16.8.06

Vegur aðeins 23 kíló

Nýjasta mótorsportið á Íslandi hentar jafnt fullorðnum mótorhjólamönnum, fimm ára krökkum og fimmtugum konum.

 Við fyrstu sýn virðast mini-motohjólin vera hálfgerður brandari, fullorðið fólk sem brunar eftir braut á alltof litlum mótorhjólum sem líta út fyrir að vera smíðuð fyrir fjögurra ára börn. Kristmundur Birgisson segir að þau séu þó að minnsta kosti jafn skemmtileg og stærri mótorhjól.
  „Ég á Hondu CBR 1000-hjól líka, það er ekkert síðra að fara út á litla kvikindinu,“ segir Kristmundur. Til að gefa einhverja hugmynd um hversu lítil mini-motohjólin eru, þá eru aðeins 40 cm frá götu upp í sæti. Þau vega 23 kg með fullan tank af bensíni og komast upp í 60 km hraða. Þau eru ætluð í keppni og eru því á sléttum, mjúkum dekkjum með mikið veggrip. Vélarnar eru 49 rúmsentimetra tvígengisvélar sem toga 4,5 Nm á 15.000 snúningum.
   „Maður þarf enga reynslu af öðrum hjólum til að ráða við þessi. Það getur auðvitað ekki gert annað en að hjálpa, en er ekki nauðsynlegt. Við höfum verið að hjóla niðri við Klettagarða og allir sem hafa komið þangað og viljað prófa hafa fengið að prófa, meira að segja fimmtugar konur sem höfðu gaman af,“ segir Kristmundur sem flutti sjálfur inn fyrsta hjólið fyrir um það bil ári.
  „Þá lenti ég í veseni við tollinn því hjólið var ekki með fastanúmeri og því ekki hægt að skrá það. Ég hafði samband við framleiðandann og bað  hann um að setja fastanúmer á þau og síðan hefur innflutningurinn gengið vel.“ Kristmundur byrjaði í mótorsportinu á stórum amerískum bílum í kringum 1986 og segir mini-moto-hjólin skemmtilegri að mörgu leyti. „Þetta er líka miklu ódýrara og tekur mikið minna pláss í skúrnum. Svo er hægt að henda hjólinu í skottið og fara með það hvert sem er. 
  “ Í sumar verða haldin tvö mót fyrir mini-moto en næsta sumar verður haldin mótaröð undir merkjum GP-Ísland. Til þess að vera löglegur í keppni þarf ökumaður að vera 12 ára eða eldri. Kristmundur segir þó að börn frá 5 ára aldri ráði vel við hjólin. Og það þarf ekki að kosta mjög mikið að byrja í sportinu. „Hjólin kosta 69.000 kr. í vefverslun okkar á fingrafar.is,“ segir Kristmundur. „Svo þarf að vera í góðum galla eða með góðar hlífar og með  þokkalegan hjálm. Maður kemst af með 100.000 krónur sem er ekki mikið í mótorsporti.“
 Kristmundur og félagar hjóla flest góðviðriskvöld á milli Sindra og vélaverkstæðis Heklu í  Klettagörðum. Áhugasömum er bent á að leggja leið sína þangað til að prófa.
einareli@frettabladid.is
Fréttablaðið 16.08.2006

10.8.06

Öðruvísi ferðamáti

Sigfús Ragnar Sigfússon - Sigfús í Heklu - og eiginkona hans, María Sólveig, voru í Víetnam fyrirnokkrum árum. Þar sáu þau hve margir óku um á mótorhjólum. „Konan var svo hrifin af þessu að ég gaf henni mótorhjól í afmælisgjöf fyrir fjórum árum.
Það var ómögulegt að hafa hana eina á mótorhjóli þannig að ég keypti líka mótorhjól fyrir mig.“

Sigfús segir að skriflega prófið hafi vafist fyrir þeim. „Við féllum bæði í fyrsta skipti við litla gleði.“ Hjónin náðu síðan prófinu. „
Við hjólum mest í Reykjavík. Auk þess hjólum við í nágrenni borgarinnar eins og til dæmis til Þingvalla og Eyrarbakka. Við hjólum reyndar bara í góðu veðri. Það er nauðsynlegt að vera varkár vegna þess að mótorhjólafólk mætir oft talsverðu tillitsleysi í umferðinni.“ Sigfús segir að þegar á mótorhjólið sé komið verði frelsistilfinning öllu yfirsterkari.
„Við förum á staði sem við færum annars ekki á. Þetta er öðruvísi ferðamáti og ómetanlegt að hafa konuna með í sportinu. Mótorhjólafólk sem hittist á förnum vegi spjallar gjarnan saman og er það líka krydd í sportið. Svo er skemmtilegur siður á meðal mótorhjólafólks að gefa smá nikk með vinstri hendi þegar hjólafólkið mætist í umferðinni.“
Frjáls Verslun 4 tbl 2006