26.5.20

Mölbrotinn og stóratáin farin eftir mótorhjólaslys í Eyjafirði.

Hondan er ílla farin og líklega er of dýrt
að gera hana upp.
3. maí síðastliðinn var afdrifaríkur dagur fyrir mótorhjólamanninn og fasteignasalann Daníel Guðmundsson sem á þessum blíðviðrisdegi ók frá heimili sínu á stórglæsilegu ferðamótorhjóli af gerðinni Honda ST 1300 Pan European til móts við félaga sína í Tíunni,  Bifhjólaklúbb Norðuramts á Akureyri , en félagarnir stefndu í hópferð austur fyrir fjall í veðurblíðunni.

Fréttatilkynningin á www.visir.is var á þessa vegu.



Um hádegið í dag var Lögreglunni á Norðurlandi eystra tilkynnt um umferðarslys við Þórustaði í Eyjafjarðarsveit þar sem sendibíll og mótorhjól höfðu lent saman.
Ökumaður mótorhjólsins var sagður hafa kastast af hjólinu talsverða vegalengd eftir að sendibílnum hafði verið ekið í veg fyrir mótorhjólið. Einn maður var í sendibílnum og kenndi hann sér ekki meins.
Ökumaður mótorhjólsins var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahúsið á Akureyri. Hinn slasaði var með meðvitund þar hann var fluttur á sjúkrahúsið en ekki er vitað frekar um líðan hans að svo stöddu. að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Daniel sem býr fram í Eyjafirði ók sem leið lá til Akureyrar, en varð fyrir alvarlegu umferðaróhappi  þar sem bíll ók í veg fyrir hann, sem gerði það að verkum að hann mun líklega ekkert hjóla í sumar.
Daniel féll af hjólinu og slasaðist talsvert í slysinu og var fluttur á spítala, og var á gjörgæslu í 10-11 daga áður en hann var fluttur á lyfjadeild þar sem hann er að jafna sig af meiðslum sínum.  Hjólið er hinsvegar ónýtt.

Tíuvefurinn fékk að taka smá símaviðtal við Daníel þar sem hann liggur inn á SAK.

Sæll Daníel og takk fyrir að tala við okkur. 
      Mig langar að spyrja þig út í slysið, hvað gerðist ?    og mannstu eitthvað eftir slysinu?

,,Takk sömuleiðis Víðir. Þú lýsir þessu bara eins og ég hef heyrt af þessu. Ég man sem sagt lítið sem ekkert eftir þessum degi og lítið fyrstu tvær vikurnar eftir slysið svo sem".

Slasaðist þú mikið ?

 ,, Já ég slasaðist ansi illa.   Bakbrotnaði og eru fimm hryggjaliðir saman sprengdir.  Flest rifbein  vinstramegin brotnuðu skildist mér, vinstri hendin fór ansi illa og er spengd saman og skrúfuð. Missti stórutá á vinstra fæti hinar ekki alveg komnar úr hættu en ef ekki kemur ígerð í þetta ætti þær að sleppa auk þess brotnaði ristin".

Varstu vel útbúinn til mótorhjólaaksturs ?

   ,,Já ég hef reynt að halda mig við þá reglu svona hin síðari ár að klæða mig fyrir fallið ekki veðrið eða coolið,  þó auðvitað séu undantekningar á því endrum og sinnum. Í þetta skiptið var ég mjög vel búinn að öllu leyti og það hefur mjög líklega bjargað lífi mínu.   Var í þykkum leður klossum, góðum leðurbuxum sem voru fóðraðar á hnjám og mjöðmum, nýjum jakka undir hann spennti ég stórt og mikið bakbelti, góður hjálmur og vettlingar með hörðu plasti til hlífðar".

Veistu eitthvað hvað varð um mótorhjólið þitt ?

    ,,Eftir því sem ég best veit var hjólið sett í geymslu sem sennilega tekur að sér að sækja og geyma svona tæki eftir slys. Ég hef hreinlega ekki verið á þannig stað líkamlega að geta hugsað um annað en einn dag í einu og þá bara líkamann".

Stefnir þú á að fara aftur á mótorhjól ?

    ,,Varðandi spurninguna um hvort ég hjóli aftur þá er svarið einfalt " já og get ekki beðið eftir því að komast út að hjóla" Skilst að Hondan sé ónýt sem er mikil synd því þarna var um verulega gott hjól að ræða. Er að leita að sjálfskiptu hjóli núna, vildi gjarnan hafa það skoðað tryggt og klárt og mynd af því upp á vegg hér á sjúkrahúsinu sem hvatningu ef ég losna út fyrir veturinn".

Er eitthvað sem þú vilt segja félögum okkar þarna úti á mótorhjólunum.?

    ,,Ég veit ekki hvað ég get sagt öðru mótorhjólafólki annað en að klæða sig fyrir fallið. Í mínu tilfelli var ekið fyrir mig og ég náði ekki að bremsa einusinni fyrirvarinn var svo skammur.
Þannig að klæða sig vel og njóta. Ekkert nema sumarið og Rock og roll framundan, njóta þess"

Ég þakka Daníel fyrir viðtalið og óska honum góðum bata.

Víðir # 527