Nýjasta mótorsportið á Íslandi hentar jafnt fullorðnum mótorhjólamönnum, fimm ára krökkum og fimmtugum konum.
Við fyrstu sýn virðast mini-motohjólin vera hálfgerður brandari, fullorðið fólk sem brunar eftir braut á alltof litlum mótorhjólum sem líta út fyrir að vera smíðuð fyrir fjögurra ára börn. Kristmundur Birgisson segir að þau séu þó að minnsta kosti jafn skemmtileg og stærri mótorhjól.„Ég á Hondu CBR 1000-hjól líka, það er ekkert síðra að fara út á litla kvikindinu,“ segir Kristmundur. Til að gefa einhverja hugmynd um hversu lítil mini-motohjólin eru, þá eru aðeins 40 cm frá götu upp í sæti. Þau vega 23 kg með fullan tank af bensíni og komast upp í 60 km hraða. Þau eru ætluð í keppni og eru því á sléttum, mjúkum dekkjum með mikið veggrip. Vélarnar eru 49 rúmsentimetra tvígengisvélar sem toga 4,5 Nm á 15.000 snúningum.
„Maður þarf enga reynslu af öðrum hjólum til að ráða við þessi. Það getur auðvitað ekki gert annað en að hjálpa, en er ekki nauðsynlegt. Við höfum verið að hjóla niðri við Klettagarða og allir sem hafa komið þangað og viljað prófa hafa fengið að prófa, meira að segja fimmtugar konur sem höfðu gaman af,“ segir Kristmundur sem flutti sjálfur inn fyrsta hjólið fyrir um það bil ári.
“ Í sumar verða haldin tvö mót fyrir mini-moto en næsta sumar verður haldin mótaröð undir merkjum GP-Ísland. Til þess að vera löglegur í keppni þarf ökumaður að vera 12 ára eða eldri. Kristmundur segir þó að börn frá 5 ára aldri ráði vel við hjólin. Og það þarf ekki að kosta mjög mikið að byrja í sportinu. „Hjólin kosta 69.000 kr. í vefverslun okkar á fingrafar.is,“ segir Kristmundur. „Svo þarf að vera í góðum galla eða með góðar hlífar og með þokkalegan hjálm. Maður kemst af með 100.000 krónur sem er ekki mikið í mótorsporti.“
Kristmundur og félagar hjóla flest góðviðriskvöld á milli Sindra og vélaverkstæðis Heklu í Klettagörðum. Áhugasömum er bent á að leggja leið sína þangað til að prófa.
einareli@frettabladid.is
Fréttablaðið 16.08.2006