Eru traustir á

öllum sviðum

HONDA á Íslandi hóf að flytja inn vélhjól frá Honda fyrirtækinu árið 1962 en bílarnir komu til sögunnar nokkrum árum síðar. Gunnar Bernhard stofnaði fyrirtækið og starfar við það ennþá en synir hans, Geir, Gunnar og Gylfi sjá um daglegan rekstur. Geir er beðinn að lýsa fyrstu árunum í starfi fyrirtækisins.

"Fyrirtækið byrjaði með vélhjólin árið 1962 og fyrstu árin áttum við samskipti við Þjóðverja því Honda í Japan átti þýska sölufyrirtækið og á reyndar enn og vildi að við keyptum hjólin gegnum þá. Það breyttist árið 1969 þegar þeir vildu að við snerum okkur beint til Japans og þannig hefur það verið síðan," segir Geir en þegar þetta var orðið voru þeir farnir að horfa á bílaframleiðslu Honda og tóku fyrsta bílinn hingað til lands árið 1970. Þóttu bílar frá Honda raunhæfur kostur hérlendis?

"Já, við fluttum inn fáa bíla fyrstu árin og það er ekki fyrr en árið 1974 sem veruleg hreyfing komst á málið. Honda hafði verið tiltölulega stutt á markaði í Evrópu og þegar við flytjum inn Honda Civic árið 1972 hafði hann slegið í gegn í Bandaríkjunum og var að komast á blað í Evrópu líka. En þetta var sveiflukenndur markaður í bílunum ekki síður en í hjólunum. Við höfum flutt inn allt frá 500 hjólum niður í ein 15 og nú er eiginlega búið að eyðileggja þennan markað alveg og sveiflurnar eru ekki minni í bílainnflutningnum. Þar höfum við sveiflast frá um 700 bílum niður í 52."

Starfsmenn Honda á Íslandi eru nú 14 og Geir er spurður hvernig Japanir hafi tekið á málum þegar lægð er í sölunni hérlendis. "Þeir hafa svosem tekið því bæði vel og illa. Þegar þeir hafa sjálfir átt í erfiðleikum þá segja þeir við okkur að við verðum bara að berjast á markaði okkar og ná okkur á strik á ný en þegar þeir eru sterkir þá getum við frekar náð hagstæðari samningum um verð og kjör og kannski einhverjar ívilnanir," segir Geir og minnist á að þeir hafi alla tíð verið mjög traustir í öllum samskiptum. "Þegar þeir segja eitthvað þá standa þeir við það og þeir eru afskaplega traustir á öllum sviðum."

Var mikill munur á því að færa samskiptin frá Þjóðverjum til Japana á sínum tíma?

"Hugsunarhátturinn er náttúrlega gjörólíkur. Viðskiptahegðun Japana og Evrópubúa er ólík. Japanir hugsa öðruvísi og við verðum að setja okkur inn í þeirra hugsun. Samskiptin hafa gengið ágætlega, stundum hafa þau verið erfið en í heildina er það traustið sem stendur uppúr. Þeir eru ekki að fleipra með eitt eða neitt, allt er vel ígrundað og vandað. Ef þeir segja já, þá er það úthugsað og stendur."

Morgunblaðið/Jón Svavarsson GUNNAR Bernhard er lengst til hægri og synirnir Geir (í miðið) og Gunnar. Þriðji bróðirinn, Gylfi, sem einnig starfar hjá fyrirtækinu, var fjarstaddur.

mbl.is 20.6 1999