9.5.20

Flott hjól á frábæru verði


Flott hjól á frábæru verði

Lexmoto Tempest er léttkeyrandi töffari fyrir A1-flokk mótorhjóla sem er flokkur sem stundum vill gleymast.


Lexmoto er nýtt merki á Íslandi í mótorhjólaflórunni. Það má segja að það hafi vantað ódýr 125 rúmsentimetra mótorhjól á markaðinn til þess að bjarga mótorhjólamenningunni. Staðan er nefnilega sú að meðalaldur mótorhjólafólks hefur hækkað vegna þess að sportið er orðið dýrt og það hefur þau áhrif að ungt fólk hefur síður efni á því að fá sér mótorhjól. Þar spilar líka inn í að réttindin eru orðin margskipt, en A1-réttindi eins og þarf á Lexmoto-hjólin, er hægt að fá strax við 17 ára aldur. Hjólin eru flutt inn af skarkali.is og þar er hægt að nálgast frekar upplýsingar um hjólin.



Samtengdar bremsur


 Í raun og veru fór reynsluaksturinn fram á þremur gerðum hjóla, Isca, Tempest og Tempest GT. Hér skal miðað við Tempest-hjólið en hjólin koma öll með sama loftkælda 125 rsm-mótor með beinni innspýtingu. Hámarksafl fyrir A1-flokk er 15 hestöfl en Lexmoto-hjólin eru aðeins gefin upp fyrir tæp 10 hestöfl. Miðað við það er hjólið samt furðu frísklegt í upptaki og þá sérstaklega Tempest útfærslurnar. Hjólið er fljótt upp gírana og þegar komið er í 80 km á klst. í fimmta gír er hjólið á 7.500 snúningum. Mætti því segja að það hefði gott af einum gír í viðbót. Þegar komið er á þjóðvegahraða verður vart við lítilsháttar titring í framenda sem er ekkert óeðlilegt í litlu hjóli með einfalt burðarvirki eins og þetta. Annað varðandi aksturinn sem rétt er að taka fram er að hjólið er búið samtengdum ABS-bremsum, sem virka þannig að báðar bremsur virka þegar stigið er á fótbremsuna. Ef henni er beitt snögglega leggst hjólið nokkuð á framfjöðrun og gott að vera viðbúinn þessu. Bremsur virka mjög vel og hemlalæsivörnin skilar sannarlega sínu og gerir þetta auðkeyranlega hjól enn öruggara.

Góður frágangur 

Þar sem hjólið er framleitt í Kína er rétt að huga að frágangi hjólsins, og satt best að segja kemur hann verulega á óvart. Maður hefði fyrirfram búist við að það væri tröppu neðar en sambærileg japönsk hjól en því er alls ekki þannig farið. Allur frágangur virkar traustur og hvergi missmíði að sjá. Sumt í búnaði hjólsins vekur líka athygli eins og ryðfrítt pústkerfi. Mælaborð er með hefðbundnum hraðamæli en einnig stafrænt og þar má sjá bensínstöðu og í hvaða gír hjólið er, sem er mikill kostur í 125-rsm hjóli. Það er meira að segja USB-hleðslutengi í Tempest-hjólinu sem gerir ökumanni kleift að tengja farsíma með leiðsögukerfi við hjólið.


Verðið óvenju gott


 Lexmoto er eins og áður sagði framleitt í Kína en hjólin eru mest seldu mótorhjólin í sínum flokki í Bretlandi. Ástæðan er einföld, þau eru talsvert ódýrari en samkeppnin svo munar jafnvel tugum prósenta. Það sama er uppi á teningnum hér, en ódýrasta Lexmoto-hjólið, YSB kostar aðeins 449.000 kr. en Tempest-hjólið er heldur ekki dýrt á 499.000 kr. Til samanburðar kostar Kawasaki Z125 899.000 kr. og Yamaha MT125 kostar 1.090.000 kr.

Njáll Gunnlaugsson
 Fréttablaðið