
Fyrirtæki í Svíþjóð sem heitir Coming Through, hefur byggt talsvert undarlegt farartæki til að flytja bilaða bíla á viðgerðarstað. Farartækið er í grunninn Honda Goldwing mótorhjól. Aftan á hjólið hefur verið smíðað samanfellanlegt mannvirki úr áli sem, þegar greitt er úr því, myndar þriggja hjóla „búkka“ sem rennt er undir framhjól bílsins sem á að draga. Þetta skýrist ágætlega á meðfylgjandi myndum.

Norska bílablaðið BilNorge greinir frá þessu og getur þess í leiðinni að ekki sé vitað hvort bílabjörgunarfyrirtæki í Noregi, eins og t.d. Falck eða Viking, hafi sýnt farartækinu áhuga.
Nafnið Retriever á þessu farartæki hefur greinilega tilvísun til þekktrar hundategundar; Golden retriever sem þykja afar tryggir eigendum sínum og hjálpsamir. Þeir er talsvert notaðir sem hjálparhundar við t.d. fuglaveiðar og eru duglegir við að sækja bráðina þegar veiðimaðurinn er búinn að skjóta hana niður.
24.9.2010