15.12.19

Á BIFHJÓLI UM LANDIÐ

Frelsi og adrenalín

SOFFÍA JÓHANNESDÓTTIR FÉKK MÓTORHJÓLABAKTERÍUNA 
OG FINNUR SIG VEL Í HEIMI TESTÓSTERÓNS.

Ég er að uppgötva risastóran nýjan heim sem mér finnst afar heillandi,“ segir Soffía Jóhannesdóttir.
Heimurinn sem Soffía vísar til er ferðamótorhjólamennska en í sumar hefur hún skoðað landið á mótorhjóli.
„Maður er einhvern veginn frjálsari og nær landinu, finnur lyktina og vindinn og þetta er smá adrenalínkikk líka. Maður upplifir landið á nýjan hátt.“
Tilvera Soffíu hefur tekið miklum breytingum síðasta árið og hennar daglegu félagar eru nær eingöngu karlmenn með mótorhjóladellu. „Ég er innan um svo mikið testósterón að ég hugsaði á tímabili að það hlytu að fara að vaxa á mig eistu,“ segir Soffía og hlær. Bifhjól komu fyrst inn í líf
Soffíu þegar hún stofnaði vespuleigu við Reykjavíkurhöfn og tók þá mótorhjólapróf. Fyrr á árinu sameinuðust svo Lundavespur, Harley-Davidson búðin og mótorhjólaleigan Biking Viking undir nafninu Reykjavík Motor Center. „Þetta er búið að vera mikil upplifun. Ég vissi ekkert út í hvað ég væri að fara. Stökk svellköld út í djúpu laugina.“
 Soffía hefur nýtt hvert tækifæri í sumar til að ferðast um landið á mótorfák. Þar á meðal til Vestmannaeyja, norður í land og farið í dagsferðir hingað og þangað út frá Reykjavík. „Ég fór líka í stórkostlega 10 daga leiðsöguferð þar sem hringurinn og Vestfirðir voru teknir með útúrdúrum frá aðalvegunum. Þar keyrði ég reyndar trúss-bílinn en það er mjög gaman að ferðast með útlendingum og fá þannig tækifæri til að sjá landið sitt með augum utanaðkomandi.“ Sumarið hefur verið mjög annasamt en ferðahjól sem Reykjavík Motor Center er með hafa notið mikilla vinsælda meðal erlendra ferðamanna en þá hefur verið hægt að fá leiðsögumenn með í ferðir og jafnvel farangursbíl. „Þó svo að haustið sé skollið á og vertíðin svo til búin eru enn þónokkrar haustferðir í kortunum. Það eru þá aðallega seinnipartsferðir, en þær bjóðum við upp á síð- og snemmsumars. Það fer skiljanlega eftir veðri hversu langt fólk hjólar inn í veturinn. Ég er allavega sjálf komin með bakteríuna.“
Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is