23.7.04

Mótorcross ekki mjög hættulegt

Mótorsport er ekki bara karlasport eins og sumir halda því á undanförnum árum hefur fjöldi stelpna látið til skarar skríða á mótocrosskeppnum. 

Aníta Hauksdóttir, þrettán ára mótorhjólastelpa, hefur mætt sterk til leiks á fyrstu tvær umferðir Íslandsmeistaramótsins í mótocrossi og þykir örugg um titilinn í ár. Aníta hefur sinnt sportinu af miklu kappi frá tíu ára aldri eða síðan hún eignaðist sitt fyrsta hjól. "Pabbi minn byrjaði að hjóla árið 2000 og gaf mér þá crosshjól í afmælisgjöf. Ég var rétt farin að prófa hjólið þegar hann tók upp á því að skrá mig í fyrstu keppnina, í svokölluðu speedway, ekki mótocrossi. Á þeim tíma var hann sjálfur Íslandsmeistari í B-flokki. Ég var auðvitað mjög hissa því ég var rétt byrjuð að hjóla en gekk þó ágætlega. Ég tók einn strák í mótinu og var geðveikt ánægð með það," hlær Aníta sem þá var eina stelpan í keppninni. Foreldrar hennar, Haukur Þorsteinsson og Theodóra Björk Heimisdóttir, opnuðu fyrir rúmu ári mótorhjólaverslunina Nítró en þau eru bæði á kafi í sportinu. "Ég hafði ekki hugmynd um að það væru fleiri stelpur að hjóla fyrr en ég kynntist Heiðu í Nikíta. Við fórum að æfa okkur saman, kynntumst svo Söru Ómarsdóttur sem einnig var í þessu og saman stofnuðum við fyrsta kvennaliðið á Íslandi, Nikita Team." Á Íslandsmeistaramótum keppa allir sem einstaklingar en að móti loknu eru einnig liðum veitt sérstök verðlaun fyrir frammistöðu. "Við höfum æft okkur mikið, reynt að keppa á öllum mótum og fengið góða styrktaraðila," segir Aníta sem hafnaði í öðru sæti á Íslandsmeistarmótinu í fyrra. "Við höfum fengið leyfi til að æfa okkur á nokkrum brautum meðal annars í Grindavík og Álfsnesi en þar er líka mótocrossskóli." Hún blæs á að íþróttin sé hættuleg ef notast er við réttan búnað. "Þessu fylgir vissulega aksjón, fjör og spenna og maður getur fengið mikla útrás á hjólinu en ég veit um fleiri sem slasa sig í fótbolta en mótocrossi," segir hin frakka sem slær flestum við þegar mótorhljól eru annars vegar.
thorat@frettabladid.is
 23. júlí 2004

30.6.04

(Aprilia RSV mille R Tuono Racing) prufuakstur
REYNSLUAKSTUR Aprilia Tuono 

ALLLANGT er nú síðan Íslendingar lærðu að meta ítalska matargerðarlist; kveður svo rammt að þessu að ófáir Mörlandar telja ítalska matseld þá lystugustu sem völ er á í heiminum. En þeir vita það líka sem vilja að Ítalir eru ekki síðri listamenn í smíði mótorhjóla. Að minnsta kosti viðurkennir undirritaður fúslega að munnvatnsframleiðslan tók mikinn kipp er honum bauðst að reynsluaka hjólinu sem hér er til umfjöllunar: Aprilia Tuono Racing (það heitir reyndar fullu nafni Aprilia RSV mille R Tuono Racing).

Hér er á ferðinni mikill eðalgripur. Þetta er „nakin“ (svokölluð „streetfighter“) útgáfa af RSV mille „reisernum“ frá Aprilia. Munurinn er sá að Tuono-útfærslan (ítalska orðið tuono þýðir þruma) er nær klæðningarlaust, með 17 cm hærra og 80 cm breiðu rörstýri, en sömu kappaksturshjólstæknina að öllu öðru leyti. Háa og breiða stýrið gerir setuna á hjólinu upprétta, færir þyngd af framhjólinu og mun auðveldara fyrir ökumann að gera ýmsar kúnstir á hjólinu, svo sem að prjóna og fleygja því með leikandi hætti úr einni krappri beygjunni í aðra. Reynsluaksturshjólið er þar að auki útbúið „racing-kitti“, en því fylgir m.a. fjöðrun af beztu fáanlegu gerð frá Öhlins í Svíþjóð, þar með talinn stýrisdempari; alls staðar þar sem er plast utan á grunnútgáfunni er fislétt karbon; hjólið er lægra gírað (16 tanna driftannhjól í stað 17) og skiptingin „öfug“ (fyrsti gír upp, hinir niður). Síðast en ekki sízt er Racing-útgáfan útbúin „heitari“ EPROMvélarstýrikubbi og opnari hljóðkút (sem gefur 5 hö meira afl).

Það fer ekki framhjá neinum sem skoðar þetta hjól að það er smíðað bæði af ástríðu og natni. Það ber stolt tækni sína á torg fyrir augu skoðandans. Allir íhlutir í hæsta gæðaflokki og frágangur til fyrirmyndar. Kraftalegt tveir-í-einn-eðalstálpústkerfið undirstrikar að hér er aflmikið tæki sem er gert til að það líti ekki bara vel út heldur sé notað. Gæðaleikfang fyrir fullorðna.

Þessi tilfinning styrkist um allan helming þegar setzt er á hjólið og 1000-kúbika V2-vélin (sem kemur frá Rotax í Austurríki) vakin til lífs. Bassa-urrið sem út úr hljóðkútnum kemur og titringurinn sem vélin gefur frá sér á lágsnúningi kitlar eftirvæntingartaugarnar hressilega.


Í essinu sínu í beygjum

Nákæm skiptingin skilar hinu feikimikla togi vélarinnar (mest 101 Nm) hratt og örugglega til 190 mm breiðs afturdekksins og áður en maður veit af er maður búinn að týna umferðinni og kominn út á þjóðveginn. Á beygjuríkum þjóðvegarköflum er Tuono-ið í essinu sínu; það finnst fljótt hvað fjöðrunin vinnur sína vinnu vel og skilar ökumanninum mikilli öryggistilfinningu þegar hann húrrar hjólinu úr einni beygjunni í aðra, jafnvel þótt ójöfnur séu í malbikinu (eins og reyndar alls staðar er á íslenzkum vegum). Hágæðahemlakerfið frá Brembo ýtir enn undir þessa öryggistilfinningu, svo og glussastýrð „anti-hopping“-kúplingin sem gerir að verkum að þegar skipt er niður er hverfandi hætta á að vélarbremsan læsi afturhjólinu.

Hin upprétta áseta veldur því að sjálfsögðu að ökumaður tekur á sig töluverðan vind, en lítil vindhlífin veitir samt furðugott skjól ef hallað er vel fram á stýrið breiða. Á lokaðri braut kvað víst þannig vera hægt að ná 245 km hámarkshraða, sem telst anzi gott fyrir „nakið“ hjól.

Það ánægjulegasta við að keyra þetta hjól eru þó eiginleikar vélarinnar. Þar fer saman mikið tog alveg frá um 3.000 snúningum upp í snúningsþakið, sem er ekki fyrr en handan við 10.000 snúninga, og snúningsvilji vélarinnar sem lætur mann ekki standast freistinguna að snúa því duglega í hverjum gír, þótt hið góða tog leyfi líka mjög letilegar skiptingar. Þetta breiða snúningssvið með svo góðu togi þýðir að hjólið er gríðarsnöggt upp úr hvaða hraða sem er.

Í stuttu máli: hér er á ferðinni ótrúlega meðfærilegt hjól sem þó getur allt sem öflugustu sporthjól geta. Og það með ítölskum stíl.

Gamanið kostar reyndar sitt: 2.252.000 kr. í Racing-útfærslunni. Það er 773.000 krónum meira en grunngerð Tuono-hjólsins og sýnir það glögglega að toppklassaíhlutir eins og Öhlins-fjöðrunin kosta sitt.

Auðunn Arnórsson 
auar@mbl.is
morgunblaðið 30.6.2004