14.2.14

rafmagnaður vélfakur (2014)


   Þegar talað er um rafmótorhjól er hætt viðþví að flestir fái upp í hugann mynd af suðandi rafmagnsvespu eða álíka saumavél. Rafhjólin frá Bultaco ættu að fá viðkomandi til að skipta um skoðun.



Bultaco Rapitán er mótorhjól sem tekið verður eftir

Bultaco, sem er með höfuðstöðvar sínar í Barcelona, er fornfrægt merki sem hefur að mestu legið í láginni síðan 1983. Ljóst er af nýjustu hjólum fyrirtækisins að þar á bæ ætla menn að koma inn á markaðinn aftur með látum og stæl. Til þess hefur Bultaco nú kynnt til sögunnar tvö spennandi rafknúin mótorhjól, Rapitán og Rapitán Sport, sem koma í sölu snemma á næsta ári.

Rafknúin raketta

Þar sem hjólin eru knúin af liþíumrafhlöðu er bensíntankur óþarfur og það rými hefur haganlega verið endurhugsað sem geymsluhólf fyrir hjálminn. Hjólið dregur um 145 kílómetra á hleðslunni og tekur um fjórar klukkustundir að fullhlaða. Aflið er vel viðunandi – alltént fyrir skynsama ökumenn – og ná
hjólin um 150 km/klst. hámarkshraða en rafmótorinn skilar 54 hestöflum og 125 Nm af togi. Er þá ótalið að hjólin líta alveg dægilega vel út, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Morgunblaðið
10.6.2014

jonagnar@mbl.is