég er ættaður þaðan," segir hann. Og hjólið er ekki á leiðinni inn í bílskúr á næstunni.
Magnús Þór hefur í hyggju að nota það í vetur Það er rosalega gott að vera á mótorhjóli, sérstaklega Reykjavík, þar sem umferðarþunginn er orðinn gríðarlegur.  Ef maður er á mótorhjóli fer maður fyrstur af stað á hverjum ljósum. Jafnvel í mestu umferðarhnútum. Þess fyrir utan fær maður allt aðra tilfinningu fyrir landinu á mótorhjóli en í bíl."
DV 23.08.2005