Mótorhjólamaður fannst heill á húfi eftir að hafa orðið viðskila við hóp sinn á hálendinu inn af Fossárdal í Berufirði í gærkvöldi.
Maðurinn var kominn langleiðina inn í Vesturbót sem er inn af Hamarsdal þegar björgunarsveitir fundu manninn. Hafði hann dottið á hjólinu í brekku og var of örmagna til að reisa það við, „og gerði það rétta í stöðunni og beið við hjólið þar til aðstoð barst“, eins og segir í tilkynningu á Facebook-síðu björgunarsveitarinnar Báru á Djúpavogi.
Tók vitlausa beygju
Þar segir sömuleiðis að tilkynning um mótorhjólamanninn hafi borist björgunarsveitinni, ásamt fleiri sveitum á Austurlandi, um klukkan ellefu í gærkvöldi.
Hafði maðurinn tekið vitlausa beygju á slóða og lent í aðra átt en hópurinn sem hann var með. „Myrkur og þoka skall svo á og erfitt fyrir ókunnuga að átta sig,“ segir í tilkynningunni.
Fimm manns á tveimur bílum leituðu mannsins sem síðar fannst heill á húfi.
mbl.is