Vélhjólaklúbburinn fær leyfi fyrir fleiri æfingasvæði
Beiðni Vélhjólaklúbbs Skagafjarðar um endurnýjun á leigusamningi til 25 ára á svæði því sem sveitarfélagið hefur úthlutað klúbbnum undir starfsemi sína var tekið fyrir á fundi byggðarráðs í síðustu viku. Þykir mikilvægt fyrir klúbbinn að fá samninginn samþykktan svo klúbburinn geti haldið áfram að byggja upp starfsemi sína til framtíðar.
Einnig óskaði klúbburinn eftir því að fá leyfi til æfinga á eftirfarandi svæðum sem landeigendur hafa gefið samþykki sitt fyrir. Æfingasvæði fyrir ísakstur á Miklavatni í landi Gils, æfingasvæði motocross í landi Kjartanstaðakots og æfingasvæði fyrir enduro í landi Fagragerðis.
Umhverfis- og samgöngunefnd tók erindið fyrir á 83. fundi sínum og bókaði eftirfarandi ”Umhverfis- og samgöngunefnd mælir með endurskoðun og framlengingu leigusamnings til 25 ára en með gagnkvæmu uppsagnarákvæði eftir 5 ár. Nefndin hefur ekki athugasemdir við leyfisveitingu á umbeðnum svæðum til æfingaaksturs.“
Byggðarráð samþykkti erindið og felur sveitarstjóra að ganga frá samningi til 25 ára með gagnkvæmu uppsagnarákvæði á 5 ára fresti.
Feykir.is
11.3.2013