9.6.20

Konur taka nú mótorhjólapróf í Sádi-Arabíu

43 konur hafa tekið þátt í fyrsta mótorhjólanámskeiðinu í Riyadh sem skipulagt er af mótorhjólakennara frá Úkraínu. Konur í Sádi-Arabíu flykkjast nú á göturnar eftir að hafa loksins fengið leyfi til að keyra þar í landi. Þær eru orðnar algeng sjón á fjórhjóla ökutækjum en konur á mótorhjólum eru það ekki, segir í grein í netútgáfu Arab News.


Elena Bukaryeva er reyndur mótorhjólakennari og hefur opnað Bikers Skill Institute mótorhjólaskólann í Riyadh sem var fyrsti ökuskólinn til að bjóða upp á þess háttar kennslu í Sádi-Arabíu. Hún er eini mótorhjólakennarinn þar í landi sem kennir nú konum á mótorhjól, sem langar að leggja það fyrir sig. Skólinn býður upp á allar gerðir af mótorhjólanámskeiðum fyrir götuhjól jafnt sem torfæruhjól og kostar hvert námskeið 2-400SR eða 25-50.000 IKR. „Hingað til hafa 43 konur frá nokkrum löndum, 20 þeirra frá Sádi-Arabíu en afgangurinn frá öðrum arabalöndum eins og Egyptalandi og Líbanon, tekið þátt í mótorhjólanámskeiðum okkar síðan að akstursbanni fyrir konur var aflétt,“ segir Bukaryeva. Námskeiðin eru eins og í löndum Evrópu og byggja á grunnatriðum mótorhjólaaksturs með bæði bóklegum og verklegum kennslustundum. „Við kennum á minni gerðir mótorhjóla svo að nemandinn nái meiri færni og lengd verklegra kennslustunda fer eftir getu hvers og eins, þar til viðkomandi hefur náð tilætlaðri færni á mótorhjólið,“ segir Bukaryeva. „Reynslan hefur sýnt að konur fá fullan stuðning í konungdæminu og jafnvel aðstoð frá karlkyns mótorhjólamönnum,“ segir Bukaryeva enn fremur. Samgönguyfirvöld í Sádi-Arabíu hafa þó ekki gefið út nein ökuskírteini til kvenna eins og er. „Þær konur, sem er mjög í mun að fá ökuskírteini, hafa farið til nágrannaríkisins Bahrain,“ sagði Bukaryeva.


https://www.frettabladid.is/frettir/konur-taka-nu-motorhjolaprof-i-sadi-arabiu/