29.11.06

Dindlarnir eru heldrimenn á bifhjólum

Einn vinnufélagi minn var hálfhneykslaður á að við,
fullorðnir karlmenn, værum að dandalast og dindlast á mótorhjólum.“
Þingvallahringurinn er vinsæll meðal bifhjólamanna og mörgum þeirra þykir gaman að gefa í á kaflanum frá þjóðgarðinum og niður í Þrastalund. Þessa leið renna Dindlarnir oft á þrælpússuðum mótorhjólunum og sólargeislarnir dansa á króminu.
Þeir lentu þó í því í sumar að ökumaður, sem kom á eftir þeim inn á veitingastaðinn í Þrastalundi, kvartaði undan því hvað þeir hefðu farið hægt! Hver hefði trúað því um mótorhjólakappa?
Dindlarnir eru svo sem engir venjulegir bifhjólamenn og fullyrða í gamansömum tóni að þetta séu
heldrimannasamtök! Fyrirliðinn í hópnum er Jóhann Ólafur Ársælsson, sölustjóri námutækja hjá Kraftvélum, fæddur og uppalinn í tækjum og tólum, að eigin sögn. Hann hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um bifhjól. Hrafn Antonsson, rekstrarstjóri Hagvagna, er Dindill og sama er að segja um Auðun Óskarsson, bónda á Rauðkollsstöðum á Snæfellsnesi og framkvæmdastjóra Trefja, og Ágúst Pétursson, framkvæmdastjóra Byggingarfélagsins Verkþings.
Tveir heiðursdindlar, þeir Hjörtur Guðmundsson slökkviliðsmaður og Kristján Stefánsson byggingatæknifræðingur voru erlendis þegar rætt var við þá heiðursdindla og voru því fjarri góðu gamni.Yngsti Dindillinn er Gunnar S. Birgisson, forstöðumaður hagdeildar hjá Vífilfelli. Hann hefur minnsta bifhjólareynslu og sumarið í sumar var hans fyrsta hjólasumar. Hann vildi því ekki fara of hratt yfir og þess vegna urðu Dindlarnir „fyrir aðkasti fyrir hægaganginn“ eins og áður segir. „Við erum allir miklir áhugamenn um bifhjól,“ segir Óli Ársæls, eins og hann er alltaf kallaður. „Við Auðunn höfum þekkst frá því við vorum unglingar
og deilt þessu áhugamáli. Ég setti fyrsta mótorinn aftan á reiðhjólið mitt þegar ég var 16 ára en fékk svo skellinöðru og loks mótorhjól. Ég starfaði hjá Bílaborg sem flutti inn Yamahamótorhjól og ekki
minnkaði áhuginn við það. Seinna eignaðist ég hlut í Merkúr hf. sem tók yfir Yamahaumboðið og segja má að mótorhjól hafi verið undir bossanum á mér í ansi mörg ár. Auðunn smitaðist fljótlega af Óla Ársæls, vini sínum, og svo bættust menn í hópinn, einn af öðrum.“ Hvernig er dindlanafnið
tilkomið? „Einn vinnufélagi minn var hálfhneykslaður á að við, fullorðnir karlmenn, værum að dandalast og dindlast á mótorhjólum,“ segir Óli. Hann var eiginlega „antímótorhjólamaður“ og fór að
kalla okkur Dindla og sagði iðulega: „Óli ertu að fara út með Dindlunum?“ Ég sagði svo sem ekki mikið við því.“

 Ekki skæruliðasveit 

Heldrimannahópurinn hafði þó ekki fengið fast nafn fyrir þrem,
fjórum árum þegar hann brá sér til Þingvalla í lúxusveðri, einmitt þegar háttsett kínversk sendinefnd var  stödd þar. Hópurinn nam staðar við Peningagjá þar sem hópur útlendinga í fylgd með Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseta, var að horfa á glampandi aurana í gjánni. Útlendingarnir fengu ofbirtu í augun þegar „krómaður“ hópurinn mætti á staðinn og hættu að horfa niður í gjána. Heldrimennirnir þeystu svo að Þingvöllum og þar mætti þeim þétt röð af lögreglumönnum, sjúkra- og slökkvibílum, enda viðbúnaður mikill af ótta við að Falun Gong menn birtust. „Hópurinn ókyrrðist þegar við birtumst og menn héldu eflaust að þarna væru komnir skæruliðar. Við renndum okkur inn á planið og röðuðum hjólunum sex fallega upp. Um leið kom lögreglumaður og spurði hvað við værum að gera. „Bara að viðra okkur,“ var svarið. „Eruð þið þá ekki með nein mótmæli?“ „Aldeilis ekki.“ „Í því birtist lið frá Ríkissjónvarpinu og enn er spurt hvað við værum að gera þarna og síðan hver væri foringi hópsins. Félagarnir bentu á mig og þar með var ég orðinn foringinn.“ „Og hvað heitir  félagsskapurinn?“ spurði sjónvarpsfréttamaðurinn. „Eina nafnið sem mér datt í hug var Dindlarnir. Ég var beðinn um að útskýra það og sagði bara að það væri eins með okkur og litlu lömbin með sakleysislegan dindilinn, við færum ekki hratt yfir. Þetta væri því gott nafn á okkar góðlátlega félagsskap. Þar með urðum við formlega til sem Dindlar og um leiðheimsfrægir um allt Ísland,“ segir
Óli Ársæls.

Gulur eða grár fiðringur

 Það kemur upp úr kafinu að menn líta á Gunnar sem lærlinginn í hópnum, enda eignaðist hann fyrsta hjólið sl. vor. Það kom ekki til af góðu. Hann hafði keypt húsið af Óla og sá mótorhjólið hans í bílskúrnum og vildi helst fá það líka. Óli sagði honum að það væri það síðasta sem hann vildi selja. Svo birtist Gunnar allt í einu á gullfallegu Kawasakihjóli og var tekinn í hópinn. Hann segist ekki hafa farið hratt yfir í byrjun en æfingin skapi meistarann. Heiðursmennirnir segjast tala mikið um öryggi og brýni hver fyrir öðrum að þetta sé alltaf hættulegt. Menn verði að æfa sig vel. Ágúst segir að hættan liggi ekki síður í öðrum ökumönnum. Fólk sjái ekki hjólin, vanmeti fjarlægðina og finnist mótorhjólamenn ekki eiga neinn rétt. Sjálfur átti hann vin sem dó í mótorhjólaslysi þegar hann var 18 ára. Í hvert skipti sem hann færði í tal við konu sína að kaupa hjól var svarið þvert nei. Hann endaði þó með að kaupa hjól og konan sér að honum er treystandi.
Dindlarnir segja að gott sé að fara í smáhjólatúr í lok vinnudags. Við það hvílist menn og komi endurnærðir til baka. Þeir segja líka að sumir haldi því fram að menn kaupi sér mótorhjól þegar þeir séu lausir við gráa fiðringinn og þá taki guli fiðringurinn við. Ágúst er með aðra skýringu: „Menn eru með bullandi gráan fiðring en taka bara hjólið fram yfir annað verra og láta skynsemina ráða.“

Eftir Fríðu Björnsdóttur
 fridavob@islandia.is
Morgunblaðið 29.11.2006