9.8.14

Motocross er fyrir þá sem vilja hafa gaman




Eiður Orri Pálmarsson er 9 ára gamall en hann verður 10 ára á þessu ári. Eiður stundar motocross og er með tvö mótorhjól í bílskúrnum sem hann er duglegur að æfa sig á. Eiður segir motocross–íþróttina henta fyrir alla, börn, fullorðna, stráka og stelpur en hann minnir á hversu mikilvægt er að vera með góðan hlífðarbúnað þegar hjólað er á mótorhjóli. 



Hvað gerir maður í motocross?
Maður stekkur, beygir og keyrir hratt til dæmis.
Hvar stundar þú motocross?
Ég keyri á MotoMos–brautinni í Mosfellsbæ og uppi í Bolöldu sem er á móti Litlu kaffistofunni. Svo er ein braut rétt hjá heimilinu mínu og við förum stundum þangað. Það er líka hægt að keyra á Akranesi og Aukureyri.
Ferðast þú um allt landið til að stunda motocross?
Já, og þegar við förum til Akureyrar þá erum við kannski í tvo eða þrjá daga.
Hvernig eru motocrossbrautirnar?
Til dæmis er MotoMos–brautin úr svona sandsteypu.
Hvenær byrjaðir þú að æfa þig á mótorhljól?
Þegar ég var þriggja ára. Þá þurfti ég minna mótorhjól.
Hver kenndi þér á mótorhjól? 
Hann pabbi. Svo er ég að æfa uppi í Bolöldu, þá eru þjálfarar að kenna okkur, þeir heita Gulli og Helgi.
Eru einhverjir vinir þínir að stunda þessa íþrótt líka? 
Já, þeir heita Máni, Víðir og Fannar. Víðir er með mér í skóla.
Hvað er skemmtilegast við að æfa motocross?
Keppnin er skemmtileg og svo eignast maður marga vini.
Er þetta hættuleg íþrótt? 
Hún getur verið það. Þess vegna notum við hjálm, legghlífar, brynjur, hálskraga og annan hlífðarbúnað.
Hefur þú dottið á mótorhjóli? 
Já, oft og stundum hef ég meitt mig.
 Hver er munurinn á mótorhjólunumþínum?
Annað þeirra er 65 cubic og hitt er 85 cubic, þannig að annað þeirra er stærra og fer betur ofan í holur. Ég er nýbyrjaður að nota þetta sem er stærra.
Hvað segir fólk þegar þú segir þeim að þú sért að æfa motocross?
Sumir eru hissa en ekki allir.
Myndir þú mæla með þessari íþrótt?
Já, aðallega fyrir þá sem eru með keppnisskap og fyrir þá sem vilja hafa gaman. Sumir prófa að hjóla án þess að keppa.
Áttu þér einhver önnur áhugamál?
Já, fótbolta og skíði og ég er að æfa það líka.
Barnablaðið 9.8.2014