Bifhjólasamtökin 10 ára FYRIR tíu árum birtist í Dagblaðinu auglýsing sem ætlað var að ná athygli mótorhjólaáhugamanna á Íslandi. Þeim var boðið að koma að Æsufelli 2 fimmtudaginn 26. janúar til að stofna mótorhjólaklúbb.

Bifhjólasamtökin 10 ára

FYRIR tíu árum birtist í Dagblaðinu auglýsing sem ætlað var að ná athygli mótorhjólaáhugamanna á Íslandi. Þeim var boðið að koma að Æsufelli 2 fimmtudaginn 26. janúar til að stofna mótorhjólaklúbb.
Undiritaður var einn þeirra sem ekki lét bjóða sér tvisvar. Á þessum fyrsta fundi hafa verið eitthvað á milli 20 og 30 manns sem beittu á næstu vikum öllum brögðum við að ná til allra sem áttu eða komu á einhvern hátt nálægt mótorhjólum. Ef einhver sást á mótorhjóli úti á götu var hann eltur uppi og boðið að vera með. Formlegur stofnfundur var síðan haldinn í Þróttheimum og er 1. apríl 1984 talinn stofndagur félagsins sem fékk, eftir mikið karp og heilabrot, nafnið "Sniglar, Bifhjólasamtök lýðveldisins."
Tilgangur samtakanna var strax nokkuð ljós, þ.e. að efla félagsanda meðal mótorhjólafólks og vinna að hagsmunamálum þeirra. Formlegu félagsstarfi átti að halda í lágmarki svo og skriffinnsku. Við áttum helst ekki að hugsa um sniglana sem klúbb því það var of uppalegt og ekki sem félag því það var of formlegt. Málið var að vera saman á mótorhjólum því að það var okkar lífsstíll en ekki að vera í félagi til að sitja á fundum. Bifhjólasamtökin voru og eru sameiningartákn einstaklinga með áhuga á mótorhjólum, svo gríðarlega fjölbreytilegt áhugamál sem það er. Eitt var líka ljóst strax í upphafi. Það átti aldrei að vera forseti, leiðtogi eða foringi yfir hópnum.
Það breytti hins vegar engu um það að rétt eins og í öðrum félagasamtökum kostar það vinnu fámennrar stjórnar að halda batteríinu lifandi og þar rakst fyrsta stjórnin á óvæntan þröskuld.

Úthýst af sósíalanum

Eitt af fyrstu verkefnunum var að finna okkur samkomustað. Því var strax leitað til Æskulýðsráðs því undir það heyrir að styðja við allskonar félagsstarfsemi, m.a. að aðstoða með húsaskjól. Við áttum von á því að fá dræm viðbrögð vegna þeirra fordóma sem ríkja í garð mótorhjólafólks en sú var reyndar ekki raunin. Æskulýðsráði hefði ekki verið neitt á móti skapi að vera með puttana í svona starfsemi og hafa einhvern áþreifanlegan flöt á mótorhjólafólki. En ... forsvarsmenn Æskulýðsráðs töldu það vera órjúfanlegt náttúrulögmál að samtök eins og sniglarnir myndu deyja og hverfa þegar upphafsmennirnir hættu afskiptum sínum af starfseminni og því tæki einfaldlega ekki að styðja við svo augljóslega skammlíft félag. Borgarráð var sama sinnis þegar því var sent erindið. Samtökin flæktust því á milli kaffihúsa þar til þau eignuðust sinn eigin samastað í félagi við LÍA á Bíldshöfða 14. Sennilega lúta Bifhjólasamtök lýðveldisins ekki náttúrulögmálum því þau eru á lífi enn, aldrei sterkari, þótt við sem komum þeim af stað séum löngu orðnir víðvaxnir kótilettukarlar.
Áttahundruð og fjörutíu meðlimir hafa verið í sniglunum á þessum tíu árum sem þeir hafa starfað og hálft þúsund eru félagsmenn nú. Samtökin halda uppá afmæli sitt um páskana með veglegri sýningu í Laugardalshöllinni.

Alvara fylgir ánægjunni

Eins og áður sagði er það fyrst og fremst lífsstíll að vera á mótorhjóli. Það er ögrun í því að skera sig úr fjöldanum og endalaus áskorun í því að komast óskaddaður leiðar sinnar og ná betra valdi á akstrinum. Ökumaðurinn öðlast með tímanum sérstakt samband við hjólið, veginn og umhverfið sem er mjög ólíkt því að aka bíl. Einnig þróast smátt og smátt það sem mótorhjólafólk kallar þrjú hundruð og sextíu gráðu huglæga skynjun, sem er sá eiginleiki að geta ímyndað sér allar hættur í umhverfinu og verið viðbúinn þeim. Auglýsing, sem sýnd var í sjónvarpi í fyrra og hittifyrra og var hluti af umferðarátaki snigla, var einmitt um þessa skynjun. Myndavél var fest við mótorhjól og hringur dreginn utan um allt sem hugsanlega gat valdið hættu. Gott innskot sem margir hljóta að muna eftir.
Frumkvæði að framförum
Bifhjólasamtökin hafa verið nokkuð í samvinnu við umferðaryfirvöld í því að fækka mótorhjólaslysum. Þau hafa lengi bent á brotalamirnar í kennslu fyrir bifhjólapróf, sem satt að segja var engin, og í framhaldi af því og annarri uppstokkun í ökukennslu er nú verið að taka á þeim málum. Nefnd á vegum samtakanna hefur verið að reyna fá tryggingafélögin til að breyta reglum sínum og tengja iðgjöldin við aldur ökumannsins og aflið í hjólinu, en víðast mætt ótrúlegu skilningsleysi. Bestu viðbrögðin hafa komið frá Skandia Island og hljóta að minnsta kosti reyndari ökumenn að beina viðskiptum þangað.
Það er persónulegt álit undirritaðs að tengja þurfi ökuréttindi við vélarafl í tveimur til þremur þrepum og gera litlu hjólin fýsilegri með því að snarlækka á þeim gjöldin. Það er enginn vafi á því að þeir sem hafa verið í tvö ár á skellinöðrum áður en þeir fá bílpróf eru betri ökumenn en hinir sem aldrei hafa verið í umferðinni. Sama gildir um stóru hjólin. Nýir ökumenn ættu að öðlast sína reynslu á léttum hjólum sem auðvelt er að ráða við. Þau þurfa samt langt í frá að vera máttlaus.
Svo virðist sem tryggingafélög rugli saman háum skaðabótakröfum mótorhjólaeigenda og skaðanum sem þeir valda. Skýrslur sýna að mótorhjólafólk er í rétti í 70-80% tilvika og rökréttara að hækka iðgjöld þeirra sem slysunum valda, þ.e. bíleigenda, og reyna síðan að fá yfirvöld til að slá af geðveikislegum aðflutningsgjöldum af mótorhjólavarahlutum. Það myndi lækka bótafjárhæðirnar til mótorhjólaeigenda. Hitt er annað að öllum slysum þarf að fækka.
Átak gegn slysum
Umferðarátaki snigla var hrundið af stað árið '92 í framhaldi af mikilli iðgjaldahækkun tryggingafélaganna og var hugmyndin sú að lækka iðgjöldin með því að fækka slysum með markvissum áróðri. 15% fækkun slysa var metin sem 60 milljóna króna sparnaður heilbrigðiskerfisins og 10 milljóna króna sparnaður tryggingafélaganna. Það er beinlínis undarlegt að hið opinbera skuli ekki styrkja svona verkefni almennilega. Átakið kostaði tvær milljónir og átti stóran þátt í að afla LÍA viðurkenningar Umferðarráðs fyrir góðan árangur í umferðarmálum á umferðarþingi 1993.
Fjárskortur dró úr mætti átaksins á síðasta ári, en fyrirætlanir eru uppi um að gera betur í ár. Árvissir fundir lögreglu, Umferðarráðs og snigla hafa verið áhrifaríkur vettvangur skoðanaskipta og upplýsingastreymis í báðar áttir og hafa bætt nokkuð samskipti þessara aðila, sem oft líta málin frá ólíkum sjónarhornum.
Mbl
Haraldur A. Ingþórsson
20. mars 1994 |