10.8.20

Þýskur ferðamaður endurheimti stolið mótorhjól á síðustu stundu


Mótorhjóli af gerðinni KTM 620 LC4 var stolið úr bílakjallara Hótels Kletts í síðustu viku. Er gripurinn í eigu þýsks ferðamanns. Átak fór í gang til að endurheimta hjólið á vegum meðlima Facebook-hópsins „Hjóladót, tapað, fundið eða stolið“ þar sem fremstur í flokki fer Bjartmar Leósson, en hann hefur fengið viðurnefnið hjólahvíslarinn vegna ötuls sjálfboðaliðastarfs við að endurheimta stolin hjól og önnur verðmæti.
Deilingarnar urðu alls 1.900 á þremur dögum. Hvort sem þær leiddu lögreglu á sporið eða ekki tókst að leysa málið, lögregla hafði uppi á hjólinu og kom því í hendur þýska ferðamannsins. „Ég leyfi mér að trúa því að Facebook-deilingarnar hafi sett smá skjálfta í þjófana,“ segir Bjartmar í stuttu spjalli við DV.
Að sögn Bjartmars lagði lögreglan mikla vinnu í að finna hjól Þjóðverjans og sagði hann lögreglu eiga hrós skilið fyrir framgöngu sína í málinu.
Það mátti ekki tæpara standa. Þjóðverjinn fór af landi brott í morgun en hjólið fannst í gær. Meðfylgjandi myndir sýna er hólinu var skilað í flutningagám hjá Samskipum.
DV ÁBS   10.08.2020





9.8.20

KTM vinnur fyrsta sigur í MotoGP



Eftir æsispennandi keppni í MotoGP heimsmeistaramótinu í kappakstri mótorhjóla sigraði Brad Binder á KTM í fyrsta skipti fyrir austurríska framleiðandann. Brad Binder er á sínu fyrsta ári í MototGP og er hann fyrsti byrjandinn síðan 2013 til að vinna sigur á sínu fyrsta ári í mótaröðinni.
Brad Binder KTM


Keppnin fór fram á Brno brautinni í Tékklandi og vann Binder sig upp í fyrsta sætið á fyrstu 13 hringjunum. Þar bætti hann smán saman við forskotið og vann með meira en 5 sekúndna forskoti áður en yfir lauk. Franco Morbidelli á Yamaha varð í öðru sæti og Johann Zarco á Ducati í því þriðja. Fyrrum heimsmeistarinn Valentino Rossi varð fimmti fyrir Yamaha en hann er nú á 41. aldursári.