5.9.19

Ódýrara að flytja mótorhjól

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að ódýrara sé að flytja mótorhjól embættisins á vögnum en að keyra þau til Keflavíkur, vegna þess hve dýrt sé að leigja þau af embætti Ríkislögreglustjóra. Kílómetragjald á mótorhjóli getur verið allt að 381 króna. Kostnaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna kílómetragjalds í kringum heimsókn varaforseta Bandaríkjanna í gær var um ein og hálf milljón króna.
Dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið að leggja niður bílamiðstöð ríkislögreglustjóra í núverandi mynd. Skipaður hefur verið starfshópur sem á að skoða framtíðarmöguleika í bílamálum lögregluembætta um allt land. Ákvörðunin er sögð hafa verið tekin til að bregðast við óánægju lögreglustjóra. Ríkislögreglustjóri hefur rekið bílamiðstöð lögreglunnar og borið ábyrgð á rekstri, viðhaldi og endurnýjun allra ökutækja lögreglu ásamt öllum búnaði, en lögregluembættin hafa leigt bílana af ríkislögreglustjóra. Alls hefur bílamiðstöðin rekið um 120 ökutæki.
Í fréttum í gær kom fram að lögreglustjórar telji að embætti þeirra hafi verið rukkuð of mikið um árabil og að sú upphæð nemi hundruðum milljóna. Embætti ríkislögreglustjóra sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöld, þar sem því er hafnað að bílamiðstöðin hafi oftekið gjald sem nemi hundruðum milljóna. Þær tölur séu algjörlega úr lausu lofti gripnar og eigi sér enga stóð.

Hafa ekkert um kostnaðinn að segja

Fréttastofa hefur rætt við forsvarsmenn nokkurra lögregluembætta í dag, sem hafa sagt að hægt sé að spara stórar upphæðir með því að leigja bíla beint af bílaleigum eða kaupa þá frá umboðum, í stað þess að leigja þá hjá bílamiðstöðinni.
Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um kostnað embættisins við rekstur ökutækja.
Í svari lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við fyrirspurn fréttastofu kemur meðal annars fram að embættið þurfi að greiða bílamiðstöðinni frá 321 krónu upp í 381 krónu fyrir hvern ekinn kílómetra á bifhjóli. Til að setja þær tölur í samhengi má nefna að kostnaður embættisins, eingöngu af kílómetragjaldi, í kringum heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna í gær, var um ein og hálf milljón, auk bíla sem embættið þurfti að taka á leigu vegna liðsflutninga. Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, að þetta sé kostnaður sem embættið hafi ekkert um að segja enda gefi ríkislögreglustjóri út fyrirmæli til lögreglustjóra um hlutverk þeirra og skyldur í heimsóknum sem þessum.
Ásgeir segir að embættið hafi kannað hvort ódýrara væri að flytja hjólin á vagni til Keflavíkur, í stað þess að keyra þau með tilheyrandi kílómetragjaldi. Niðurstaðan hafi verið sú að töluvert ódýrara hefði verið að flytja hjólin þannig til Keflavíkur, en hætt hafi verið við þar sem því hefði fylgt mikið umstang.
Þá segir Ásgeir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi greitt um 140 milljónir króna í gjöld til bílamiðstöðvarinnar það sem af er ári. Ofan á kílómetragjaldið greiði embættið fast árgjald af ökutækjunum sem nemi 18 prósentum af kostnaðarverði hvers tækis fyrstu fimm árin og 12 prósentum eftir það.
https://www.ruv.is/frett/odyrara-ad-flytja-motorhjol-en-ad-keyra-thau