Yfir hundrað hjól í portinu.
Samstöðufundur Sniglanna, bifhjólasamtaka lýðveldisins, fór fram við húsnæði Vegagerðarinnar í Borgartúni í dag. Yfir 200 manns sýndu samstöðu og minntust fórnarlamba banaslyss sem varð á Kjalarnesi síðastliðinn sunnudag. Hópur mótorhjólafólks hittist einnig á Akureyri.
Yfir hundrað mótorhjólum var lagt í port Vegagerðarinnar í dag í tilefni af samstöðufundinum. Fjöldi annars fólks kom út til að sýna mótorhjólafólkinu samstöðu, þar á meðal starfsmenn Vegagerðarinnar.
Bifhjólafólk lagði niður hjálma sína til minningar um fallna félaga.
Jokka G. Birnudóttir, gjaldkeri Sniglanna, las upp yfirlýsingu fyrir hönd bifhjólafólks þar sem krafist var úrbóta á þeim vegarköflum sem skapað hafa hættu víðs vegar um landið.
Þar sagði meðal annars: „Við krefjumst breytinga, við krefjumst að öryggi fólks á vegum úti verði í forgangi, ekki bara okkar mótorhjólamanna heldur allra sem ferðast um.“
Að lokum var einnar mínútu þögn í minningu fallinna félaga.