Bifhjólaslys varð á veginum um Óshlíð um helgina en vegurinn er ekki lengur í notkun. Að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum er vegurinn beinlínis hættulegur þar sem mikið grjót hefur hrunið úr hlíðinni ofan vegarins. Þá hefur sjórinn grafið undan veginum.
Bifhjólamaðurinn gætti ekki að sprungu í veginum fyrr en of seint og fór út af veginum. Ökumaðurinn féll af hjólinu en hjólið rann niður hlíðina og hafnaði í fjörunni. Var ökumaðurinn vel áttaður er lögreglu bar að garði en fluttur til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
Sautján ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur á Vestfjörðum í vikunni sem leið. Sá sem hraðast ók var stöðvaður á Strandavegi í Strandabyggð á 124 km hraða þar sem leyfilegur hraði er 90 km á klukkustund.
Þrír voru fluttir til aðhlynningar á heilsugæsluna í Búðardal eftir bílveltu á Vestfjarðavegi í Gufudal á föstudag. Þeir hlutu allir minni háttar meiðsl en ökumaðurinn missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún stakkst fram af vegbrúninni niður fyrir veginn og valt þrjár veltur áður en hún stöðvaðist á hjólunum.
Maður var að landa úr bát sínum á Patreksfirði í síðustu viku þegar að reipi af karinu flæktist utan um fótlegg hans með þeim afleiðingum að hann féll aftur fyrir sig og lenti með hnakkann á steyptri bryggjunni. Fékk maðurinn höfuðáverka og fluttur með sjúkrabíl til læknis.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/08/25/vegurinn_beinlinis_haettulegur/?fbclid=IwAR2iMLu85Pl09h4uVYOASk65pGp2_p1K-RJNuVnq-CTos1bCToVn8BCZudw