„Já, vorið 2009 byrjuðum við með Hekluskógum,“ sagði Hjörtur L. Jónsson, formaður Ferða- og útivistarfélagsins Slóðavina sem fengu á dögunum styrk frá Pokasjóði vegna uppgræðsluverkefnis klúbbsins í nágrenni Sultartangalóns, innan Hekluskóga.Hópurinn hefur plantað í kringum Vaðöldu í fyrrum farvegi Tungnaár. Í sumar er hópurinn að vinna að uppgræðslu og skógrækt á svæðinu fjórða árið í röð. Slóðavinir hafa plantað um 4.000 plöntum við Vaðöldu frá 2009 og dreift um þremur tonnum af áburði á svæðinu.
Kjarninn var í Vélhjóla- og íþróttaklúbbnum
„Í rauninni kemur mikill hluti Slóðavina úr Vélhjóla- og íþróttaklúbbnum og var kannski styrkasta stoð klúbbsins. Stór kjarni af þessum hópi var að vinna með Vélhjóla- og íþróttaklúbbunum í smá gróðurmálum í kringum Bolaöldu, beint á móti Litlu kaffistofunni þar sem borinn var áburður, plantað og fleira. Það var gert svolítið mikið af því árin 2006-2008,“ sagði Hjörtur.
Hann segir að þeir sem hafi verið að ferðast og í frístundaakstri, en ekki í keppni hafi fengið orðið minni þjónustu hjá klúbbnum og menn hafi því séð að þeim væri jafnvel betur borgið í nýjum félagsskap. Upp frá því hafi Ferða- og útivistarklúbburinn Slóðavinir verið stofnaður.
Upphafið má rekja til ársins 2001
„Vélhjóla- og íþróttaklúbburinn byrjaði 2001 í gróðurtilraunum í tengslum við keppnishald. Ég stýrði því og hef alltaf verið inni á þessari línu að ekki bara taka heldur að maður þurfi líka að gefa,“ sagði Hjörtur.
Hjörtur segir að með þessi nái hópurinn bæði að ferðast um landið og njóta útivistar. Hann segir að oft sé bæði um að ræða hjólaferðir fyrir og eftir gróðursetningu. „Svona gróðursetningar taka ekkert voðalega langan tíma ef það er samvinna. Þannig að það er hægt að ná fínum hjólatúr á undan eða eftir,“ sagði Hjörtur.
„Svo bara sá maður árangurinn, hvað hann var mikill og vitandi það að svæðið væri svo miklu miklu stærra heldur en Slóðavinir koma nokkurn tíma til með að ráða við og ekkert of margir voru að ganga til liðs við Hekluskóga, og eftir hrun hafa menn frekar verið að fjarlægast þá og standa ekki við gefin loforð, hef ég heyrt, datt mér þá í hug að bjóða götuhjólafólki að koma að þessu líka af því að það er malbikaður vegur alla leiðina,“ sagði Hjörtur.
Fimm vélhjólafélög auk Slóðavina stunda gróðursetningu á svæðinu
„Það gekk upp og það voru þarna fimm félög sem vildu prufa þetta og líka sem bara rúnt í leiðinni, stoppa þarna í tvo tíma, dreifa áburði og gróðursetja. Það var ekki málið. Eina sem þarf nauðsynlega að gera fyrir þann hóp er að sturta þremur bílhlössum þarna í bílkantinn svo þau komist út af veginum. Því það er hættuleg umferð þarna,“ sagði Hjörtur.
Aðspurður um hversu lengi verkefnið muni standa sagði hann: „Vonandi bara um aldur og ævi, en götuhjólaklúbbunum var boðið að taka þátt í verkefninu í þrjú ár og vonandi verður það þróað áfram og fleiri aðilum boðið að koma að verkefnum.“
Verkefnið sem hér um ræðir hefur fengið heitið „Mótorhjólaskógur“ og vélhjólaklúbbarnir sem taka þátt eru: Bifhjólasamtök Lýðveldisins Sniglar, BMW Íslandi, Ernir Suðurnesjum, Skutlur Kvennaklúbbur, HOG chapter Iceland Harley Davidson eigendur og Ferða-og útivistarfélagið Slóðavinir. Mótorhjólaskógurinn var formlega opnaður 19. maí síðastliðinn, þó ennþá vanti nokkuð upp á að svæðið fái skógarásýnd, enda byrjað í svörtum vikursandi. Plantað var um 2.000 trjáplöntum á opnunardegi og þremur tonnum af áburði dreift.
Hver hópur hefur afmarkað svæði meðfram veginum inn á Sprengisand nokkru austan við brúna yfir Þjórsá við Sultartangavirkjun. Hver reitur er 500*500 metrar. Slóðavinir eru þó áfram með sinn reit við Vaðöldu.
Árangurinn mjög góður
Hjörtur segir árangurinn vera góðan. „Við plöntuðum 25 plöntum í tilraunareit vorið 2009 og í fyrravor voru 18 ennþá lifandi, enda ef maður stingur niður skóflu og mokar holu þá er mold þarna niður á 10-20 sentimetrum. Það liggur bara vikur þarna yfir eftir Heklugos.“
Á meðfylgjandi myndum frá Slóðavinum má sjá árangurinn af verkum Slóðavina auk vinnu annarra vélhjólaklúbba við gróðursetningu og uppgræðslu.