13.12.98

Heiddi.... Hvenær ætlaru að fullorðnast (1998)



AKUREYRINGAR þekkja Heiðar Jóhannsson varla öðruvísi en sem manninn á mótorhjólinu.

Á árum áður þótti hann gjarnan heldur glæfralegur á stundum, til að mynda þegar hann lék sér að því sí og æ að fara á afturdekkinu upp og niður Kaupvangsstrætið - Gilið, eins og það er kallað. Fyrir honum eru mótorhjól ástríða; lífsstíll sem hann kýs sér, hefur kostað mikið fé en hann segist ekki sjá eftir einni einustu krónu sem hann hefur varið í þetta áhugamál.

Heiðar er Eyrarpúki. Ólst upp neðarlega í Eyrarveginum, þar sem foreldrar hans bjuggu, en býr nú í Ránargötu 10 - spölkorn frá æskuheimilinu. KEA rak lengi kjörbúð þar sem íbúð hans er nú, en hann keypti húsnæðið af matvælafyrirtæki fyrir nokkrum árum, teiknaði breytingarnar og smíðaði allt sjálfur. Hann var grallari í æsku (og er kannski enn) og á m.a. skemmtilegar minningar úr húsnæðinu, þar sem hann býr nú.
Einhverju sinni spurðist á Eyrinni að gefið hefði verið gallað sælgæti í Lindu, og líka í KEA-búðinni. „Ég fór því og spurði Kidda, sem var verslunarstjóri, hvort ekki væri til eitthvað gallað gotterí." Nei, Heiddi minn,  það er ekki til neitt gallað nammi núna, var svarið. Heiðar, sem kveðst hafa verið sjö ára, vildi ekki una því og sagði: Verðum við þá ekki að búa til eitthvað gallað? Greip um leið döðlustykki, beit í það og spurði: er þetta ekki gallað? „Niðurstaðan var sú að ég mátti eiga þetta en Kiddi sagði mér svo að fara út. Og hann kallaði mig Heidda gallaða í mörg ár!"
TÍKIN Rögg er afar hænd að Heiðari, og ferðast meðal
annars með 
 honum á mótorhjóli

Heiðar og bræður hans þrír, ásamt móður þeirra og Jóni Aspar, eiga og reka fyrirtækið Sandblástur og málmhúðun, sem faðir þeirra, Jóhann heitinn Guðmundsson, stofhaði fyrir nærri fjórum áratugum. Heiðar er ketil- og plötusmiður og stjórnar framleiðsludeildinni. Þegar faðir þeirra vildi selja fyrirtækið á sínum tíma „kom ekki annað til greina en við keyptum það allir saman, bræðurnir". 
Heiðar var sjómaður í níu ár, en sjómennskan kom ekki til af góðu. „Ég asnaðist til að keyra mótorhjól fullur í Reykjayík og lenti aftan á leigubíl á Laugaveginum. Ég var nýbúinn að taka sveinsprófið og fannst svakalegt að vera í landi en mega ekki vera á hjóli. Ég réð mig því á gamla Sólbak, fyrsta skuttogarann sem íslendingar keyptu. Fyrst sem háseta og svo leysti ég af sem kokkur. Svo var mér boðið kokksplássið á Stakfellinu þegar það kom nýtt." Hann segir ekki vafamál að hann geti eldað, en er hins vegar ekki tilbúinn að jánka því að hann sé listakokkur. Segir sér þó hafa verið hælt á sjónum. Enda útlærður á  þessu sviði líka. „Það byrjaði þannig að þegar ég var í þriðja bekk í Iðnskólanum var ég alltaf búinn um tvöleytið og fór venjulega niður á Sandblástur að vinna, en mamma, sem var í stjórn húsmæðraskólans, gaf mér kokkanámskeið - sjókokkanámskeið - sem tók tvö ár, og ég tók það með þriðja og fjórða bekk. Iðnskólinn var í næsta húsi við Húsmæðraskólann í Þórunnarstrætinu, þannig að ég labbaði bara þangað yfir eftir skóla." Eftir þetta nám naut móðir Heiðars, Freyja Jónsdóttir, svo góðs af, eins og fleiri. „Eftir þetta eldaði ég matinn heima hjá foreldrum mínum, meðan pabbi var á lífi, um áramót og líka á jólunum. Ég eldaði meira að segja á þremur stöðum ein áramótin.  Sniglabandið var hér í heimsókn hjá mér, ásamt fleirum og ég eldaði fyrst hér, fór svo heim til mömmu og eldaði þar og svo til Rúnars bróður og aðstoðaði við súpugerð!"


Mótorhjóladellan náði tökum á Heiðari ungum. Föðurbróðir hans, Gósi, gaf honum skellinöðru og eftir það varð ekki aftur snúið. „
Mér fannst þetta stórglæsilegt hjól en ég var reyndar ekki nema 13 ára. Þær voru nokkrar ferðirnar sem pabbi var búinn að fara upp á lögreglustöð að ná í hjólið, því ég var tekinn svo oft hérna á Eyrinni. Alltaf að stelast!
 Svo um leið og ég varð 15 ára keypti  ég mér aðra skellinöðru." Aðspurður segist hann ekki muna hve mörg hjól hann hafi átt. En þegar hann lætur hugann reika til baka^, rifjast það fljótlega upp. „Fyrsta hjólið var Honda 450, svo keypti ég mér nýjan BSA og fékk hann með flugi; Fálkinn var með umboðið, ég hringdi suður og pantaði hjólið, lagði peninginn inn á reikning hjá þeim og fékk hjólið með flugi strax sama dag, ég gat ekki beðið." Svo heldur hann áfram að telja: „Kawasaki, Súkka... Þetta eru líklega ekki nema fimmtán til tuttugu hjól sem ég er búinn að

eiga. Ég á níu núna."

 Heiðar setti sér einhvern tíma það markmið að eiga tíu hjól þegar hann yrði fertugur, en þegar sá dagur rann upp átti hann „ekki nema" níu. Á afmælisdaginn fer hann út að borða með Maríu, þáverandi sambýliskonu sinni, og þegar þau gengu" framhjá húsi í Norðurgötunni á leiðinni heim finnst honum glampa á eitthvað innandyra. Það fyrsta sem honum kemur í hug -  ótrúlegt, en satt - er hvort mótorhjól geti verið í kjallaranum! Hann gerir sér lítið fyrir og leggst á gluggann, við litla hrifningu konunnar, og stendur þá ekki Ariel Red Hunter, árgerð 45, á gólfinu! „Ég hætti ekki fyrr en ég var búinn að eignast það." Og þar með var tíunda hjólið komið í safnið. Heiðar á nú m.a. eitt Harley Davidson-hjól og eitt BMW. „Það er árgerð 1965, Lögguhjól. Hingað komu bara tvö svoleiðis og fyrir slysni var annað miklu flottara en gekk og gerðist. Flest þessi hjól voru svokölluð R 69 eða R 60 S, en þetta er 69 S. Það þýðir hærri þjöppun og S var sportmódel, meðal annars meira króm og betri fjöðrun en í hinum. Þetta er safngripur og mjög verðmætt hjól." Ekki treystir Heiðar sér til að meta hve verðmætur mótorhjólafloti hans er. „Eg borgaði að vísu ekki nema eina og hálfa mitljón fyrir þessi þrjú sem ég keypti seinast en svona hjól fer ekki undir milljón, segir Heiðar, og bendir á stofustássið - hjólið sem hann er með í stofunni^  þessa stundina, en þar er hann alltaf með eitt upp á punt og skiptir reglulega. Nú er það Ariel Red Hunter, árgerð 1936. „Bara  varahlutirnir í þetta hjól kostuðu nærri sex hundruð þúsund." Hann segist hafa eytt miklu fé í hjólin, en „þetta hefur verið áhugamál númer eitt, tvö og þrjú alla tíð. Ég hef ekki einu sinni haft tíma fyrir konur út af mótorhjólum!" segir hann og hlær. Dregur svo í land og segir: „Við skulum segja að ég hafi varla haft tíma..." En hann segist ekki sjá eftir krónu sem farið hefur í mótorhjólin. „Það eina sem ég sé eftir er að hafa ekki farið á torfæruhjól miklu fyrr en ég gerði. Ég er í raun kominn yfir aldur til að vera að leika mér á svoleiðis; vegna þess að þetta er erfiðasta íþrótt í heimi.
Ímyndaðu þér sjúkleikann í manni; ég fór í líkamsrækt til að vera nógu sterkur til að geta byrjað á fullu á torfæruhjóli í sumarbyrjun." 

Eftir að snjóa leysir eyðir Heiðar nefnilega flestum helgum á fjöllum og hefur alla tíð ferðast mikið á mótorhjóli. Á sínum tíma fór hann á Harley Davidson-hjólinu yfir Sprengisand og Kjöl, inn í Landmannalaugar, oftsinnis hefur hann skroppið til Siglufjarðar og  Ólafsfjarðar og helgarferðir austur á firði voru algengar hér á árum áður. Þá eru ferðirnar milli Akureyrar og Reykjavíkur ófáar í gegnum tíðina, sumarið 1972 segist hann til dæmis hafa farið sex ferðir suður. Nú telur hann hins vegar búið að eyðileggja þá leið með „með helv... malbikinu".
 Þegar malbikinu lauk í Glerárþorpinu á Akureyri og tók ekki aftur við fyrr en í Ártúnsbrekkunni hafi verið gaman að lifa! „Það er ekkert varið í að keyra suður núna. Maður er við það að sofna á hjólinu á malbikinu! Það var frábært að ferðast á gömlu, góðu malarvegunum. Það var lífið! Það var hægt að keyra jafn hratt og nú en það var erfiðara að stjórna hjólinu og þar af leiðandi miklu skemmtilegra."

En hann ferðast ekki bara innanlands. „Hún hefur fylgt manni víða, þessi della. Sumarið 1983 henti  ég til dæmis drasli í eina tösku, var í gallanum, strigaskónum og leðurjakkanum, keyrði austur og fór með Smyrli út. Þvældist svo einn um Evrópu í einn og hálfan mánuð. Ég svaf oft fyrir utan bensínstöðvar, á graseyjum; tók bara jakkann og henti yfir mig og svaf í góða veðrinu." Í þessari ferð fór hann alla leið suður til Costa del Sol, syðst á Spáni. „Fyrsta hálfa mánuðinn var ég mikið á hraðbrautum en eftir það bara á smávegum; fór í gegnum þorp og þá kynntist maður því að ferðamenn eru líka velkomnir í litlu bæjunum. Sjaldséðir, en mjög velkomnir. Á einum stað í Frakklandi stoppaði ég þar sem var eiginlega bara bóndabær, krá og ein bensíndæla. Ég fór inn til að fá mér einn bjór og þegar ég birtist stóðu allir upp og tóku í höndina á mér. Það var enginn smákliður sem fór um hópinn þegar ég sagðist vera kominn alla leið frá Íslandi; sumir vissu ekki einu sinni hvar það var.
Þarna komu menn á dráttarvélum með heyvagna, stoppuðu og fengu sér einn bjór og héldu svo áfram." 

Heiðar hefur einnig flakkað um á mótorhjóli í Bandaríkjunum og einu sinni á Norðurlöndunum, en mest hefur hann þvælst um innanlands eins og gefur að skilja. Og fjallaferðir  hafa átt hug hans allan síðustu ár. „Þær gefa manni miklu meira en flakk á malbiki.
Það er frábært að bruna úr bænum og upp á fjöll strax eftir vinnu á föstudögum. Vera á hálendinu og gista í kofum. Maður kemur svo endurnærður úr fjallaloftinu og sefur aldrei betur en þegar maður er búinn að keyra sig gjörsamlega út; búinn að keyra í fimm eða sex klukkutíma og hafa þurft að standa á hjólinu mestallan tímann; í torfærum, bröltandi yfir ár og læki og börð. Og hafa jafnvel þurft að bera hjólið langar leiðir. Þá er maður gjörsamlega búinn, sefur eins og steinn og hlakkar til að vakna aftur og komast á hjólið." 

Heiðar og þrír félagar hans voru á fjöllum um síðustu verslunarmannahelgi. „Við hittumst í Nýjadal og keyrðum um alla helgina. Það er frábært að komast úr glaumi og gleði bæjarins og keyra um frjáls eins og fuglinn. Að ég tali nú ekki um að keyra með góðum ökumönnum. Ég er ekkert sérstaklega góður; get þó haldið sæmilega vel áfram og menn stinga mig ekkert af! Mesta áskorunin er að hanga í þessum góðu, sem eru snillingar á torfæruhjólunum." Hann nefnir einn til sögunnar, sem kallaður er Heimir hægfara, vegna þess hve erfitt var að fylgja honum eftir! Heiðar segir ótrúlegt hve mikilli færni sumir nái á torfæruhjólunum. Einn kemur upp í huga hans, sem hreinlega flýgur yfir börð og grjóthnullunga; sá fari yfir á 50 km hraða þegar aðrir laumist á 10. „Meistari Viggó er alveg ótrúlegur." „Menn þurfa að vera ótrúlega sterkir til að ná slíkri leikni. Þeir
sem eru sterkastir ná yfirleitt lengst." En þrátt fyrir þessi orð segir hann líka „rosalega gaman" að keyra um þjóðvegina á mótorhjóli, þrátt fyrir allt malbikið! „Maður er skuggalega frjáls, það er alveg sérstakt að keyra og fá vindinn fangið, finna aflmikil slög „Hallans" og heyra þungar drunur!"

En hvernig er það, skyldi Heiðar ekki stundum vera talinn galinn af „venjulegu" fólki?
„Jú, margir jafnaldrar mínir hafa haft orð á því við mig. Margir spurðu gjarnan: Heiddi, hvenær ætlarðu að fullorðnast? Hvenær ætlarðu að hætta þessari vitleysu? En eftir því sem tíminn líður hefur þetta breyst: Margir þessara manna eru nú búnir að fá sér hjól; hafa skilið að þetta er viss lífsstíll.
Um leið og ég sest niður kemur hún að hlið mér
 og vill láta klóra sér á maganum,
" segir hann um tíkina. 
Hún var flækingshundur
sem hafði
gert sér bæli  undir gámi við
 Vélsmiðju Guðmundar í Kópavogi
 þegar starfsmenn fyrirtækisins fundu hana þar.
 Þeir tóku tíkina í fóstur, sáu henni fyrir fæði
og húsnæði, en þrátt fyrir að hún hafi verið auglýst
 í hálft ár voru viðbrögðin engin. Maria, fyrrum
sambýliskona
Heiðars og dióttir Guðmundar í
vélsmiðjunni, fór þá með hundinn norður til
Akureyrar þar sem Rögg unir sér nú vel. „
Hún er ótrúlega blíð og góð," segir Heiðar. 
Að það að fara um á mótorhjóli getur veitt manni mikla fullnægju." Heiðar nefnir líka að í gamla daga hafi stundum verið talað um að hann skildi heilann eftir heima, þegar „maður var að djöflast; keyra um á afturhjólinu, taka fram úr bílum eða taka hraðasyrpur..." Slíkt er hins vegar liðín tíð. Heiðar segir ekkert óeðlilegt við það í dag að fimmtugur maður fái sér mótorhjól. Jafnvel sextugur. „Það er  talsvert um að menn sem áttu mótorhjól fyrir löngu séu að fá sér hjól aftur. Menn sem þurftu að selja hjólin þegar þeir stofnuðu fjölskyldu og fóru að byggja." Hann segir þó suma enn skjóta á sig fyrir mótorhjóladelluna. „Mektarmaður einn hérna í bænum sagði einhvern tíma við mig: 

Heiddi,hvenær  ætlar þú að hætta þessu mótorhjólabulli þínu? 

Ég spurði á móti: Hvenær ætlar þú að selja golfsettið þitt? 

Þetta er della, en mjög skemmtileg della. Og hún er mjög heilbrigð, vegna þess að það er erfitt að vera á mótorhjóli." Heiðar segir sjö vini sína hafa dáið á mótorhjólum í slysum og í framhaldi af því nefnir hann að nauðsynlegt sé fyrir fólk á mótorhjóli að „vera sérstaklega varkárt í umferðinni.  Maður hefur lært það í gegnum tíðina og hefur líklega lifað af vegna þess að maður lítur alltaf á bílinn sem óargadýr. Er alltaf á varðbergi". Og hann segir að þegar mótorhjól lendi í slysi sé það alltaf skráð sem mótorhjólaslys, jafnvel þótt bíll hafi valdið því. „Vissulega hafa orðið slæm mótorhjólaslys en hversu mörg slæm bílslys hafa orðið? Okkur er oftar en ekki kennt um og tryggingafélögin hafa sérstaklega níðst á mótorhjólamönnum í gegnum tíðina. Hjólin eru alls ekki hættulegri en bílar og miklu léttari; 200 kíló í staðinn fyrir tvö tonn. Þar af leiðandi eyðir bíllinn helmingi meira bensíni. Hjólin eru því miklu náttúruvænni; menga miklu minna." Heiðar segir að hér áður fyrr hafi svo virst sem fólk á mótorhjóli væri nánast réttdræpt hvar sem var. „Þá var daglegt brauð að maður var  hálfpartinn keyrður niður af fólki sem ekki sá mann eða þóttist ekki sjá mann. Það virti mann ekki viðlits og sérstaklega var áberandi úti á þjóðvegunum hve ökumenn gerðu í því að koma í veg fyrir að mótorhjól kæmust fram úr bílum þeirra." Blaðamaður ber upp á Heiðar að hann hafi verið talinn býsna kræfur og kaldur karl á hjólum sínum hér í eina tíð. „Það gerðu engir aðrir það sem ég gerði!" svarar hann, en dæmir ekki um hvort kjarkur eða fífldirfska hafi ráðið ferðinni hjá sér. Tekur þó fram að hann vilji engum að reyna það sem hann gerði á stundum. „Ég lék mér oft að því að keyra upp og niður Gilið á afturdekkinu, jafnvel með farþega. Sunnlendingar komu svo einu sinni og voru að prjóna" í Gilinu og töldu sig voðalega kalda. Ég lagði hjólinu og fylgdist með, ætlaði að spjalla við þá á eftir og kynnast þeim. Var á BSA Lightning-hjólinu. Þeir keyrðu tuttugu til þrjátíu metra og hvöttu mig svo til að prófa og það endaði með því að ég steig á hjólið, fór niður á bryggju og keyrði á afturdekkinu alla leið upp Gilið og kom svo niður aftur á afturdekkinu! Þá stigu þeir af hjólunum og voru ægilega móðgaðir! Eg var auðvitað í mjög góðri þjálfun, sérstaklega í Gilinu. Var búinn að
fara þetta margoft." 
Leiðin sem Heiðar fór á afturdekkinu, frá Torfunefsbryggju og upp Gilið, er um 500 metrar skv. mælingu Morgunblaðsins! 
Og áfram kemur Gilið við sögu.
Heiðar hélt þar eitt sinn eftirminnilega sýningu fyrir erlenda ferðamenn. Heiðar og vinur hans voru tilbúnir að fara út að skemmta sér, en ákváðu að fara smá hressingarrúnt. „Það var ægilega gott veður. Þegar við komum í Gilið er þar rúta full af útlendingum og ég geri það að leik mínum að keyra á afturdekkinu alla leið upp eftir með hann aftan á. Svo kem ég eins niður aftur og þá eru útlendingarnir búnir að raða sér í kantinn og veifa mér, allir með myndavélar. Biðja mig að gera þetta aftur. Ég gerði það auðvitað, fór fimm eða sex ferðir upp og kom alltaf á afturdekkinu niður aftur. Í eitt skiptið reisti ég hjólið of mikið, alveg í 90 gráður, og félagi minn datt aftan af og ég var næstum því lentur inn á Bautann! Hann boppaði á rassinum eina 15 metra." Byltan kom þó ekki í veg fyrir að þeir færu út að
skemmta sér um kvöldið, en farþeginn fór þó heim áður og skipti um buxur! Áður en blaðamaður kvaddi Heiðar spurði hann um ævikvöldið.
Hyggst maðurinn á mótorhjólinu
eyða ellinni á slíku farartæki? Og ekki stóð á svari:
 „Já. Þegar ég verð orðinn það gamall að ég ræð ekki við mótorhjól á tveimur þá fæ ég mér hliðarhjól. Ég verð frekar á þríhjóli en fara í hjólastjól! Þetta er hlutur sem eldist ekki af manni."
Morgunblaðið 13.des 1988
www.timarit.is