Rætt við frændurna Unnar og Jón sem ferðuðust um Rússland í sumar
Síðastliðið sumar fóru frændurnir Unnar Bjartmarsson og Jón Helgason saman í mótorhjólaferð um Rússland. Þeir óku í fylgd með túlki og leiðsögumanni sem leiddi þá þúsund kílómetra um Úralfjöll á ekta rússneskum Úral-hjólum. Þar hittu þeir innfædda Rússa og fengu að kynnast þeirra lífi og aðstæðum um leið og þeir skoðuðu landið, heimsóttu söfn og fóru á mótorhjólamót. Blaðamaður Skessuhorns hitti frændurna Unnar og Jón á heimili Unnars á Kleppjárnsreykjum snemma föstudagsmorguns í lok nóvember og fékk að heyra allt um ferðina til Rússlands.
Meðfæddur áhugi á mótorhjólum
Aðdraganda ferðarinnar má rekja 31 ár aftur í tímann þegar Jón var á leiðinni upp í Borgarfjörð frá Reykjavík. Hann tók mótorhjólið með sér í Akraborgina upp á Akranes þaðan sem hann ætlaði að hjóla upp í Hálsasveit. Hann hafði ekki sofið mikið nóttina áður og sofnaði því á leiðinni og var vakinn af háseta þegar nær allir voru farnir úr skipinu. „Hann spurði mig hvort ég ætti ekki mótorhjólið niðri í lest. Ég rauk á fætur og niður í lest að sækja hjólið. En ég var að drífa mig aðeins of mikið og næ á einhvern ótrúlegan hátt að missa lyklana ofan í tankinn á hjólinu. En þarna voru góðir menn sem hjálpuðu mér að hvolfa hjólinu og ná lyklunum út. Ég brunaði beint upp í Hálsasveit og næ í Unnar, sem var bara 12 ára gutti á þessum tíma, og tek hann með mér á rúntinn. Þetta var fyrsta ferðin okkar saman á hjóli,“ rifjar Jón upp. „En ferðirnar síðan hafa orðið ansi margar síðan,“ bætir Unnar við. Upp frá þessu hafa mótorhjól verið sameiginlegt áhugamál þeirra frænda.
Byrjaði sem grín
Fyrir fimm árum var Jón á ferðinni á mótorhjóli um Ameríku og þar kviknaði hugmynd um að fara á fimm ára fresti í framandi mótorhjólaferð. Þegar heim var komið nefndi hann þessa hugmynd við Unnar og grínuðust þeir með að fara til Rússlands. Eftir því sem Unnar hugsaði meira um Rússlandsferð hætti grínið að vera grín og færðist yfir í alvöru. „Hann fór að impra á þessu við mig nokkru síðar og við ákváðum að skoða þetta aðeins og byrjuðum að leita á Facebook,“ segir Jón. Þar fundu þeir ferðaskrifstofu í Rússlandi sem býður upp á alls konar ferðir um landið, þar á meðal mótorhjólaferðir. „En við treystum ekki einhverri síðu á netinu og vorum eiginlega vissir um að þetta væri eitthvað plat til að ná peningum af fólki. Ég var svo á leiðinni frá