29.6.20

Vesturlandsvegi lokað vegna rannsóknar á slysstað


Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun loka hluta Vesturlandsvegar klukkan eitt í dag vegna framhaldsrannsóknar á banaslysi sem varð í gær norðan Grundarhverfis.


Áætlað er að rannsóknin taki eina til tvær klukkustundir. Um er að ræða vegkaflann á milli Grundarhverfis og Hvalfjarðarvegar. Lokunin hefur ekki áhrif á umferð til og frá Grundarhverfi, en lögregla bendir öðrum á hjáleið um Kjósarskarðsveg.

Tveir létust í árekstri bifhjóls og húsbíls á Vesturlandsvegi á vegkaflanum í gær. Þeir sem létust voru báðir á bifhjólinu, ökumaður og farþegi. Ökumaður annars bifhjóls sem kom aðvífandi missti stjórn á hjóli sínu og féll af því.

Vegurinn þar sem slysið varð var nýmalbikaður og var malbikið mjög hált að mati Vegagerðarinnar og lögreglu.

Uppfært 15:02

Vinnu lögreglu á vettvangi er lokið og er vegurinn nú opinn á ný.

Ruv.is 29.06.2020