Hrannar Ingi smíðaði vagn til
að æfa prjón á mótorhjóli sem
lokaverkefni í Verkmenntaskólanum.
„Þetta byrjaði á YouTube-myndbandi sem ég sá af Rússum sem
voru búnir að smíða svona græju,“
sagði Hrannar Ingi Óttarsson um
tilurð þess að hann smíðaði vagn
með mótorhjólagrind til prjónæfinga sem lokaverkefni sitt hjá
Verkmenntaskólanum á Akureyri.
„Verkstjórinn minn hló bara og
sagði að ég væri ruglaður en var
samt mjög opinn fyrir þessu og
fannst þetta spennandi.“
Hrannar Ingi fékk svo rennismið
með sér í verkefnið og græjan fór
smátt og smátt að verða til.
Smíðin
er þó ekki einföld því að hjólið
þarf bókstaflega að keyra í gír á
föstu kefli og þarf því mótorhjólið
að vera kyrfilega fast ofan á þessu
öllu saman, en samt geta risið að
framan. Knapinn stjórnar svo
risinu með inngjöf og temprar það
með afturbremsunni. Græjan hans
Hrannars er því mjög góð til að
sýna fólki hvað gerist við prjón á
kraftmiklu hjóli og hvernig er best
að ná stjórn á því aftur.
Bannað á götum úti
Samkvæmt nýju umferðarlögunum er bannað að lyfta viljandi
framdekki í akstri en þar sem mótorhjólið er kyrrstætt ætti það ekki að koma að sök í þessu tilviki. „Við
ætlum að vera með hjólið á svæði
Bílaklúbbs Akureyrar í sumar en
það er æfingasvæði. Jafnvel sýnum
við græjuna á hjóladögum í sumar
og kíkjum jafnvel suður. Áður
en það er gert þarf samt að setja
öryggisbelti á hjólið sem er fest við
stýrið svo að óvanir detti ekki af
hjólinu,“ sagði Hrannar Ingi sem
greinilega vill hafa
græjuna eins
örugga og hægt er.
Hrannar vildi koma á framfæri
sérstöku þakklæti fyrir hjálpina
sem hann fékk við smíðina hjá
vinnufélögunum í Slippnum
á Akureyri. Einnig var hann
ánægður með að kennari hans
skyldi gefa honum grænt ljós á
svona verkefni sem ekki allir átta
sig á hvað er. Svona græja sést ekki
á hverjum degi þótt einhverjir hafi
kannski séð svona í útlöndum.

Hver veit nema við fáum að sjá
meira af græjunni hans Hrannars í
sumar einhvers staðar á landinu, ef
COVID lofar.
Fréttablaðið
bls 20