30.6.20

Bifhjólamenn Mótmæltu við vegagerðina

Sniglar – Bifhjólasamtök lýðveldisins komu saman við húsnæði Vegagerðarinnar í Borgartúni klukkan 13 þar sem til stendur að mótmæla hættulegum vegköflum á vegum landsins og úrbóta krafist.

Ákveðið var að boða til mótmælanna eftir að tveir létust þegar bifhjól og húsbíll rákust saman á Vesturlandsvegi á sunnudagskvöldið.


Á vef Vegagerðarinnar segir að yfir 200 manns hafi sýnt samstöðu og minnst fórnarlambanna. Auk þess var yfir hundrað mótorhjólum lagt í port Vegagerðarinnar. Bifhjólafólk lagði niður hjálma sína til minningar um fallna félaga.


Jokka G. Birnudóttir, gjaldkeri Sniglanna, las upp yfirlýsingu fyrir hönd bifhjólafólks þar sem krafist var úrbóta á þeim vegarköflum sem skapað hafa hættu víðs vegar um landið.


Þar sagði meðal annars: „Við krefjumst breytinga, við krefjumst að öryggi fólks á vegum úti verði í forgangi, ekki bara okkar mótorhjólamanna heldur allra sem ferðast um.“

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, greindi frá því í gær að fyrsta mat hafi bent til þess að yfirlögn á vegkaflanum, þar sem banaslysið varð og lagt var síðastliðinn fimmtudag, hafi ekki samræmst útboðsskilmálum.