27.10.05

Með bensín í blóðinu

Tryggvi Sigurðsson
 Það fæðast sumir með bensín í blóðinu og það er með það eins og svo margt annað í lífinu, þetta leggst í ættir og er Tryggvi Sigurðsson talandi dæmi um það. Hann er þriðji ættliðurinn sem haldinn er bíladellu á háu stigi og ekki er hann minni áhuginn á mótorhjólum. Bílaeignin endurspeglar þennan áhuga, hún er ekki mæld í jeppum heldur bílum og mótorhjólum sem eiga sér sögu og hafa sál og djásnin eru Ford Mustang 68 og Harley Davidsson mótorhjól. Tryggvi er Eyjamaður í húð og hár, sonur Sigurðar Tryggvasonar og afinn er Tryggvi Gunnarsson oft kenndur við Hornið og sjálfur segist Tryggvi tilheyra Hornaflokknum. Tryggvi er vélstjóri á Frá VE en hann á sér annað áhugamál sem eru skip og bátar. Það er ekki margt sem hann veit ekki um báta sem einhvern tíma hafa verið gerðir út frá Vestmannaeyjum, hann á mjög gott myndasafn af bátum og síðast en ekki síst smíðar hann líkön af skipum og bátum af ótrúlegri nákvæmni þar sem nostrað er við hvert smáatriði.
Þetta áhugamál er efni í stórt og mikið viðtal en nú ætlunin að halda sig við bíla og mótorhjól. Tryggvi tekst allur á loft þegar hann er spurður um Mustanginn og hann hellir tölulegum staðreyndum yfir blaðamann sem veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. „Þetta er Ford Mustang árgerð 1968, Fastback
Ford Mustang Fastback 1968
sem mér fínnst skipta miklu máli. Vélin er V8, 302 rúmsentimetrar og gæti verið um 250 hestöfl. Bíll og vél er upprunalegt og hann er m.a.s. á upprunnalegum felgum," segir Tryggvi um þennan dýrðar bíl. Tryggvi er búinn að eiga Mustanginn í tvö ár, en hann var ekki einn um hituna. „Eg var búinn að bíða lengi eftir honum og þeir slógust um hann bíladellukarlarnir. Fyrri eigandi býr á Skagaströnd og þar stóð bíllinn inni í bílskúr nema á tyllidögum, var bara notaður spari. Það er búið að keyra hann 58.000 mílur sem er ekki mikið á tæplega 40 árum." Tryggvi segir að Mustanginn hafi verið í þessu standi þegar hann keypti hann en var nýsprautaður þegar hann var fluttur inn árið 1990. „Eg keypti hann á milljón á borðið sem eru eðlileg afföll af heimilisbílnum á tveimur árum." Tryggvi segir að Ford Mustang hafi alla tíð verið draumabíllinn enda mjög vinsæll þegar hann var að alast upp. „Þegar ég var peyi átti Silli Þórarins flottan Mustang og þegar ég fékk bílpróf 17 ára fékk ég að keyra hann og það var mikil upplifun fyrir ungan svein." En Tryggvi er ekki sá eini sem er haldinn þessum kvilla ef kvilla skyldi kalla. „Það hefur alltaf verið bíladella í Hornaflokknum," segir hann og vísar til þess að fjölskyldan hafi löngum verið kennd við Hornið. „Maður ólst upp við þetta, afi Tryggvi  Gunnarsson eða Labbi á Horninu eins og hann var oft kallaður var bæði með bíla- og mótorhjóladellu, pabbi, Siggi Labba, hélt uppi merki afa í þessum efnum og við bræður mínir eru líka bíladellukarlar. Addi Steini er flottur á því, keyrir um á Porche og sá yngsti er verri en við Addi Steini til samans," sagði Tryggvi.
Þá er komið að mótorhjólunum og þar er ekki komið að tómum kofunum því Tryggvi á fjögur mótorhjól og það elsta er frá árinu 1946. „Mótorhjólin tóku allan minn tíma og pening þegar ég var ungur það tók maður í arf frá bæði pabba og afa. Þar var Hornaflokkurinn enn og aftur á ferðinni. Það er rétt að ég á fjögur mótorhjól í dag en að sjálfsögðu byrjaði maður á skellinöðru."
Tryggvi segir að þetta með mótorhjólin hafi verið svolítið í bylgjum og enn hefur hann ekki fjárfest í draumahjólinu en hann getur ekki kvartað. „Draumamótorhjólið er að sjálfsögðu Harley Davidsson V Road en það er það dýrt að ég get ekki réttlætt það fyrir sjálfum mér að eiga slíkan dýrgrip. En maður verður að eiga einn Harley og ég á Harley Davidsson Sportster 1200, árgerð 2000. Svo á ég tvö Hondahjól, CB-750 af árgerðum 1975 og 1976 sem eru sams konar hjól og ég átti og þegar þú varst að elta mig," sagði Tryggvi hlæjandi og vísaði til fyrri starfa blaðamanns í lögreglunni.
„Fjórða hjólið er Matchless 500 árgerð 1946 sem ég gerði upp. Ég gaf það nú eiginlega syni mínum og hann notar það sem stofustáss. Hann fékk líka hjá mér skellinöðru sem ég gerði upp. Hún er af gerðinni Honda Dax, árgerð 1971 og var upphaflega 50 rúmsentimetrar en er í dag 85 og enginn má vita það."
 Áttu þér annan draumabíl en Mustang? „Mig hefur lengi langað í jafnaldra minn, Chevrolet Bel Air 1957. Annars hef ég aldrei verið með einhverja einstefnu í bílategundunum, hef verið blessunarlega laus við það. Benz er vandaðasti bíllinn, en samt er það nú svo að hver bíll hefur sín einkenni eða öllu heldur karakter."
Er bíladella eitthvað sem eldist afmönnum? „Ég veit það ekki, sjálfur ætla ég að halda þessu áfram á meðan það gefur mér einhverja ánægju. Það sem háir mér er lítill tími því það fer mikill tími í bátasmíðina, svo er það fjölskyldan og sjómennskan og svo er ég  með dellu fyrir bátum og skipum í fullri stærð og á mikið myndasafn og þekki sögu flestra í
Eyjaflotanum. Til að slappa af frá þessu öllu saman finnst mér best að stíga á mótorhjól og taka einn hring. Eg þekki ekkert sem er eins afslappandi," sagði Tryggvi að lokum.

Eyjafréttir 27.10.2005

11.10.05

Vélhjólasport vaxandi íþrótt

Fjölskyldufyrirtækið JHM sport hefur verið við Stórhöfða 35 í eitt ár. Áður var það í kjallara í heimahúsi en er nú stærra og fjölbreyttara. Jón Hafsteinn Magnússon, eigandi fyrirtækisins hefur verið viðriðinn vélhjólabransann frá því árið 1970 og nú hafa orðið kynslóðaskipti þar sem börnin hans eru komin á fullt í sportið. Dóttir hans, Klara Jónsdóttir, vinnur í JHM sport auk þess sem hún er sjálf á fullu í sportinu. „Ég var alltaf á litlu hjóli þegar ég var lítil og hætti svo í smá tíma. Núna er ég byrjuð á fullu. Þetta er ótrúlega gaman, það skemmtilegasta sem ég geri," segir Klara. Mikil aukning hefur orðið á vélhjólasporti undanfarin ár og eru fjölskyldur farnar að stunda þetta saman. Sportið hefur verið landlægt síðan fyrir 1970. Fyrst voru það aðallega karlar sem stunduðu vélhjólasport en konur hafa sótt í sig veðrið undanfarin ár og eru farnar að keppa í vélhjólasporti, þ.e. mótorkrossi og Enduro. I motorkrossi er keppt á tilbúnum brautum en í enduro á vegslóðum. Þá eru hjólin skráð,
með ljósi og annað slíkt. Á þeim hjólum má keyra innan bæjarmarka en á mótorkross hjólunum má einungis vera á lokuðum svæðum. Þess má geta að sonur Jóns Hafsteins er núverandi íslandsmeistari  í enduro. Búnaður skiptir öllu máli þegar byrja skal í þessu fjöruga sporti. Nauðsynlegt er að hafa hjálm, hanska og brynju sem fer annað hvort innan undir eða yfir utanyfirflíkina. í JHM sport er hægt að fá allt í tengslum við vélhjólasportið auk þess sem þar vinnur fagfólk sem veitir persónulega ráðgjöf.
Blaðið 11.10.2005
http://timarit.is/