5.2.07

Safn til minningar um Heiðar


 Ákveðið hefur verið að koma á fót vélhjólasafni til heiðurs einum virtasta mótorhjólamanni Íslands, Heidda #10 sem lést í fyrra af slysförum. Það eru vinir hans og bræður sem standa fyrir þessu.

"Hann vildi ólmur opna svona safn og var byrjaður að leita af húsnæði rétt áður en hann dó" sagði bróðir hans Jón Dan Jóhannsson sem er einn af þeim sem standa fyrir opnun safnsins. Heiðar var mikill áhugamaður um mótorhjól og safnaði þeim, hann átti sér það markmið að eiga 10 hjól þegar hann myndi verða fertugur en þegar stundinn rann upp átti hann bara 9. Þegar hann lést í fyrrasumar átti hann alls 30 hjól þá 52 ára að aldri. Safnið hans er mjög verðmætt en ekki eru til tölur um hversu mikla fjármuni er að ræða.

Fimm manna nefnd vina Heiðars hefur unnið að undirbúningi þess að koma safninu á fót og hefur verið ákveðið að stofna sjálfseignarfélag um reksturinn og hefur fjölskylda Heiðars þegar ákveðið að öll hjól sem hann átti verði gefin safninu. Vonast menn til þess að 50-70 hjól verði á safninu þegar það verður opnað og nokkuð er um að fólk bjóðist til að lána safninu hjól sem þau eiga í óákveðinn tíma. Ekki er komin nákvæm tímasetning á opnun safnsins en það mun ábyggilega ekki fara fram hjá neinum þegar svo verður.

Mótorhjólaklúbbur var stofnaður til heiðurs Heidda skömmu eftir að hann lést og ber hann heitið Tían.

Heimasíða Tíunnar: www.tian.is

25.1.07

Steve McQueen - mótorhjólamaður allra tíma

Steve McQueen.

Hollywoodleikarinn Steve McQueen sagðist víst einhverntíman meðan hann var á dögum, að hann vissi eiginlega ekki hvort heldur hann væri leikari sem stundum tók þátt í kappakstri eða kappakstursmaður sem stundum lék í bíómyndum. En nú, 27 árum eftir dauða sinn af völdum lungnakrabbameins, hefur Steve McQueen verið útnefndur mótorhjólamaður allra tíma.

Útnefningin var gerð í aðdraganda mótorhjólasýningarinnar MCN London Motorcycle Show og fór atkvæðagreiðsla fram hjá Yahoo á Netinu. Ekki er hægt að segja að þátttaka hafi verið neitt gríðarleg því að 2.254 greiddu atkvæði. Fjórða hvert atkvæði féll á Steve McQueen sem vissulega var mikill mótorhjólamaður. Frægt er atriði í kvikmyndinni Flóttinn mikli þar sem hann stelur þýsku hermótorhjóli og flýr á því úr þýskum fangabúðum og m.a. stekkur á hjólinu yfir girðingu. Það og önnur mótorhjólaatriði í myndinni lék McQueen sjálfur enda vandfundinn sá mótorhjólamaður sem hefði getað gert það betur en stjarnan sjálf.

Steve McQueen var um fimm ára skeið giftur leikkonunni Ali McGraw og bjuggu þau í Hollywood. Sagt er að hún hafi stundum verið ansi þreytt á karli sínum, sérstaklega vegna þess að hann átti það til að hverfa dögum saman eitthvert út í Nevada-eyðimörkina á torfærumótorhjóli án þess að láta neitt vita af sér.

MCN London Motorcycle Show verður í sýningarhöll í London sem nefnist ExCeL dagana 1. til 4. febrúar. Hægt er að kynna sér sýninguna nánar á www.londonmotorcycleshow.com.