23.6.99

Sniglarnir, Bifhjólasamtök lýðveldisins:

Að sögn Marra er þverskurðurinn af þjóðfélaginu í Sniglunum

,,Frá forstjórum niður í sleða "

Það er ekkert gaman að vera einn á hjóli. Hefur þú prófað að vera ein í bíl" spyr Marri, Snigill nr. #660 þegar hann er spurður út í það hvers vegna hann hafi gengið til liðs við Sniglana. Það er sem sagt félagsskapurinn, umfram annað, sem fólk er að sækjast eftir þegar það gengur i Sniglana. 

En hvers konar félagsskapur er þetta? Hvaða fólk sækir um inngöngu í Sniglana? 

   „Þetta er bara þverskurðurinn af þjóðfélaginu; alveg frá forstjórum og ráðherrum og niður í einhverja sleða," segir Marri til útskýringar. „Þetta er einstaklingshópíþrótt og þar af leiðandi félagsskapur fyrir félagslynda einstaklingshyggjumenn; fólk sem hefur þetta áhugamál, að hjóla." 

Sniglarnir eru 15 ára um þessar mundir og eru skráðir meðlimir í félaginu um 1200. Þeir eru þó ekki allir virkir því að sögn Marra verða menn „að vera greiddir", þ.e.a.s. að hafa greitt félagsgjöld til að teljast virkir í félaginu. Menn hittast og hjóla, halda fundi einu sinni í viku og síðan er farið í ferðir, eina torfæruferð fyrstu helgina í september í Landmannalaugar og síðan aðrar styttri óskipulagðar ferðir hingað og þangað um landið.

„Við fórum til dæmis upp á Akranes í kaffi um helgina," segir Marri þegar hann er beðinn um útlistun á týpiskum túr. „Hrelltum fólk i göngunum og svona," bætir hann við og geispar siðan letilega.

Hvað áttu við? Eruð þið í því að abbast upp á fólk? 

„Nei, nei. Það tekur bara svo langan tíma að afgreiða hjól í göngunum. Menn þurfa að taka af sér hjálma og vettlinga og annað til að ná í veskin og þegar við erum 30-40 saman eins og þarna þá tekur þetta heillangan tíma. Enda fór allt í háaloft. Menn voru að verða vitlausir á okkur," segir Marri og er ekki að heyra að hann hafi tekið þessa taugaveiklun í bíleigendum nærri sér.    

„Svo erum við með hjóladag á laugardaginn, tökum þá monttúr um borgina og svona, og síðan landsmót Sniglanna," segir hann um það sem er á döfinni í nánustu framtíð. „Á landsmóti koma menn saman til að monta sig, hver sem betur getur, af nýja hjólinu eða bara hinu og þessu sem þeir hafa verið að gera," bætir hann við en fyrir þá sem ekki vita er rétt að taka fram að landsmótið verður haldið í Tjarnarlundi í Búðardal fyrstu helgina í júlí. 

En hvað þurfa menn að gera til þess að fá inngöngu í félagið? 

Eruð þið með ströng inntökuskilyrði? „Ja, það geta náttúrlega allir sótt um. En menn verða að fá meðmæli frá 13 Sniglum til að verða samþykktir," segir Marri nokkuð drýgindalega en bætir við, til vara: „Við erum samt ekkert mjög strangir við fólk. Það verður bara að prófa."

-esig 
DV 23. JUNI 1999



Heilræði frá Sniglunum, Bifhjólasamtökum lýðveldisins: 

Tékklisti fyrir mótorhjólaferðir Fyrir vikuferðalag út a land 

  1. Það fer enginn út að hjóla nema í viðurkenndum öryggisfatnaði og með hjálm .
  2. Tjald og svefpoki .
  3. Föt til skiptanna .
  4. Sundfatnaður og stuttbuxur .
  5. Góðar vatnsheldar töskur og poki fyrir farangur .
  6. Vatns- og vindheldur hlífðargalli .
  7. Vatnsheldir vettlingar .
  8. Vatnsheldar skóhlífar (eða plastpoki).
  9. Helstu verkfæri .
  10. Límband .
  11. Startkaplar .
  12. 1 lítri af mótorolíu .
  13. Olíutrekt .
  14. Dekkjaviðgerðasett .
  15. Bensínslanga (ca 1 metri) .
  16. Sjúkragögn .
  17. Hafa hitabrúsa uppi við með kaffi/kakói .
  18. Saumaveski Snigla .
  19. Smokkar (ef menn eru heppnir) .
  20. Dömubindi (fyrir þær óheppnu).
  21. Peningar og koss bless frá mömmu.

Bannaður Krókur

- Ísland eina Evrópulandið sem bannar að bifhjól sé notað til dráttar 


Svona má aðeins gera sem uppstillingu til
 myndatöku á íslandi.  í öðrum löndum Evrópu
 má ferðast með aftanívagn aftan í mótorhjóli.
 Mynd DV-bílar
Í sjöunda kafla umferðarlaga vorra, um tengingu og drátt ökutækja, 62. gr., segir svo: „Við bifhjól og létt bifhjól má eigi tengja eftirvagn eða tengitæki." .
Með þessari einu setningu hefur ísland málað sig út í horn hvað varðar löggjöf um bifhjól því það er eina landið í Evrópu sem enn þá bannar drátt á bifhjöli í umferðarlögum sínum. Til skamms tíma var því svipað farið hjá frændum vorum í Danmörku en með hjálp Evrópusamtaka mótorhjólafólks,
FEMA, létu stjórnvöld þar sér segjast og voru helstu rökin þau að ekki væri hægt að banna akstur farartækis, sem skráð væri í öðru Evrópulandi og ætlaði að aka í gegnum landið með þess háttar tengibúnað. Á hverju ári koma hundruð ferðamanna til islands á mótorhjólum og spurning hvernig  yfirvöld myndu taka á því ef einhver þeirra væru útbúin á þennan veg. Búnaður þessi hefur verið prófaður og framleiddur eftir ströngustu stöðlum i Evrópu eins og TRRL í Bretlandi og TUV í Þýskalandi.

Nú er svo komið að Íslendingur einn, Eyjólfur Þrastarson að nafni, hefur látið útbúa Goldwing 1500 hjól sitt með þess háttar búnaði og heimsótti DV hann um daginn þegar hann var að máta tjaldvagn aftan i hjólið. Hjólið hans er vel búið til ferðalaga, 1500 mótorinn er sex strokka og gírkassinn með bakkgír. Það er á loftpúðafjöðrun að aftan þannig að hægt er að stilla það eftir burði. Einnig er það með búnaði eins og tölvustýrðum skriðstilli (cruisecontrol) og fullkomnum hljómflutningstækjum  sem hækka sjalfkrafa i tónlistinni þegar hraðinn eykst.  Eyjólfur segir að ekki sé mikill munur á að keyra það með eða án vagns því að vagnfestingin snúist á kúlunni og er því hægt að leggja því í beygjum eins og venjulega. Einnig er hægt að fá útbúnað á tengibúnaðinn sem er á snúningslið þannig að enginn munur sé á þessu. Hann hefur einnig keyrt nokkuð erlendis með fólki sem noti svona vagna að staðaldri og þar séu þeir notaðir til ýmissa hluta, eins og farangurskerra eða ískassi fyrir bjórinn.
Eyjólfur er ekki óvanur stórum farartækjum í sinni vinnu sem trukkabílstjóri enda hefur hann viðurnefhið „trukkurinn" meðal fésinna.
Við óskum „trukknum" alls hins besta í viðureign sinni við yfirvöldin.
 -NG