9.6.20

Fjölbreytt mótorhjólamet

 
Heimsmetabók Guinness heldur skrá um heimsmet sem slegin hafa verið með mótorhjólum. Allt frá hraða-, hástökks-, hæðar- og lengdarmetum upp í met í að búa til myndir úr hjólunum.

Lengsta mótorhjól í heimi er 26,29 metra langt. Það var búið til af Indverjanum Bharat Sinh Parmar. Hjólið var frumsýnt og mælt þann 22. janúar árið 2014. Það er fjórum metrum lengra en hjólið sem átti fyrr met í lengd. Bharat þurfti að sýna fram á að hjólið virkaði eins og venjulegt mótorhjól með því að aka því 100 metra án þess að fætur hans snertu jörðina.

Minnsta mótorhjól í heimi var smíðað í Svíþjóð árið 2003. Framhjólið á því er ekki nema 16 mm að þvermáli og afturhjólið er 22 mm. Maðurinn sem á heiðurinn af smíðinni heitir Tom Wilberg en hann ók hjólinu yfir 10 metra. Hjólið getur komist upp í tveggja kílómetra hraða en vélin er 0,22 kW.

Metið í flestum farþegum á mótorhjóli á ferð var slegið á Indlandi þann 19. nóvember árið 2017. Þann dag komu 58 manns sér fyrir á einu mótorhjóli, þar með var fyrra met bætt um tvo farþega.

Finnarnir Lantinen Jouni og Pitkänen Matti slógu met í að skipta hratt um sæti á mótorhjóli á ferð í júlí árið 2001. Þeir skiptu um sæti á 4,18 sekúndum á meðan þeir óku mótorhjólinu á 140 km hraða.

Fyrsta tvöfalda aftur á bak heljarstökkið á mótorhjóli var gert í Bandaríkjunum í ágúst árið 2006. það var Bandaríkjamaðurinn Travis Pastrana sem afrekaði það á ESPN X leikunum í Los Angeles.

Hæsta ökuhæfa mótorhjólið sem mælt hefur verið er 5,10 metrar frá jörðu og upp að toppnum á stýrinu. Mótorhjólið var smíðað af Ítalanum Fabio Reggiani og því var ekið yfir 100 metra í mars árið 2012. Hjólið er 10,03 metra langt og er með 5,7 lítra V8 vél.

Metið fyrir hæsta stökk á mótorhjóli var slegið þann 21. janúar árið 2001. Þá náði Bandaríkjamaðurinn Tommy Clowers 7,62 metra háu stökki á mótorhjóli ofan af 3,04 metra rampi með 12,19 metra atrennu.

Barber Vintage Motorsports safnið í Birmingham, Alabama, hýsir heimsins mesta fjölda gamalla og nýrra mótorhjóla. Þar er hægt að skoða 1.398 mótorhjól í yfir 13.375 fermetra, fimm hæða byggingu. Heimsmetið var staðfest þann 19. mars 2014.

Metið fyrir mesta hraða sem náðst hefur á mótorhjóli er 605,697 kílómetrar á klukkustund. Metið var slegið þann 25. september árið 2010. Metið var meðalhraði í tveimur tilraunum. En hjólið fór hraðast upp í 634 kílómetra á klukkustund. Methafinn er Bandaríkjamaðurinn Rocky Robinson.