Mótorhjólasýning um páskahelgina BIFHJÓLASAMTÖKIN halda Dagana 31. mars til 4.
Mótorhjólasýning um páskahelgina BIFHJÓLASAMTÖKIN halda Dagana 31. mars til 4. apríl sýningu í Laugardalshöllinni. Verið er að vinna í skúrum hingað og þangað um landið við að fægja gripina sem þar eiga að vera.
Mótorhjólasýning um páskahelgina BIFHJÓLASAMTÖKIN halda Dagana 31. mars til 4. apríl sýningu í Laugardalshöllinni. Verið er að vinna í skúrum hingað og þangað um landið við að fægja gripina sem þar eiga að vera. Reynt verður að ná um 200 hjólum á sýninguna auk þess sem fyrirtæki verða með kynningar og sölubása. Allskonar hjól hafa verið bendluð við þessa sýningu. Fornhjól og ný, torfæruhjól og götuhjól, þríhjól, keppnishjól og heimasmíðað hjól úr Þingeyjarsýslunni sem er víst engu öðru líkt.
Sérstök áhersla verður lögð á fornhjólin, enda er mikill áhugi fyrir þeim og sérstakur félagsskapur, Vélhjólafjelag gamlingja, starfandi fyrir þá sem eiga slík hjól. Skilyrði fyrir því að komast í þann félagsskap er að vera annaðhvort kominn til vits eða ára. Um 20 fulluppgerð fornhjól verða til sýnis auk þess sem eitthvað verður af hjólum á mismunandi stigum endurbyggingar. Elsta hjólið verður líklega fjögurra strokka Henderson frá 1918 sem er í eigu Gríms Jónssonar. Matchless 500 '47 Hilmars Lútherssonar er eitt og sér næg ástæða til að gera sér ferð á sýninguna því betur verður ekki gert í endurbyggingu á forngripum. Hugsanlega fæst lánað Messerschmidt frá byggðasafninu á Dalvík sem yrði þá í góðum félagsskap hjóla að norðan því Akureyringar koma með um 25 hjól, gömul og ný, á sýninguna.
Í torfærudeildinni verða td. tvö ný KTM hjól sem verið er að hefja innflutning á og Husquarna 610, samskonar því sem heimsmeistaratitillinn í opnu motor-cross vannst á í fyrra.
Á svæðinu verður mótorhjólahermir á vegum Kart-klúbbsins sem líkir eftir akstri á Suzuka-brautinni. Í honum geta tveir keppt í einu og þeir sem ná átta bestu tímunum keppa til úrslita helgina 9. til 10. apríl og hlýtur sigurvegarinn að launum ferð á GP-keppnina í Assen 25. júní.
Hugsanlegur ágóði af sýningunni rennur beint í umferðarátak snigla og því ættu allir sem láta sig umferðarmál einhverju skipta að mæta.
Haraldur A. Ingþórsson
Triumph Tridennt '72 í eigu Hilmars Lútherssonar.
Matchless 500 '46. Eigandi Hilmar Lúthersson.